c

Pistlar:

20. mars 2012 kl. 20:28

Ágústa Johnson (ajoh.blog.is)

Gómsætir og hollir íspinnar - uppskrift

popsicle_eater6.jpgBörnin segja stundum ,,Allt óhollt er gott og allt sem er hollt er vont".  Það má e.t.v. deila um hvort eitthvað sé til í því.   Ef það er til kex eða annað sætmeti í skápunum eru litlir fingur gjarnan duglegir að teygja sig í slíkt frekar en að afhýða appelsínu eða banana.  Það getur verið snúið að fá börnin til að velja hollari kostinn. 

Gómsætir heimagerðir íspinnar þykja flestum börnum mikið lostæti og upplagt að hafa nóg af þeim aðgengilega í frystinum fyrir smáfólkið.  Þú ræður innihaldinu og getur haft þá stútfulla af vítamínum og næringarefnum og hægt að nota eigið hugmyndaflug til að hafa sem mesta fjölbreytni.  Krakkarnir geta komið heim úr skólanum og farið óhikað og náð sér í pinna í frystinum og mega kannski fá sér fleiri en einn á dag! 

ispinnar.jpgÍspinnarnir eru auðvitað ekki bara fyrir börnin, þeir eru ljómandi sniðugir sem hollur og góður biti á milli mála fyrir mömmu og pabba líka.   Prófaðu þessa og prófaðu þig áfram með þínar eigin útgáfur, það má nota jógúrt, skyr, allskonar safa og ávexti og ýmsilegt fleira.  

1. Grænjaxlinn 

Tvær vænar lúkur af fersku spínati
1 banani
1 kúfaður bolli af frosnu mangó
1 dl Gojiberja safi (Berry company)
Klaki
(má gjarnan bæta út í t.d. 3 mjúkum steinalausum döðlum ef blandarinn er öflugur)
Hrært saman í blandara, hellt í íspinnaform og fryst.


2.  Berjadraumur


1 kúfaður bolli frosin ber (jarðaberja, bláberja eða hindberja)
1 banani
2 sneiðar gul melóna
1 dl. vatn og klaki
Hrært saman í blandara, hellt í íspinnaform og fryst.

3.  Bláberjasæla

2 bollar frosin bláber
1 pera
1 dl. Bláberjasafi (Berry company)
Klaki
Hrært saman í blandara, hellt í íspinnaform og fryst.