c

Pistlar:

24. febrúar 2013 kl. 17:01

Ágústa Johnson (ajoh.blog.is)

5 fitandi naslvenjur til að forðast

snacking.jpgÞað er smá kúnst að kunna að nasla rétt.  Skynsamlegar naslvenjur geta verið árangursrík leið til að viðhalda kjörþyngd.  Vandinn er að kunna að velja réttu fæðuna til að narta í á milli mála.   Hollt nart heldur blóðsykrinum stöðugum sem er líklegt til að fækka græðgis augnablikum sem mögulega enda með því að þú hreinsar allt úr nammiskápnum eða ekur að næstu sjoppu og nærð ekki fullri meðvitund fyrr en þú hefur tæmt vel útilátinn nammipoka og langar í meira.

Holla nartið getur bjargað þér frá slíkum "stórslysum" en þarf þó alltaf að vera úthugsað svo það endi ekki með stækkandi mittismáli.

Eftirfarandi fimm nartvenjur eru heldur ógæfulegar og skyldi forðast.

1. Nartað án þess að hugsa
Hver þekkir það ekki?  Við vinnuna við tölvuna teygirðu þig hugsunarlaust, mjög reglulega í snakkpokann þar til skyndilega, þér til undrunar, grípur í tómt.  
Lausnin: Ekki geyma kex, sælgæti, snakk eða annað slíkt í skrifborðsskúffunni eða annars staðar þar sem þú nálgast það auðveldlega.  Geymdu freistingar þar sem þú þarft að hafa dálítið fyrir því (og þar með umhugsunartíma) að ná í þær.   

2. Streitu nart
Stendurðu sjálfa/n þig að því að leita í sætindi og snakk þegar þú finnur fyrir streitueinkennum?  Það er þekkt að þegar ákveðin streituhormón leysast úr læðingi kemur gjarnan upp sterk löngun í einföld kolvetni.  
Lausnin: Í stað þess að leita í sætindi eða aðrar tómar hitaeiningar ættirðu að skella þér í röskan göngutúr til að losa um streituna eða leita annara leiða til að rasa aðeins út.  Ekki nota mat sem leið til spennulosunar.

0803-01_healthy-snacking-bowl-of-mixed-nuts_li_1192207.jpg3. Takmarkaðu magnið
Það skiptir öllu máli að skipuleggja millimála nart.  Ef þú kemur þér þægilega fyrir í sófanum með fulla skál af hnetum og rúsínum eru talsverðar líkur á því að allt saman hverfi ofan í þig?  Hnetur og rúsínur eru næringarríkar og hollar en þú þarft að gefa gaum að heppilegri skammtastærð. 
Lausnin: Nokkrar hnetur í lófann (ca 5-7 hnetur)  1x-2x á dag er hæfilegt sem snarl á milli mála. Gott er að miða við 100he snarl.  Sniðugt er að útbúa litla 100 he. snakk poka heima með t.d. hnetum, möndlum, fræjum og þurrkuðum berjum. Harðfiskur er líka alveg kjörinn sem millimála snarl og fæst á flestum bensínstöðvum til að grípa á ferðinni í stað sætinda.

4. Taktu svengdarprófið fyrst
Það kemur fyrir besta fólk að maula eitthvert góðgæti þó það finni alls ekki fyrir svengd.  Eirðarleysi og leiði fær fólk oft til að ráfa í eldhúsið í leit að einhverju til að henda í skál.  Þetta getur verið ákaflega fitandi ósiður og er gott ráð að taka hungurprófið áður en þú setur mat upp í þig.  Svengdarprófið er einfalt. Þú gefur þér 1 mínútu í að meta hve hungrið er mikið á skalanum 1-5.  Ef þú ert ekki a.m.k. 3 á skalanum, skaltu finna þér eitthvað annað að gera.  Þetta er einmitt augnablikið sem göngutúrinn kemur sterkur inn.

5. Ókeypis nart
Kaffistofan i vinnunni er mögulegt "hættusvæði" fyrir þann sem vill halda línunum í lagi.  Vel meinandi vinnufélagi kemur með tertuafgangana úr barnaafmælinu í vinnuna og þú ert viss um að hann verði pínulítið sár ef þú færð þér ekki væna sneið.  Og svo er það smakkið í matvörubúðinni.  Sumir segja að lítil rödd hvísli í eyra þeirra að ókeypis góðgæti sem rétt er að þeim sé ekki talið með til hitaeininga því það er frítt.   Einmitt það!   Hafðu ávallt góða yfirsýn yfir allt það sem þú borðar.  Allt telur og engar kaloríur eru"ókeypis"...  því miður.

Lokaorð
Skipuleggðu nartið þitt og nartaðu skipulega.  Ekki láta hugsunarlaust át koma í veg fyrir að þú náir þínum markmiðum.