Eftir að hafa verið háskólakennari í um tvo áratugi (byrjaði 14 ára..) þá hef ég komist að raun um að þeir sem kvarta undan einkunnum eru þeir sem fá hæstu einkunnirnar. "Af hverju fékk ég 8 en ekki 9 eða mér finnst ekki réttlátt að vera með 9 í stað 9,5?" Þegar þessir nemendur koma til mín og kvarta hugsa ég oft til "gamals" prófessor í stærðfræði sem ég kynntist fyrir mörgum árum.
Ég var í háskólaráði, þegar ég var í háskólastúdent og sat m.a. í kennslumálanefnd Háskóla Íslands með fulltrúum starfsmanna. Í nefndinni var "gamall" prófessor í stærðfræði (mér fannst hann gamall en spurningin er hvort hann hafi ekki verið á mínum aldri..). Hann sagði við mig að sín reynsla væri að meðalskussarnir næðu lengst í lífinu. Ég var svo fegin þegar hann sagði þetta að ég næstum kyssti hann, sem hefði verið mjög óábyrgt af ungri konu, því ég sjálf slefaði rétt í að teljast meðalskussi. Ég hélt á þeim tíma að ég myndi aldrei fá vinnu eða aldrei komast inn í meistaranám eða nokkuð yrði nokkurn tíman úr mér. Einkunnir mínar voru oftast ekkert til að hrópa húrra fyrir. En það hvarflaði aldrei að mér að kvarta við kennara mína því ég vissi upp á mig sökina. Eftir að stærðfræðiprófessorinn sagði þetta lét ég huggast. Fyrst að þeir sem væru í stærðfræði (þar sem að mínu áliti allir snillingarnir voru) og voru meðalskussar gátu fengið vinnu hlyti ég að eiga séns í lífinu. Ég ynnti hann eftir því hverju þetta sætti. "Jú, sjáðu til þeir sem leggja allt í að fá sem hæstu einkunn, þeir eru ekki að gera annað en læra fyrir próf. Þeir eru kannski ekki að læra til að læra heldur að læra fyrir prófið. Hinir eru oftast að gera annað með eins og að vinna eða taka þátt í félagslífi þar sem þeir fá þjálfun sem kemur sér vel á vinnumarkaði."
Það er dásemd að vinna með góðum nemendum sem leggja metnað sinn í námið. Reynslan sýnir mér að meðalskussarnir meta oft stöðu sína raunhæfari hætti. Þegar þeir fá ekki háar einkunnir líta þeir í eigin barm án þess að finnast þeir vera "verri" manneskjur og hugsa með sér hvort þeir hafi lagt nógu hart að sér. Ef niðurstaðan er að þeir hafi ekki gert það þá gera þeir oft upp við sig að þeir vilji gera betur næst. Búið mál. Þeir sjá ekki virði sitt sem manneskju standa og falla með einkuninni. Þeir hafa haft of mikið að gera eða þurfa að forgangsraðað öðruvísi. Það hefur ekkert með kennarann að gera. Hinir sem keppa að hæstu einkunn eiga oft erfitt með að aðskilja sjálfan sig og sitt virði frá einkunninni. Slæm einkunn þýðir að þeir séu slæmir. Punktur. En það er aldrei þannig. Á vinnumarkaði eru prófin líka ekki þannig að maður fái einkunnir strax. Virði starfsmanns liggur í fleiri atriðum.
Uppáhaldslagið mitt um þessar mundir byrjar á orðunum "Litla ljósið mitt bjarta.." Björtu ljósin skína svo glatt og það er aldrei þannig að virði þeirrar birtu hafi eitthvað með frammistöðu á einu sviði að gera. Ég horfi meira til þess hvort nemendur geti aðstoðað hvort annað, hvort þau geti tekið gagnrýni og hvort þau hafi í sér hæfileika til að gera betur. Ég veit nefnilega að þegar að kemur að því að vinna í "alvöru" þá skiptir þetta mestu máli. Hæfileikinn til að skína glaðast er ekki sá sem öllu máli skiptir heldur að láta birtu hópsins endast.