Thomas Moore rithöfundur, sem þekktastur er fyrir bókina sína: Care of the soul, segir að maður næri sál sína með að vinna með höndunum eða líkamanum. Þegar maður hamast við að þrífa, eða vinnur í garðinum eða gerir við heimili sitt nærir maður, samkvæmt Moore, sálina með því að endurtaka og gera við það sem í kringum mann er.
Ég er búin að hamast við að þrífa og mála undanfarið og get vitnað um að Tómas hefur rétt fyrir sér. Það er ótrúlega skemmtilegt að mála, til dæmis. Mitt starf sem kennari ber oft ekki árangur fyrr en eftir langann tíma. Í ráðgöfinni veit ég stundum ekki hvort vinnan ber árangur fyrr en löngu seinna. Meðaltími minn í að vinna bók er þrjú ár! Birting á rannsókngrein getur tekið eitt til tvö ár. En að mála vegg, þvílík gleði - hipp, hopp bababrella, árangur strax. Flöturinn verður svo dásamlega fallegur strax! Herbergið fær upplyftingu og sálin brosir sínu blíðasta eftir því sem verkirnir í skrokknum aukast. Þegar maður lætur sig loksins súnka niður í heitt bað eftir langann dag við líkamlega vinnu er eins og sálin komist í himnahæðir. Sjálfstraust mitt hefur líka aukist til muna, strax! Núna finnst mér ég geta næstum hvað sem er fyrst ég get málað. Ég get örugglega líka farið í bólakafa á garðvinnu og gert við stóla og gömul húsgögn.
Með því að hlúa að því gamla, hvort sem það er að endurnýja og nýta hluti, eða endurfæða herbergi þá er maður að hlúa að sjálfum sér í leiðinni. Nú er tími vorverka og sálin brosir sínu blíðast um leið og líkamann verkjar. Hipp, hopp barbrella og blómin brosa líka framan í okkur í beðunum og gefa okkur ástæðu til að gleðjast þegar við tökum svo langþráða pásu eftir átökin með kaffibolla í hönd. Sjáiði beðin þarna var ég! Hvet ykkur til að prófa.