Hefurðu hugsað vel um heilsuna þína á árinu og e.t.v. náð góðum árangri í ræktinni? Langar þig að halda þínu striki, njóta jólahátíðarinnar án þess að heilsuræktarmarkmiðin þín bíði skaða af?
Ljóst er að sykur-, salt- og fituneysla þjóðarinnar nær hámarki eftir nokkra daga. Feitt hangikjöt hverfur ofan í þjóðina í tonnavís, óteljandi konfektkassar verða tæmdir og herlegheitunum er skolað niður með dísætum gosdrykkjum.
Málið snýst ekki aðeins um aukakílóin sem landsmenn safna á sig næstu 2 vikurnar. Heilsunni getur staðið veruleg ógn af veisluhöldunum ef ekki er skynsamlega að farið.
Hér eru 5 góð ráð til að halda þér réttu megin við strikið.
1. Ekki fara hungruð/aður í jólaboðin.
Til að koma í veg fyrir að borða of mikið í jólaboðum er betra að borða eitthvað hollt áður en farið er að heiman. Einn ávöxtur, nokkrar hnetur og 1-2 glös af vatni er dæmi um það sem getur bjargað þér frá því að borða yfir þig í jólasamkvæminu.
2. Hreyfðu þig.
Settu þér í dag þá reglu að hreyfa þig í 45-60 mín a.m.k. annan hvern dag í jólafríinu. Hreyfingin örvar blóðrásina, eykur hitaeiningabrennslu og lætur þér líða betur á svo ótal marga vegu.
3. Epli og mandarínur.
Epli og mandarínur tilheyra jólunum. Beittu þér fyrir því að hafa innan seilingar epli og mandarínur á heimilinu þínu og e.t.v. einnig á vinnustaðnum þínum. Takmarkaðu framboð á smákökum, konfekt og sætindum. Það er óþarfi að hafa gotteríið í augsýn alla daga. Frekar að taka það fram úr skápnum og neyta í takmörkuðum mæli.
4. Jólin snúast um samveruna.
Þegar þú lítur til baka og rifjar upp jól fyrri ára eru það líklega ljúfu minningarnar um samverustundirnar með vinum og fjölskyldu sem standa upp úr. Ætli jólin yrðu nokkuð síðri þó að við höldum okkur innan skynsamlegra marka þegar kemur að því að raða í okkur kræsingum. Það eina sem gerist er að við verðum fegin eftir á, að hafa beitt smá sjálfsaga og hætt þegar komið er nóg.
5. Drekktu vel af vatni.
Misjafnt er hvað er á borðum landans um jólin en víst er að saltríkur matur er á meðal þess sem neytt er í ríkum mæli og er vissulega ekki hollasti matur sem völ er á. Allt er gott í hófi og í fínu lagi að gæða sér á slíku einstaka sinnum. Til að koma í veg fyrir bjúg og vatnssöfnun er mikilvægt að drekka nóg af vatni og hreyfa sig. Varastu að borða saltríkan mat dag eftir dag og þá sérstaklega er það varasamt fyrir heilsu eldra fólks. Fréttir af auknu álagi á bráðamóttöku sjúkrahúsanna yfir jól og áramót sem rekja má beint til mataræðis landsmanna, hafa því miður verið árviss viðburður síðustu ár.
Settu heilsu þína í forgang þessi jól.
www.hreyfing.is