c

Pistlar:

30. janúar 2013 kl. 22:11

Ágústa Johnson (ajoh.blog.is)

Einföld leið til að missa 8kg. á árinu

vinnustöð með göngubrettiOft er það svo að litlir hlutir geta skipt miklu máli og gert mikið gagn fyrir heilsuna.  Margar rannsóknir hafa sýnt fram á að of mikil kyrrseta eykur líkur á hjartasjúkdómum, sykursýki 2 og eykur dánartíðni jafnvel þeirra sem æfa í klukkutíma í senn 2-3x í viku. 

Það sem gerist þegar þú situr tímunum saman saman dag eftir dag, er að líkami þinn fer í sparnaðargírinn.  Efnaskiptahraðinn verður hægari og líkaminn skynjar að þú ert í kyrrstöðu,  hægir á allri starfsemi, vinnur hægar og brennir færri hitaeiningum á sólarhring.  Of mikil kyrrseta eykur einnig líkurnar á bak og háls vandamálum sem geta orðið þrálát eins og margir kannast við.

Afar stór hópur fólks hreyfir sig lítið sem ekkert í vinnunni. Fjöldi fólks situr tímunum saman fyrir framan tölvuna dögum, vikum, mánuðum og árum saman.  Ef það á við um þig gæti það haft slæm áhrif á heilsu þína.  Hvað getur þú gert? 

Kostir þess að standa við vinnuna.

Með því einu að standa í 3 klukkustundir á dag í stað þess að sitja getur þú bætt heilsu þína heil mikið.  Ekki er það verra að þú brennir u.þ.b. 150 fleiri hitaeiningum á dag sem gæti þýtt að þú losir þig við kíló af líkamsfitu á 6 vikna fresti án þess að breyta nokkru öðru.

url.jpgAuk þess færðu aukið súrefni til heilans, þú ert betur vakandi og skýrari í kollinum.   Með því að standa við vinnuna minnkarðu einnig streitu. Hver hefur ekki not fyrir það?

Hægt er að fá skrifborð sem hægt er að hækka og lækka svo bæði er hægt að sitja við það og standa. Jafnvel eru fáanlegar vinnustöðvar með göngubretti svo fólk getur gengið við vinnuna eins og sést hér á myndinni a ofan.

Ef þú býrð ekki svo vel getur þú notað eitthvað af eftirtöldum ráðum:

Settu góðan bókastafla undir tölvuna þína svo þú getir unnið við hana standandi.
Hafðu það fyrir reglu að ganga um gólf þegar þú talar í símann.
Farðu oft í göngutúr í hádegis- eða kaffitímanum.
Ekki undir neinum kringumstæðum nota lyftu. 
Lærðu að elska alla stiga og nota þá óspart við hvert tækifæri.
Stilltu tölvuna þína þannig að hún minnir þig á 30 mín fresti að standa upp og hreyfa þig þó ekki sé meira en í 3-4 mínútur í senn.
Virkjaðu djúpvöðvana þína með því að sitja á jafnvægisbolta í smá stund daglega.

Að standa við vinnuna er einfalt mál en getur gert heilmikið fyrir heilsu þína.   Hvernig væri að prófa?

www.hreyfing.is