Er það ekki stórkostlegt að lífslíkur hafa almennt aukist í hinum vestræna heimi á síðustu öld, þökk sé læknavísindunum? En hafa lífsgæðin aukist a sama skapi? Auka árin sem hafa bæst við líf okkar eru því miður ekki endilega lífsgæða ár.
Lífsstílssjúkdómar hrjá stóran hóp fólks sem komið er yfir sextugt. Helst eru það hjartasjúkdómar og sykursýki sem margir glíma við og einnig Alzheimer í elsta hópnum, 80 ára og eldri.
Vitaskuld hafa sjúkdómar sem þessir mikil áhrif á lífsgæði fólks og því er vert að veita því athygli hvernig við getum fjölgað árunum sem við lifum við góða heilsu, laus við langvinna lífsstílssjúkdóma sem rýra lífsgæði okkar til muna. Er það ekki einmitt það sem skiptir okkur mestu máli, þ.e. ekki aðeins að lengja lífið, heldur mega lifa lífinu lifandi vel og lengi?
Þín framtíð?
Ættir þú þess kost að horfa inn í framtíð þína og sjá þig 85 ára, hvort vildirðu vera full/ur orku og lífsgleði að skoða heiminn og njóta samvista með vinum og fjölskyldu út um hvippinn og hvappinn eða ganga þrautargöngu með langvinna sjúkdóma, eiga í erfiðleikum með ýmsar daglegar athafnir og hafa ekki heilsu til að gera það sem veitir þér ánægju?
Minnum okkur á þá mikilvægu staðreynd að við getum haft heilmikil áhrif á okkar eigin lífsgæði í framtíðinni. Lífstíll okkar í dag, hvort sem við erum tvítug eða áttræð, hefur grundvallaráhrif á framtíðar heilsufar okkar.
Vöðvatap og efnaskiptin
Hvað vitum við? Við vitum að regluleg hreyfing og þjálfun lækkar blóðþrýsting og minnkar líkur á hjartasjúkdómum. Sjúkdómur s.s. sykursýki sem er einn mest vaxandi sjúkdómur seinni ára, sjúkdómur sem skemmir æðar og eykur til muna líkur á hjarta- og æðasjúkdómum og getur einnig skaðað sjónina sem sannarlega hefur neikvæð áhrif á lífsgæðin á efri árum.
Við vitum einnig að líkamsþjálfun minnkar líkur á offitu sem er stór áhættuþáttur fyrir sykursýki 2 og æfingarnar bæta einnig insúlínnæmi sem stuðlar að betri blóðsykursstjórn.
Annað sem hefur áhrif á lífsgæðin á síðari hluta ævinnar, er hlutfall vöðva í líkamanum. Vöðvatap hefst illu heilli heldur snemma á ævinni, eða upp úr þrítugu, en fer á flug eftir 45 ára aldurinn. Við vöðvarýrnun hægist á efnaskiptahraða líkamans og kílóin byrja að hlaðast utan á okkur. Þá koma gjarnan upp vandamál s.s. aukið insúlínnæmi sem hefur keðjuverkandi neikvæð áhrif og getur leitt til alvarlegra hjartasjúkdóma.
"Kraftaverkapillan"
Með því að stunda reglulega styrktarþjálfun alla ævi stuðlar þú að því að halda þér í kjörþyngd, halda líkamsstöðu með reisn og kemur í veg fyrir aldurstengda vöðvarýrnun. Vöðvarnir þurfa reglulega áskorun, og í raun eina leiðin til að veita þeim hana er að stunda markvissa styktarþjálfun, helst með lóðum og bæta jafnt og þétt við þyngd þeirra til að viðhalda áskoruninni. Á seinnihluta ævinnar er styrtkarþjálfun enn mikilvægari en áður og einn af lyklunum að því að bæta lífsgæðin ævilangt.
Ekki má gleyma að minnast á mikilvægi reglulegrar þjálfunar til að sporna við beinþynningu. Beinbrot á síðari hluta lífsins er ekkert grín og getur haft langvinn neikvæð áhrif á lífsgæðin. Lyftingar, hlaup og hopp hafa góð áhrif til að viðhalda beinmassanum.
Já það kemur ekki á óvart, enn og aftur er það þessi "kraftaverkapilla" LÍKAMSÞJÁLFUN sem er leiðin að betri heilsu og auknum lífsgæðum út lífið. "Pilla" sem svo auðvelt er að nálgast, allt sem þarf er viljinn.
Að lokum
Hvort sem þú ert ung, miðaldra eða öldruð manneskja í dag, er regluleg hreyfing og líkamsþjálfun af hverju tagi þér gagnleg og í raun nauðsynleg. Því fyrr sem þú byrar á því að tileinka þér reglubundna líkamsþjálfun sem lífsstíl því betur leggur þú grunninn að heilbrigðu lífi og betri lífsgæðum. Það góða er að það er ALDREI of seint að byrja, og þú finnur muninn fljótt. Þitt er valið, spáðu í hvernig þú vilt eyða dögunum þínum á seinni köflum lífs þíns og byrjaðu strax að búa þig undir að geta leikið þér létt í ellinni. Gleðilegt nýtt ár!
agusta@hreyfing.is www.hreyfing.is