Ég var með málstofu í Háskólanum í vikunni, sem er hluti af starfi mínu. Oftast mæta ekki margir og það var venju samkvæmt fámennt en mjög góðmennt. Mig rak í rogastans þegar ég kom æðandi inn í stofuna því á aftasta bekk sátu sex óvenju ungir menn. Aðrir þarna inni voru fræðimenn eða þaulreyndir stjórnendur. Ég leit á þessa ungu myndalegu menn fór að hvá og spyrja þá hvaðan þeir kæmu. Fjórir voru úr framhaldsskóla og tveir úr grunnskóla, þeir voru í verkfalli og á starfsdögum. Þeir sýndu mikinn áhuga á efninu og spurðu góðra spurninga. Eftir fyrirlesturinn fengu þeir allir afrit af grein sem ég hafði afritað. Fræðileg grein um stjórnendur og mikilvægi aðstæðna með lýsingu á efnahagsaðstæðum á Íslandi frá aldarmótum 1900! Þeir þökkuðu fyrir sig og sögðu að þetta væri annar fyrirlesturinn sem þeir voru á þennan dag. Ég var full aðdáunar á þessum strákum sem kunna svo sannarlega að nýta tímann í verkfalli. Á hverjum einasta degi eru fjölmargir fyrirlestrar í Háskóla Íslands sem allir geta sótt. Þar er að finna flóru sem allir ættu að geta nýtt sér.
Nýting á tíma okkar er alveg jafn aðkallandi eins og nýting á peningum. (það hefur komið í ljós að þeir sem vinna stóra peningaupphæð eru oftar orðnir fátækari ári seinna.. talandi um nýtingu á óvæntum auðlindum).
Ef maður hefur óvænt meiri tíma en maður reiknaði með. Eins og í verkfalli eða þegar fólk er á milli starfa eða eftir að maður kemst á eftirlaunaaldur, er nýtingin á þessari auðlind sem okkur er gefin enn mikilvægari. Það er stórsniðugt fyirr ungt og upprennandi fólk að kíkja á fyrirlestra í Háskólanum til að fá hugmynd um hvað fjallað er um í þeim fræðigreinum sem þar er kennt. Það gæti auðveldað val þeirra sem á annað borð vilja fara í háskólanám. Söfnin eru uppspretta sköpunarkrafts og hugmynda, hægt er að heimsækja bókasöfn og ömmu sína og afa. Þeir sem eru í atvinnuleit verða að líta svo á að þeir starfi við að finna vinnu. Þá er um að gera að taka upp símann, endurmeta styrkleika sína og hlúa að þeim eða leggja vinnu í að líta í eigin barm. Þeir sem ekki eru lengur á vinnumarkaði vegna aldurs hafa nú tíma til að ferðast, fara á námskeið, á fyrirlestur í háskólanum, eða bara í kaffi til vina og ættingja.
Nýting á tíma hefur líklega aldrei verið mikilvægari en nú. Þegar tölvan, sjónvarpið og síminn er ávallt við höndina til að gleyma sér í og gleypa tíma manns.
Þegar rútina hversdagsins heldur ekki lengur utan um mann verður maður sjálfur að gera það. Strákarnir á aftasta bekk um hádegisbil á þriðjudegi sýndu gott fordæmi.