c

Pistlar:

1. janúar 2012 kl. 12:49

Ágústa Johnson (ajoh.blog.is)

2012 árið þitt? 7 góð ráð

2012sky.jpgGleðilegt ár!  2012 er ár þinna tækifæra!

Er árið 2012 árið sem þú ætlar að hugsa betur um heilsu þína og þennan eina líkama sem þú átt?  Hefurðu sett þér markmið fyrir árið? 

Hér eru nokkur góð ráð sem þú getur nýtt þér til að koma skrokknum í betra form á nýju ári og auka orku þína og vellíðan.

1. Ekki byrja á öfugum enda.   Byrjaðu á æfingum sem eru hæfilega krefjandi fyrir þig.  Það gefast margir upp á fyrstu vikunum í ræktinni vegna þess að farið var af stað með of mikilli ákefð.  Þá er í besta falli líklegt að þér muni líða næstu dagana á eftir, eins og þú hafir orðið undir valtara eða finna fyrir mikilli þreytu og jafnvel ofálagi.  Það er eðlilegt að finna fyrir einhverjum strengjum og harðsperrum og ef þú ferð af stað með skynsamlegum hætti ættirðu ekki að upplifa slíka vanlíðan að þú kemst vart fram úr rúminu daginn eftir.

2. Þarfnast mataræðið þitt skoðunar?  Það er sama hvað þú stundar mikla þjálfun, ef mataræðið þitt er í ólagi er erfitt að ná góðum árangri í ræktinni.  Þú þarft á mikilvægum næringarefnum að halda og jafnvægi í fæðuflokkunum til að kroppurinn blómstri.  Hollt og gott mataræði, trefjaríkt, auðugt af grænmeti og ávöxtum og að mestu laust við sætindi, gefur þér auk þess meiri orku fyrir æfingarnar, bætta meltingu og betri líðan.

Nýársheit3. Góð hvíld er jafn mikilvæg og góð þjálfun.  Það er ekki vænlegt til árangurs að stunda stífar æfingar alla daga vikunnar. Slíkt er dæmt til að leiða til ofþjálfunar.  Góð hvíld á milli æfinga er undirstöðuatriði til að ná góðum árangri í þjálfun.  Þannig nærðu slökun og endurnæringu og tryggir að þú getir lagt þig vel fram og tekið vel á í æfingunum.  Átta tíma svefn er æskilegt viðmið. 

4.  Haltu streitu frá þér.  Ef streita nær tökum á þér getur hún haft slík neikvæð áhrif að það hamli því að þú njótir allra þeirra mögulegu góðu áhrifa sem þjálfunin og hollt mataræði getur skilað þér.  Það er illmögulegt að forðast streitu með öllu en þú getur lært að hafa stjórn á henni.  Slökun, hugleiðsla og öndunaræfingar eru góðar leiðir til að ná tökum á andlegri streitu og það er jafn mikilvægt markmið og það að komast í gott líkamlegt form.

5. Ákefðin vinnur meira með þér en tíminn í þjálfun.  Spáðu aðeins í það!  Það er ekki endilega víst að þú sjáir mikinn árangur í ræktinni þó að þú eyðir allt upp í 90 mínútum þar oft í viku.   Ef þú ert ekki að reyna nægilega mikið á þig í æfingunum skaltu ekki búast við miklum framförum.  Vertu viss um að þú sért að leggja nógu mikið á þig svo þú náir að nýta tímann sem þú eyðir í líkamsrækt sem best og náir þeim markmiðum sem þú hefur sett þér.

6. Láttu ekki blekkja þig.  Þú þarft engar pillur eða duft í pökkum eða dollum til að ná árangri.  Ef þú ert að reyna að stytta þér leið með því að moka ofan í þig brennslutöflum, próteindufti eða öðrum fæðubótarefnum ertu í besta falli að sóa peningunum þínum og í versta falli mögulega að skaða heilsu þína.  Það eina sem þú þarft að innbyrða er hollur, fjölbreyttur og heilnæmur matur.  Ekkert annað.  Ef þú neytir ekki fiskmetis nokkrum sinnum í viku getur verið gagnlegt að taka inn Lýsi eða aðrar Omega 3 fitusýrur.  Skilaboðin eru þó einföld, borðaðu holla og fjölbreytta fæðu til að stuðla að bættri heilsu og koma þér í fínt form.

7. Þolþjálfun eða "brennsluþjálfun" eins og margir eru farnir að kalla þolþjálfun er EKKI besta leiðin til að brenna fitu eins og lengi hefur verið haldið fram.  Rannsóknir seinni ára hafa leitt mjög greinilega í ljós að styrktaræfingar sem reyna á marga vöðva í líkamanum í einu s.s. hnébeygjur, armbeygjur, planki og upphífingar eru talsvert áhrifaríkari æfingar þar sem þær byggjast á að auka grunnbrennslu líkamans og ýta undir að eftibrunaáhrif verði til við æfingarnar sem krefjast mikillar áreynslu.   Afhverju að eyða tímanum þínum í margra klukkustunda skokk á viku ef þú getur náð sama eða betri árangri á skemmri tíma?    Þú færð meira út úr æfingunum með því að æfa í styttri og meira krefjandi lotum sem bæði þjálfar hjarta- og æðakerfið þitt, eykur vöðvastyrk og heildar hitaeiningabrennsla verður meiri sem og líkamsfitutap.

Ef þig langar að komast í þitt draumaform á nýja árinu mæli ég með námskeiðunum í Hreyfingu.  Fyrir konur og karla, byrjendur og lengra komna, þú finnur eitthvað sem hentar þér:  Árangur, Fanta gott form, Hot fitness, Hraðferð, Pilates fitness.

www.hreyfing.is