c

Pistlar:

7. september 2012 kl. 14:00

Ágústa Johnson (ajoh.blog.is)

Ertu að þjálfa allt sem skiptir máli? Taktu jafnvægisprófið

balance.jpgFólk er gjarnt á að hreyfa sig minna eftir því sem aldurinn færist yfir.   Kannanir sýna að aðeins lítill hluti fólks sem kominn er yfir sextugt stundar reglubundna líkamsþjálfun.

Vöðvamassi tapast um allt að 40%
Það eru vond tíðindi af ýmsum ástæðum.  Konur og karlar tapa vöðvamassa með aldrinum.   Talið er að vöðvamassi geti tapast um allt að 40% frá aldrinum 20 - 80 ára.  
Slíkur vöðvamissir leiðir augljóslega til þess að almennur vöðvastyrkur minnkar og efnaskipti líkamans verða mun hægari þar sem virkur vöðvavefur rýrnar.  Það leiðir til þess að fólk fitnar og hlutfall vöðva og fitu í líkamanum verður mun óhagstæðara og erfiðara að halda kjörþyngd.

Ein leið til að sporna við þessari þróun er að stunda styrktarþjálfun og einnig er önnur mikilvæg tegund þjálfunar sem allt of margir gefa ekki gaum  og ættu að stunda í auknum mæli , nefnilega  jafnvægisþjálfun.

Afhverju er jafnvægisþjálfun mikilvæg?
Jafnvægisþjálfun samhliða styrktarþjálfun, sérstaklega fyrir miðju líkamans (djúpvöðva) og neðri hluta, minnkar t.d. líkurnar allt að þrefalt á að eldra fólk hrasi.  Þú ert e.t.v. á besta aldri og hefur ekki áhyggjur af því núna að detta illa en það er aldrei of snemmt að vinna að því að þjálfa gott jafnvægi.   Styrktaræfingar fyrir neðri hluta líkamans s.s. hnébeygjur, framstig og dauðalyftur, sem byggja upp styrk í lærum, rassi og mjöðmum í bland við jafnvægisæfingar, geta komið í veg fyrir meiðsli af ýmsum toga.

Mikilvægi styrktar-og jafnvægisæfinga
Því miður er það gjarnan svo (en ekki algilt) að þegar miðaldra og eldra fólk hreyfir sig, vinnur það oftar en ekki á litlu og meðal álagi t.d. í gönguferðum.   Vissulega fylgja því kostir en gerir lítilð til að auka styrk, vernda vöðvamassa eða þjálfa jafnvægið. Betra væri að skipta niður æfingatímanum og eyða hluta af honum til styrktar- og jafnvægisæfinga.  Hvort sem þú ert um tvítugt, á fertugsaldri og stundar keppnisíþróttir, eða kominn yfir sextugt, er jafnvægisþjálfun nauðsynleg og skiptir verulegu máli fyrir þig.

Taktu jafnvægisprófið
Hefur þú gott jafnvægi?  Prófaðu þetta einfalda próf.  Settu hælinn á öðrum fæti við tærnar á hinum eins og þú ætlir að ganga eftir beinni línu.  Haltu þessari stöðu með handleggi niður með hliðum og lokaðu augunum.  Ef þú getur ekki auðveldlega haldið stöðunni í 30 sekúndur eða lengur án þess að riða þarftu að þjálfa upp betra jafnvægi.

Þú getur gert ýmislegt til að þjálfa jafnvægi þitt.  Einfalt ráð er að standa á öðrum fæti oft í viku.  Prófaðu það með lokuð augun og prófaðu einnig að beygja þig fram með beint bak eins og myndin hér að ofan sýnir.  

Lokaorð
Heildrænt heilbrigði og hreysti felur í sér fleira en að að hafa gott þol og vera í kjörþyngd.  Vertu viss um að æfingakerfið þitt feli í sér góðar styrktaræfingar, sérstaklega fyrir neðri hluta líkamans og djúpvöðva, jafnvægisæfingar, þolæfingar og liðleikaþjálfun.