c

Pistlar:

6. febrúar 2012 kl. 17:41

Ágústa Johnson (ajoh.blog.is)

6 góð ráð fyrir þá sem eru að hugsa.

making-time-for-exercise.gif"Ég er á leiðinni að byrja að æfa reglulega" hef ég heyrt ótal sinnum í gegnum tíðina.  Það er jákvætt að vera á leiðinni, vissulega betra en að vera ekki á leiðinni.  Það sem vantar er auðvitað að taka skrefið.  Kannast þú e.t.v. við að vera á leiðinni?  Hefurðu verið að íhuga í talsverðan tíma að láta verða af því að skella þér í ræktina?  Þá er bara eitt að gera.  Hætta að hugsa um það og vinda sér í æfingagallann og drífa sig af stað.  Engar góðar afsakanir eru fyrir því að hinkra.  Líkamsþjálfun fylgja ekkert nema endalausir ávinningar.

Aukin lífsgæði

Lífsgæðin aukast að svo mörgu leyti við það að lifa heilbrigðu lífi.  Hreyfa búkinn og liðka, styrkja vöðvana með markvissum hætti og borða hollt og fjölbreytta fæðu. Verða léttari á sér, léttari í lund, hraustari, sterkari, liðugri, þolbetri o.s.frv.  Flestir hafa oft heyrt og vita vel hvaða góðu kostir fylgja því að rækta líkamann, og þeir eru vissulega fjölmargir og góðir.

Við forgangsröðum í lífi okkar og gjarnan fer tíminn okkar að mestu í það sem okkur þykir mikilvægast í lífinu og það sem okkur langar mest til að gera.  Sumir setja ekki líkamsrækt í forgang í lífi sínu fyrr en þeir upplifa heilsubrest sem hægt hefði verið e.t.v. að koma í vef fyrir með heilsusamlegum lifnaðarháttum.

Það þarf ekki að vera svo flókið og mikil fyrirhöfn að stíga skrefið og byrja að stunda líkamsþjálfun. 

Hér eru 6 góð ráð fyrir þá sem eru að hugsa um að hefja reglubundna líkamsrækt.

1. Stutt æfing er betri en engin.  Öll þjálfun skiptir máli. Það koma dagar þegar þér finnst þú ekki finna tíma fyrir líkamsræktina. Ekki detta í „allt eða ekkert“ hugsunina . 

2. Finndu 15 mínútur á þessum annasömu dögum til að hreyfa þig. Ef þú ert efins um að hægt sé að ná einhverri þjálfun sem skiptir máli á þessum tíma þá get ég fullvissað þig um að allt telur.

3. Öll hreyfing er betri en engin. Prófaðu eftirfarandi  tillögur til að koma auka hreyfingu inn í annasama dagskrá þína og þú getur verið viss um að þú ert að vinna markvisst að þínum markmiðum.

4. Notaðu alla stiga sem þú kemst í.  Hjartslátturinn hækkar við að hlaupa stigana í stað þess að taka lyftu. Oft er fljótlegra að taka stigann heldur en að bíða eftir lyftunni og um leið ertu að fá hreyfingu sem skiptir máli. 

5. Farðu í göngutúr  eins oft og þú getur, t.d. strax á morgnana,í hádeginu, eða eftir kvöldmat.  Góð hugmynd til að ná að strunsa aðeins og fá ferskt loft í lungun um leið, er að fara út í hádeginu.  Er e.t.v. einhver staður í göngufæri sem þú getur keypt þér hollt og gott salat og svo geturðu strunsað aftur til baka í vinnuna.

6. Sniðugt getur verið að hafa gott sippuband heima fyrir eða æfingakerfi á DVD. Það er hægt að nota slíkt hvenær sem er.  Ef þú hefur misst af því að komast á æfinguna þína, getur 15 mín sipp eða stutt æfingakerfi á DVD sem þú skellir í tækið þitt þegar þér hentar, gert gæfumuninn.

Ekki hugsa lengur, láttu verða af því.  Þú hefur engu að tapa, en allt að vinna!