Eitt algengasta áramótaheitið er að losna við aukakílóin. Margir fara af stað með háleit markmið en ekki komast allir á leiðarenda. Til að ná að losna við aukakílóin og falla ekki af leið er grundvallar atriði að setja upp gerlega áætlun. Þeim sem hefur tekist að losna varanlega við aukakílóin fundu jafnvægið á milli heilbrigðs mataræðis, reglulegrar þjálfunar, hvíldar og slökunar.
Þessar fjórar gildrur eru til að varast ef þú vilt bæta líkamsástand þitt.
1. "Síðasta kvöldmáltíðin"
Þeir sem hafa tekið ákvörðun um að minnka mittismálið byrja oft ekki fyrr en þeir hafa tekið eitt rækilegt loka "sukk" áður en átakið hefst. Dæmigert er að nýi lífsstíllinn skuli hefjast á mánudegi eftir heljarinnar átveislu helgarinnar. Það vill svo oft því miður verða þannig að sama munstrið heldur áfram. Aðhaldið varir frá mánudegi til fimmtudags og þegar föstudagurinn rennur upp þá halda engin bönd og "nammidagurinn" dreifist yfir alla helgina. Það er ansi hætt við því að vigtin verði í sama rússíbana taktinum ef slakað er á aðhaldinu við hvert tækifæri s.s. jól, páska, afmæli allra í stórfjölskyldunni, saumaklúbbnum og við öll hin hátíðlegu tækifærin sem upp koma. Það er mun vænlegra til árangurs að njóta þess að borða reglulega fáa og smáa bita af uppáhalds gúmmelaðinu þínu í stað þess að reyna að taka nýja lífsstílinn með trukki og dýfu og springa fljótt á limminu og "detta illilega í það".
Önnur gildra sem margir falla í er að sleppa morgunverði til að fækka hitaeiningum dagsins. Ótal rannsóknir hafa þó sýnt fram á að fólk sem sleppir morgunverði borðar meira yfir daginn þegar upp er staðið. Það er algjört lykilatriði að borða morgunverð ef þú vilt ná tökum á líkamsþyngdinni.
3. Ofmat á hitaeiningabrennslu
Þú byrjar af krafti í ræktinni og tekur hrikalega vel á því, svitinn lekur af þér og þú ert afskaplega ánægð/ur með þig. Eftir æfinguna finnst þér þú heldur betur hafa unnið fyrir því að fá þér væna próteinstöng eða álíka hressingu. En ef slík "verðlaun" koma sem viðbót við aðra fæðu sem þú neytir að jafnaði, eru litlar líkur á minnkandi ummáli. Árangursríkasta leiðin til að leggja af er að að auka hreyfinguna jafnhliða því að fækka hitaeiningum að einhverju leyti.
4. Að treysta á aðra
Til að ná varanlegum árangri í fitutapi þarf að taka ábyrgð á sjálfum sér. Ef þú hyggst treysta á vin eða vinkonu til að draga þig alltaf með sér á æfingu og þú situr heima ef hann/hún mætir ekki til að sækja þig, þá er hætt við því að málið falli fljótt um sjálft sig. Það er vissulega besta mál að hafa æfingafélaga. En ekki treysta á að hann í blindni, og ekki ætlast til að maki þinn eða aðrir í kringum þig stoppi þig af ef þú ert að "svindla" í lífsstílsbreytingunni þinni. Þú ert þinn eigin gæfu smiður. Treystu á sjálfa/n þig.
Það er mun auðveldra að komast í kjörþyngd með því að tileinka sér heilbrigðan lífsstíl smám saman í stað þess að rjúka af stað með reglulegu millibili í strangan megrunarkúr. Ef þú heldur þig við hollt fæði flesta daga er í fínu lagi að láta eftir sér að smakka á uppáhalds óhollustunni öðru hvoru. Það er nauðsynlegt að njóta þess að borða það sem þig langar í en kunna að gæta hófs. Það gefast allir upp ef þeir neita sér um allt sem þá langar í. Besta lausnin er að finna skemmtilega tegund þjálfunar sem kemur þér í gott form og borða holla og fjölbreytta fæðu sem þú nýtur þess að borða, í hóflegu magni.
P.s. Ef þig langar að breyta um lífsstíl á nýju ári, kynntu þér úrval námskeiða fyrir konur og karla í Hreyfingu.