c

Pistlar:

16. maí 2013 kl. 9:54

Árelía Eydís Guðmundsdóttir (arelia.blog.is)

Fyrsta sæti í hverju?

Hetjur keppa og vinna. Í keppnum er alltaf einhver sem vinnur og einhver sem tapar. Þríþraut, maraþon, járnmaðurinn, söngvakeppni, fitness, metsölulisti, keppni í fegurð. Viðtöl við fólk í fjölmiðlum endurspegla þessa keppni. Það er spurt um hvernig þeir æfa, hvenær þeir æfa, hvað þeir borða og hvaða vörur þeir noti. Hver og einn getur síðan búið til sína ímynd á facebook þar sem við setjum fram þá mynd sem við viljum sýna. Keppum jafnvel um að vera frábærir foreldrar, eða sýna á okkur einhverja þá hlið sem við erum stolt af. Hættan við keppni er að þegar við náum fyrsta sætinu og stöndum með verðlaunagripinn í hönd þá læðist að sú hugsunin "hvað næst?" Fyrirsagnir eins og "ég bara stóð upp úr sófanum og fór að keppa" eru algengar. Ég spyr hvað er að því að vera í sófanum? Eitt er ekki betra en annað, þrátt fyrir einstaklingshyggju samtímans. 

Það er gott að sinna ástríðu sinni og eyða í það tíma og fjármunum. Algjörlega frábært en það er líka hægt án þess að keppa. Gallinn við samfélag sem er að keppa er að við gleymum því að við erum öll mensk. Hetjur eru ekki menskar. Við eigum öll okkar ömulegu stundir þar sem okkur finnst við vera algjörir lúserar sérstaklega í samanburði við ALLA sem eru með etttta... Af hverju get ég ekki verið meira eins og þessi eða hin hetjan hljómar í hausnum á okkur. Ég væri svo miklu betri ef ég gæti keppt í einhverju, bara einhverju.... Sérstaklega eru ungmenni okkar viðkvæm fyrir samfélagi sem þessu. Íslenskt samfélag á met í hversu mörg ungmenni eru á geðlyfjum, miðað við aðrar Norðurlandaþjóðir. Litlar sálir sem líða illa. Það er ekki keppninni að kenna en það væri gott að við felldum grímuna og sýnum ungu fólki að við erum öll með sár og sárindi og að þrátt fyrir að við keppum þá séum við bara mannsveskjur! Við verðum að hefja hið hversdagslega upp því þar liggur hamingja okkar.

Hið hversdagslega er það sem við söknum þegar við veikjumst eða förum í burtu. Þegar unglingar og börn voru spurð að því hvað þau vildu gera með foreldrum sínum í stórri rannsókn á Íslandi voru niðurstöðurnar þessar: "Fara í sund, borða saman á kvöldin, spjalla, elda, baka, hjóla, tjilla.. Vera heim og vera hjá þeim." Hið hversdagslega er það sem skiptir máli í því er enginn keppni og sumt af því sem gert er á þessum lista er í sófanum :-). 

Ég hef sérstakan áhuga á að lesa minningargreinar (ég veit - nörd) . Maður lærir hvaða áhrif fólk skilur eftir sig hjá þeim sem minnast hins látna. Í einni minnistæðri minningargrein skrifaði fullorðin maður um ömmu sína: "Hvergi hef ég verið eins öruggur og elskaður eins og hjá ömmu." Amman hafði greinilega gefið honum nærver sína, hlustun, kærleik og virðingu. Tengingu við fortíðina og almennt verið til staðar fyrir hann.  

Rannsóknir hafa sýnt að ef við upplifum okkur örugg og elskuð þá er ónæmiskerfi okkar miklu sterkara út allt lífið. Þessi amma hafði því gefið ömmubarni sínum betri heilbrigði með því að kveikja þessra tilfinningar með sínu hversdagslega stússi. Jafnvel hefur hún haft áhrif á næstu kynslóðir með því að vekja með honum öryggi og kveikja þar með á ákveðnum genum. Nýjar rannsóknir sýna að líkami okkar "kveikir" á mismundi genum eftir því m.a. hvernig okkur líður.

Ég tek orð ungmennana mér í munn og endurtek að það sem þau vilja er að tjilla! Tjillum meira og slöppum af, lífið er ekki svona alvarlegt. Enginn mun spyrja að því við gullna hliðið hvað þú hafir unnið marga verðlaunagripi. Ég held að amman, sem ég las um, hafi hins vegar flogið inn á vængum kærleika hennar. 

Ég ætla í sófann í kvöld með fjölskyldunni og tjilla með Eyþóri Inga. Áfram Ísland, og ég á líf :-)