c

Pistlar:

12. júlí 2012 kl. 5:40

Ágústa Johnson (ajoh.blog.is)

Hvað er mest grennandi? Ný rannsókn.

óunnin fæðaYfirgengilegt magn upplýsinga má finna á netinu og víðar um "rétta" mataræðið til að komast í kjörþyngd og stuðla að heilbrigðu hjarta og æðakerfi.  Það skal engan undra þótt margur verði ruglaður í ríminu af öllum misvísandi ráðleggingunum sem fyrir finnast.  Gamla góða reglan er jú vissulega alltaf í gildi;  borða hollt og fjölbreytt fæði í hæfilegu magni og stunda þol- og styrktarþjálfun ekki sjaldnar en 3x í viku. En þar með er ekki öll sagan sögð.  

Í júní s.l. voru birtar í Journal of the American Medical Association fremur athygliverðar niðurstöður rannsóknar þar sem könnuð voru áhrif mismunandi mataræðis á þyngdartap hjá hópi fólks af báðum kynjum og á öllum aldri.  Kannað var þrennskonar mataræði. 

1. Fitulítið (low fat diet)

2. Fæði með lágum sykurstuðli (low-glycemic-index diet)

3. Kolvetna snautt fæði (low carbohydrate diet) 

Magn hitaeininga var það sama í öllum þrem flokkum. Rannsóknin var geysilega nákvæm og stóð yfir í fjögur ár. Niðurstöðurnar má lesa í heild á vefsíðu J.A.M.A.

Í stuttu máli kom eftirfarandi fram í niðurstöðunum:

EKKI ERU ALLAR HITAEININGAR EINS
Helstu niðurstöður voru að þegar tekið er mið af efnaskiptum líkamans eru EKKI allar hitaeiningar eins.  Sýnt hefur verið fram á þetta áður en ekki á sama hátt og nú og þykir það gefa skýrt til kynna hver raunin er og telja menn að nú sé kominn tími til að nýta þessa þekkingu til að gefa út uppfærðar og gagnlegri leiðbeiningar til almennings um leiðir til að losna við aukakíló og koma í veg fyrir hjartasjúkdóma. 

LÁGUR SYKURSTUÐULL BESTI KOSTURINN
Mataræði með lágum sykurstuðli var samkvæmt rannsókninni það besta til að léttast og um leið stuðla að heilbrigðu hjarta.  Þátttakendur í þessum flokki brenndu 150 he. meira á dag en þeir sem voru á fitusnauðu mataræði.

FITUSNAUTT FÆÐI ÓHEILSUSAMLEGT
Fitulítið mataræði hafði síst áhrif á þyngdartap og hafði neikvæð áhrif á blóðsykur og kólesteról í blóði.

KOLVETNASNAUTT FÆÐI  SKAÐLEGAST
Kolvetnasnautt mataræði hafði mest áhrif á þyngdartap en þótti skaðlegast heilsunni.  Streitu hormónið Kortisól jókst hjá þátttakendum og einnig jókst bólgumælikvarðinn CRP sem er talinn gefa til kynna aukna hættu á hjartasjúkdómum.

processed.jpgDr. David S. Ludwig aðalhöfundur rannsóknarinnar lét hafa eftir sér: "Fæði sem er verulega skert af fitu eða kolvetnum getur haft slæm áhrif á heilsu fólks.  Besta leiðin til lengri tíma litið er að forðast að sleppa úr mikilvægum næringarefnum, hvort sem er fitu eða kolvetnum, og leggja frekar áherslu á gæði næringarefnanna.  Vissulega er hitaeiningafjöldinn þýðingarmikill þáttur en mikilvægara er en áður var talið að velja næringarefnin með tilliti til gæða.   Því sem gjarnan hefur verið haldið fram til þessa, að öll fæða geti verið hluti af hollu mataræði svo lengi sem heildarhitaeiningafjöldi er innan æskilegra marka, er i besta falli misvísandi.   Næringarfræðingar á vesturlöndum hafa lengi lagt höfuðáherslu á að minnka fituneyslu.  Þessi rannsókn og í raun margar aðrar gefa sterklega til kynna að það er enginn ávinningur fylgjandi því að leggja sérstaka áherslu á að takmarka fitu í fæðunni.  Óunnin fæða með lágum sykurstuðli er besti kosturinn.   Veljið óunna fæðu eins oft og mögulegt er og sneiðið hjá pakka- og dósamat, sykri, gosdrykkjum og öðrum sætindum."