Fyrir nokkrum árum var Economics með sérblað sem fjallaði um það sem við á íslensku myndum kalla: Gráa fiðringinn (sem er oftast notað um karla en á við um konur líka en þá heitir það breytingaskeið og er frekar hallærislegt). Fyrirsögnin var: "Female, Mid-life crisis, bring it on!". Ég keypti blaðið, las og geymdi það og forsíðan hangir á skrifstofunni minni.
Þetta var alveg ný hugsun, fannst mér þá. Enda fjallaði blaðið um nýja tíma, sögulega séð, varðandi valkosti kvenna sem skilgreiningar á aldurshópnum 40-65. Í blaðinu voru viðtöl við konur á þessu skeiði, sumar voru með ung börn og voru á kafi í uppeldi og umönnun, aðrar höfðu snúið baki við stórfyrirtækjum og stofnað sitt eigið fyrirtæki. Sumar voru nýfráskildar og fluttar í annað land og einhver hafði farið í skóla aftur eftir þriggja áratuga hlé. Þær áttu sem sagt ekkert annað sameiginlegt en að vera, þeirra mati, að lifa lífinu á sínum forsendum. Á sínum eigin forsendum!
Núna þegar ég undirbý fyrirlestur um "tækifæri og breytingar í lífi kvenna", sit ég með fjöldan allan af bókum og greinum í kringum mig og horfi á forsíðuna góðu. Hún varð til þess að ég fékk brennandi áhuga á þessu lífsskeiði. Breytingarnar almennt á samfélagi vestrænna þjóða um þessar mundir eru gríðarlegar. Konur (of karlar) sem nú eru um fimmtugt geta gert ráð fyrir að vera á vinnumarkaði næstu tuttugu jafnvel þrjátíu árin. Sá tími þar sem fólk fer á eftirlaun um 67 ára aldur er að líða undir lok, því við verðum svo miklu eldri og höfum tækifæri til að vera nokkuð heilbrigð fram eftir öllu. Nýjungum í erfðafræði, tækni og heilbrigðisvísindum fleygir fram. (Kári er meira að segja búin að finna út að eftir því sem mæður eru eldri þeim mun betur reiðir börnum þeirra af..). Atvinnuhorfur þeirra sem eru nú á miðjum aldri eru ágætar en einungis ef fólk undirbýr sig rétt. Enginn vill vinna við starf sem er ekki gefandi fram á gamals aldur. Enginn. Hvað þá?
Það er nauðsynlegt fyrir þá kynslóð sem nú er um miðjan aldur að endurskilgreina, stokka upp, gera upp og vinna í því að ljá lífi sínu og starfi merkingu. Á sínum eigin forsendum! Allir vilja að starf þeirra hafi merkingu, allir vilja að líf þeirra sé merkingarbært en það gerist ekki nema við leggjum þá vinnu á okkur að líta í eigin barm. Fram á miðjan aldur erum flest njörfuð niður af líffræðilegum og umhverfisþáttum sem beina okkur í ákveðin farveg. Læra, finna starf, giftast, eiga börn, skilja, finna nýjan maka, finna annað starf, eignast hús, bíl og líta vel út, eignast.
Ástæðan fyrir því að gráði fiðringurinn gerir vart við sig er spurninginn: Er þetta allt og sumt? Þá fyrst fer maður að geta farið út úr handritinu og skrifað sitt eigið leikrit. Grái fiðringurinn er svo skemmtilegt fyrirbrigði og þó að sumir velji að finna sér nýja og yngri konu eða karl (eins og hefðbundin skilningur orðsins gefur til kynna) og halda þannig áfram í fyrirframgefna leikritinu, þá eru svo ótal, ótal tækifæri sem sál okkar hefur til að finna merkingu með þessu öllu saman á sínum eigin forsendum! "Bring it on!"