Við vitum öll að það er skynsamlegt að huga að góðri heilsu allt árið um kring en þó er það svo að í desember sleppa margir fram af sér beislinu í mat og drykk. Vissulega er ljúft að gera vel við sig annað slagið en mikilvægt að hafa heilbrigða lífshætti í fyrirrúmi flesta daga ársins.
Í upphafi nýs árs er ekki úr vegi að skerpa á heilnæmu siðunum í lífi okkar.
Hér eru 8 góð ráð sem stuðla að auknum lífssgæðum og betri andlegri- og líkamlegri heilsu í framtíðinni.
1. Nærðu sálina. Ræktaðu áhugamálin þín og verðu tíma í gera það sem veitir þér ánægju og lífsfyllingu. Láttu þá ánægju flæða yfir í aðra þætti lífs þíns.
2. Gæði umfram magn. Ekki grípa á lofti öfgafulla matarkúra sem koma og fara á hverju ári. Notaðu heilbrigða skynsemi. Borðaðu heilnæman mat, grænmeti og ávexti og óunna fæðu og sparaðu sykur, snakk, sæta drykki og óholla skyndibita. Leggðu áherslu á gæði umfram magn. Fækkaðu hitaeiningum ef líkamsþyngd þín stefnir í óefni.
3. Lærðu eitthvað nýtt. Örvaðu heilasellurnar þínar með því að læra nýja hluti. Sama á hvaða aldri þú ert, þú getur alltaf lært eitthvað nýtt og tileinkað þér nýja þekkingu sem veitir þér ánægju. Tækni, tungumál, matreiðsla framandi rétta eða hvaðeina. Möguleikarnir eru óþrjótandi.
4. Hugsaðu jákvætt. Pollyanna kenndi okkur það að jákvæð hugsun gerir allt auðveldara og betra. Neikvæðar hugsanir eru heftandi og niðurdrepandi. Rannsóknir hafa t.d. sýnt fram á að með því að hugsa jákvætt um það að eldast getur lengt líf þitt um allt að 7 ár.
5. Hreyfðu þig daglega. Gerðu þér far um að sitja minna. Kyrrseta dregur úr orku og athafnagleði og ýtir undir leti, leiða og þunglyndi. Með því að vera virk/ur alla daga, hreyfa þig, stunda líkamsrækt reglulega og útivist, eykur þú lífsgleði þína og lífsgæði til muna. Ef þú ert að byrja í líkamsþjálfun, settu þér raunhæf markmið sem hæfa þinni getu. Lykillinn er að stunda æfingarnar reglulega og ekki gera hlé á þeim svo vikum skipti inn á milli. Byrjaðu í dag!
6. Settu þig í fyrsta sæti. Veltu fyrir þér hvort það sé kominn tími til að breyta til í lífi þínu til að þú náir að uppfylla drauma þína. Það krefst vinnu og einbeitingar að breyta og fara út fyrir þægindarammann.
7. Slökun er heilsurækt. Ekki gleyma að hvílast vel, sofa þína 7-8 tíma á nóttu og forðast streitu. Hvíld er þér jafn mikilvæg og hreyfing, bæði fyrir líkama og sál. Jafnvægi er lykillinn.
8. Skemmtu þér. Hlátur, gleði og gaman er nauðsynlegt í lífi hvers manns. Verðu meiri tíma með fólki sem þér líður best með, dansaðu eins og enginn sé að horfa og taktu skipulega frá tíma til að leika þér. Gerðu árið 2015 að árinu sem þú nýtur þess til hins ýtrasta að vera til.
agusta@hreyfing.is www.hreyfing.is
Frír prufutími í Hreyfingu