Við lærum það snemma á
lífsleiðinni að tannburstun er hluti af
sjálfsagðri líkamsumhirðu og engin undankomuleið hvað það varðar. Regluleg tannburstun fyrirbyggir
tannskemmdir. Það höfum við lært.
Sumarið er tíminn
Stór hluti fólks finnur
sér ýmsar afsakanir fyrir að hreyfa sig ekki reglulega. Það sannfærir sjálfan sig með ýmiskonar
afsökunum og ákveður að það sé ásættanlegt að stunda heilsurækt stundum og stundum ekki. Sérstaklega á það við um sumartímann. Þá eru enn fleiri en ella sem ákveða með
sjálfum sér að það sé í lagi að taka sér frí frá ræktinni.
Skyndihjálp eða lífsstíll?
Auðvitað er sjálfsagður
hluti af daglegu lífi að hugsa vel um heilsuna og viðhalda
góðum vöðvastyrk, liðleika og hjarta- og lungnaþoli. Ekki bara ákveðna mánuði ársins, heldur alltaf, alla ævi.
Þjálfun er ekki lúxus eða munaður sem fólk leyfir sér annað slagið, né skyndihjálp eða skammtíma lausn sem nóg er
að stunda í stuttum lotum 2-3x á ári.
Þetta vita allir, ekki satt?
14 daga að detta úr formi
Líkamsrækt er í eðli sínu ekkert
öðruvísi en tannumhirða, hana þarf að
stunda reglulega og um leið og þú hættir missir þú fljótt niður það sem þú hafðir
fyrir að byggja upp. Rannsóknir sýna að
eftir 14 daga hlé frá æfingum tapast styrkur og þol hratt niður eftir það. Ein rannsókn sýndi að byrjandi sem hafði æft
af krafti í 2 mánuði hafði tapað niður öllu þoli sem hann byggði upp, eftir 2ja
mánaða hlé frá æfingunum.
Ógæfutölur á vigtinni
Góðu fréttirnar eru að sífellt fleiri eru að átta sig á mikilvægi þess að æfa allt árið um kring og halda sínu striki þrátt fyrir jól, páska og sumarfrí. En því miður er enn fjöldi fólks sem lítur á heilsurækt sem einskonar skyndihjálp sem gott er að taka í styttri lotum, gjarnan í kjölfar þess að vigtin tekur upp á því að sýna ógæfulegri tölu.
Það er augljóslega afar óskynsamlegt að sleppa tannburstun í nokkra
mánuði á ári. Það er alveg jafn óráðlegt
að hætta í líkamsræktinni yfir sumarmánuðina.
Hvað finnst þér?
Finnst þér ótrúverðug fyrirsögn þessa pistils? Hvað ef hún hefði verið „50% hætta að æfa á sumrin"? Hefði þér fundist það trúlegri fullyrðing? Er það ásættanlegt?
Þú getur breytt!
Hvernig væri að snúa
dæminu við í sumar. Á þessum árstíma
hafa margir meiri frítíma. Þá er einmitt
tilvalið að setja sér ný heilsuræktar markmið. T.d. að geta gert fleiri armbeygjur á tánum, að geta hlaupið hraðar og
lengur, eða geta rennt upp uppáhalds gallabuxunum. Meiri orka, kraftur, úthald og styrkur gerir lífið
skemmtilegra, betra og e.t.v. lengra!