c

Pistlar:

27. mars 2014 kl. 19:44

Ágústa Johnson (ajoh.blog.is)

Auðvelt að verða ferskari og flottari fyrir vorið

betrali_769_f.jpg

Þó það líti e.t.v. ekki út fyrir það þessa dagana, þá styttist í vorið samkvæmt dagatalinu.  Vorið er yndislegur tími, gróðurinn lifnar við, dagarnir verða bjartari og lengri og allt verður einhvern veginn léttara og skemmtilegra.  

Vorið er líka tilvalinn tími til að hressa svolítið upp á sig, hrista af sér vetrardrungann og koma sér í góðan gír fyrir sumarið.  Hér eru nokkur góð ráð til að verða ferskari, flottari og léttari á sér fyrir vorið og sumarið.

1.  Framfarir en ekki fullkomnun
Enginn er fullkominn. Láttu ekki fótósjoppaðar platmyndir af fyrirsætum og frægum verða þínar fyrirmyndir því þær eru ekki raunverulegar.  Settu þér þín eigin markmið miðuð við þinn líkama og getu og taktu stöðuna vikulega og leggðu áherslu á að ná framförum.

2.  Safnaðu í "hreyfingarbankann".
Líttu á hreyfingu eins og smámynt sem þú setur í sparibauk.   Öll hreyfing sem þú stundar skiptir máli. Þetta gamla góða er alltaf í gildi; hlauptu stigana í stað þess að taka lyftu, leggðu bílnum aðeins lengra frá í stað þess að reyna að fá stæði við dyrnar, dansaðu á meðan þú eldar og burstar tennurnar,  hlauptu hringinn í kringum húsið þitt kvölds og morgna og fáðu þér skrefamæli og safnaðu skrefum. Öll hreyfing telur og gerir þér svo gott að öllu leyti.

3. Gerðu styrktaræfingar!
Stundaðu fjölbreyttar æfingar til að styrkja alla helstu vöðva líkamans.  Þú verður sterkari og stæltari og breytir líkama þínum í öfluga fitubrennsluvél sem er að störfum allan sólarhringinn.

4. Viðraðu þig.
Farðu reglulega út í náttúruna og njóttu þess að anda að þér fersku lofti, hlusta á fuglasöng og vera í kyrrðinni.
Allar líkur eru á að þú munir uppskera hraustlegan roða í kinnum og gleði í hjarta eftir slíka útiveru.

5. Minnkaðu sykurneyslu
Eitt af því skynsamlegasta sem þú gerir fyrir líkama þinn er að venja þig á að gæta hófs í neyslu sætinda af öllu tagi.  Sykur er víða í fæðunni og því er mikilvægt að lesa vel innihaldslýsingar og átta sig á sykurmagninu.  Ef þú vilt losa þig við einhver óvelkomin aukakíló, minnkaðu þá einnig matarskammtana og veldu holla og fjölbreytta fæðu sem samanstendur af miklu grænmeti, ávöxtum, grófu korni, hollum fitusýrum og mögrum prótínum.  Sneiddu að mestu hjá hertri fitu, sætindum og rusl fæði.

6. Drekktu vatn
Drykkir geta verið nokkuð lúmskir hvað varðar hlutdeild þeirra í fitusöfnun því þeir geta innihaldið talsvert mikið af hitaeiningum.  Stefndu að því að drykkir þínir skiptist í u.þ.b. 80% vatn og 20% aðra drykki.  Takmarkaðu alla jafna neyslu áfengis og gosdrykkja.  Ferskir safar, te og einn og einn kaffibolli ætti að vera aðal uppistaðan í 20% hlutanum þínum.

healthy_meditate.jpg7.  Gefðu þér tíma fyrir slökun.  Slökun er ekki síður mikilvæg góðri heilsu en hreyfing.  Taktu frá 15-20 mín á dag í dagbókinni þinni til að gera ekki neitt annað en að tæma hugann og slaka vel á og þú endurnærist á líkama og sál.

8. Gleði er góð fyrir heilsuna.
Er ekki óhætt að segja að allt verði betra með jákvæðu hugarfari?  Hvort glasið er hálf fullt eða hálf tómt er undir okkur sjálfum komið.  Það er er það góða við allt saman að við stjórnum sjálf okkar hugarfari og allt er spurning um viðhorf.

agusta@hreyfing.is  www.hreyfing.is 

P.s.  Langar þig í frítt gestakort í Hreyfingu?  Smelltu hér