Þú þarft ekki að svelta þig í hel eða fela þig inni í risa slæðuvafningi til að getað arkað um á bikini í sumar með sjálfstraustið í lagi. Hér eru 8 einföld ráð til að vippa þér örugglega í flott form fyrir sumarið, losa þig við leiðinda múffutoppana sem skaga svo ergilega yfir buxnastrenginn, og verða enn flottari á sundlaugarbakkanum í júlí.
1. Byrjaðu að æfa strax í dag. Nú er stutt í vorið og auðveldara að bæta aðeins við daginn t.d. með því að vakna fyrr og æfa. Tímaskortur er ekki afsökun. Hleyptu “sólskininu” inn í líf þitt og settu þjálfunina þína í forgang. Það skilar sér margfalt til baka í aukinni orku, meiri lífsfyllingu og betri líðan. Miðaðu við að æfa af krafti 3-5 daga vikunnar í 30-60 mín í senn.
2. Styttu æfingatímann og náðu meiri árangri! Hljómar það ekki of gott til að vera satt? Með því að reyna meira á þig í styttri æfingalotum geturðu náð betri árangri með myndun eftirbruna. Taktu t.d. snarpar einnar mínútu þolæfingalotur þar sem þú leggur í alla þína orku og skokkaðu rólega eða gakktu á milli og kastaðu mæðinni í 2-3 mínútur. Endurtaktu þetta í 20 mínútur. Þú nærð meiri og betri alhliða árangri með þessu móti en með því að skokka í 45 mínútur á meðalhraða, ekki slæmt það!
3. Gerðu líkama þinn að þrumu öflugri brennsluvél. Ef þér er virkilega alvara með að vilja breyta líkama þínum og endurmóta hann til frambúðar er nauðsynlegt að stunda styrktaræfingar. Stundaðu fjölbreyttar styrktaræfingar með eigin líkamsþyngd og lóðum 2x-3x í viku. Þannig eykst grunnbrennsla líkamans og líkaminn verður hæfari til að brenna fleiri hitaeiningum á sólarhring.
4. Jákvæð hugsun kemur þér langleiðina. Það er magnað hvað jákvæð hugsun getur fleytt okkur um langan veg. Sjáðu sjálfa(n) þig fyrir þér í draumaforminu, eða að gera það sem þig dreymir um að gera, geta klifið fjöll eða bara spilað fjörugan fótbolta við börnin úti í garði án þess að standa á öndinni. Þú getur þetta, það er bara spurning um forgangsröðun og viljann.
5. Komdu brennslunni í gang. Borðaðu alltaf morgunverð, komdu þannig brennslunni vel í gang um leið og þú vaknar. Borðaðu minna og oftar yfir daginn til að halda efnaskiptahraðanum sem mestum yfir daginn. Mundu! Litlir skammtar – borða 5-6 máltíðir á dag.
6. Losaðu þig við ruslfæðið. Eins og allir vita skiptir mataræðið sköpum, vilji maður minnka mittismálið. Hitaeiningar inn færri en hitaeiningar út = fitutap. Einfaldara getur það ekki verið. Minnkaðu matarskammtana og fækkaðu þannig hiteinginum um ca 500 á dag og þú losnar við 1/2kg af fitu á viku. = 2kg á mánuði = 6 kg á 3 mán. Ekki láta þér detta í hug að fækka hiteiningum niður fyrir 1400 á dag. Þá gerirðu meira ógagn en gagn, hægir á efnaskiptahraðanum og getur misst vöðvamassa. En vöðvamassi er einmitt mikilvægasti þátturinn í að viðhalda góðri brennslu.
7. Fólk með markmið kemst á toppinn. Það er aldrei of oft sagt; settu þér markmið og hafðu þau skrifleg. Mælanleg markmið s.s. að taka þátt í 10k hlaupi á ákveðnum tíma er góð leið til að hafa eitthvað að keppa markvisst að. Persónuleg áskorun getur komið mörgu til leiðar. Hvert er þitt markmið?
8. Brostu. Það er gaman að lifa og það er gaman að rækta heilsuna og líkamann og koma sér í gott form. Þér liður betur, þú lítur betur út, verður ánægðari með þig og hefur meira að gefa af þér til annara. Þessi sannindi eru margsönnuð og óumdeild. Þú getur ekki tapað á því að hreyfa þig reglulega. Auktu lífsgæði þín með ræktun líkama þíns, þess eina sem þú átt til að endast þér ævina.
Smelltu hér ef þú vilt koma þér í þitt besta form fyrir sumarið.