Ég hef verið dugleg að ganga undanfarið, og þetta er það sem ég hef lært af því:
Það er þægilegra að ganga niðrí móti en það koma alltaf brekkur aftur svo maður skyldi bara njóta þess þegar maður fer niður. Það sama á við um vindinn, svo miklu betra að hafa hann í bakið og þá þakkar maður honum fyrir aðstoðina. Óneitanlega er hann líka á móti og þá bara setur maður hausinn undir sig og hlakkar til að snúa við og hafa hann í bakið.
Það er alltaf gott veður þegar maður er komin út, alveg merkilegt, en stundum er slæm færð þá þarf maður helst að vera vel útbúin.
Það er ótrúlegur hávaði í hausnum á manni en eftir því sem maður gengur lengur þagna lætin. Það leysist úr hinum ýmsu hugsanafllækjum.
Það er ákveðin tíska í gangi hjá hlaupa- og hjólafólki (það fer hratt fram hjá mér, þar sem ég sniglast). og mig langar í skærbleikan göngujakka (við nýju gönguskóna).
Maður þarf að setja sjálfan sig í forgang til að fara út reglulega: sleppa símtalinu, láta "mamma ætlar þú aftur út.." hjá sér liggja og sleppa fyrsta sjónvarpsþætti kvöldsins. Það er alveg hægt að ganga allt en það tekur bara lengri tíma.
Ég sel það ekki dýrara en ég keypti það en það myndast víst nýjar æðar á göngu (heyrði það frá konu sem heyrði það frá hjartalækni..). Ég sé fyrir mér nýjar og ungar æðar og í framhaldinu algjörlega síhressa og síunga konu.
Það er gott að láta sig dreyma á göngu. Haustið hefur alltaf verið uppáhaldstími minn en ég er núna aljörlega fallin fyrir hinu íslenska vori sem færir manni moldarlykt og birtu þar sem eilífðin á heima.
Nú er bara að drífa sig út og ganga!