c

Pistlar:

7. desember 2013 kl. 14:24

Árelía Eydís Guðmundsdóttir (arelia.blog.is)

Hvenær er nóg, nóg?

"Ertu að fara að læra meira, ertu ekki búin að læra nóg?" sagði hún og brosti fallega. Ég var svo heppin að fara í gegnum Fríhöfnina og hitta mína gömlu vakt,  á leiðinni til að læra meira. Ég vann í Fríhöfninni í "gamla daga" með námi og finnst ég alltaf vera komin heim þegar ég fer í gegn.

Ég settist upp í vél og hugsaði um það sem þessi gamla samstarfskona sagði við mig. Hvenær er maður búin að læra nóg. Ég var líka að huga að jólunum, hugsanir um hvað ég ætti eftir að gera svömluðu um í huga mér þar sem vélin bjó sig undir að lyftast frá jörðu. Hvenær er ég búin að gera nóg? Jólagjafir, jólamatur, jólakort, jólahittingur. Hvað er nóg?

Stundum segir maður "ég er alveg búin að fá nóg....(oftast með argi og gargi  ..)" En tökum við mark á því þegar þessi tilfinning hellist yfir? Sumir sérfræðingar halda því fram að við eigum eingöngu að hlusta á tilfinningar okkar en ekki hugsanir. Í hugsunum okkar búa nefnilega meiriháttar skrýmsli sem vilja stundum ná sér niðri á okkur. Þegar við másandi og móð þeytumst milli staða og stunda án þess að finnast það vera nóg þá er tilfinningin oft nægilega skýr en hugsunin segir (þú þarft að standa þig... þú átt að halda áfram... .þetta er ekki nóg..). 

Við erum mjög misjöfn að upplagi um hvenær okkur finnst vera nóg komið. Ég fæ til dæmis aldrei nóg af lærdómi, aldrei nóg af innihaldsríkum samræðum, nýjum hugmyndum o.s.frv. En aðrir fá nóg af því að lesa tvær blaðsíður í bók. Ég fæ nóg af því að horfa á fólk hreyfa sig mikið en aðrir fá aldrei nóg af því að hreyfa sig. (Auðvitað aldrei nóg af súkkulaði en það er mitt vandamál að vita hvenær nóg er komið...)

Á þessari aðventu, á þessari stundu spurðu þig: "Hvað er ég búin að fá nóg af?" Ef það er komið nóg af því að þurfa að gera eitthvað sérstakt fyrir jólin. Hættu þá, þvingaðu fram bros og segðu upphátt "Ég stend með sjálfri mér og er hætt - búin að fá nóg (alla vega í bili) ". Eða að hafa símann stöðugt við hendina, eða vera of mikið á fésinu eða baka eða þrífa eða drekka eða borða eða sinna öðrum .....

Mundu bara að þú ert nóg :-), allir aðrir eru nóg eins og þeir eru, akkúrat svo mikið eins og þeir eru. Þegar við erum búin að fá nóg og berum virðingu fyrir því þá getum við svo miklu betur gefið öðrum (og okkur sjálfum) tækifæri til að vera. Bara vera. Það er nóg.