c

Pistlar:

5. júlí 2014 kl. 14:31

Árelía Eydís Guðmundsdóttir (arelia.blog.is)

Fjárfestingar

Warren Buffet er einn af mínum upphaldsmönnum. Hann er helsti og þekktast fjárfestir heimsins og ef hann fjárfestir í einhverju fylgja aðrir á eftir. Hans megin regla er einföld fjárfestu í því sem þú skilur og til lengri tima. 

Fjárfestingar snúast þó ekki bara um peninga heldur aðrar bjargir líka. Það er mikilvægt að huga að því hverju maður fjárfestir í. Sumt gefur manni arð til framtíðar en annað ekki neitt. Dæmi um slæmar fjárfestingar af minni hálfu eru: Mjög hælaháir skór keyptir í þeirri von um að ég myndi verða mun glæislegri 15 cm hærri, þó að ég viti að ég geti ekki notað þá. Vítamín keypt þegar ég er orkulaus og sannfæri sjálfa mig um að ég muni taka þau, á hverjum degi þó að ég viti að ég hafi hingað til aldrei haldið það út nema í þrjá daga í senn. Hlutabréf sem ég skildi ekkert í. Tími á netinu og fésbók þó að ég viti að ég muni ekki fá neitt út úr því nema "hangs". Það er svo auðvelt að falla í... gildru samskiptamiðla sem er sú að "allir hinir eru að meika það og haupa á fjöll og eiga fallega fjölskyldu og eru hamingjusamir alla daga..." Eða fjárfesting í að lesa hitt og þetta á netinu. Hjónabandsráðgjöf sem bendir manni á að fá sér unga elskuhuga ef maður er ekki ánægður í hjónabandinu. Ég bara spyr hvenær á maður að hafa tíma til þess? Milli þess sem maður stingur í þvottavélina og svæfir? Er ekki bara einfaldara að fjárfesta í að lappa upp á hjónabandið eða fara út úr því ef maður er ekki ánægður...?  Eða ráðleggirnar í megrunarkúrum sem benda á að ef maður borðar aldrei sætt þá léttist maður. Já - en er það eitthvað gaman? Innsæi manns er alltaf besta ráðleggingin þó að það sé skemmtilegt að lesa sér til.

Fjárfesting á tíma sínum er sú fjárfesting sem skilar mestum arði eða ekki neinum.

Fjárfestingar sem hafa skilað sér í mínu tilfellii eru; Þekking, hreyfing, að taka til, tími með fjölskyldu, með vinum og ekki síst tími einhveru þar sem maður getur melt lífið í rólegheitum. Það er ekki góð fjárfesting að bölva veðrinu á Íslandi. Mun betri að þvo þvotta eða hreinsa skápa. Það er góð fjárfesting að baka en léleg að horfa á sjónvarp. Það skilar sér vel að fylgjast með öðrum af samkennd og gleðjast eða taka þátt í lífi annarra. Það er mun betri fjárfesting en að velta sér upp úr vandamálum sínum. 

Warren, vinur minn, Buffet hefur rétt fyrir sér í því að ef maður ætlar að eiga í viðskiptum til lengri tíma mega skammtímahagsmunir og græðgi ekki villa manni sýn. Hann margleggur á það áherslu að heiðarleiki er grunnurinn að góðum viðskiptum. Ég held að heiðarlegi í viðskiptum manns við sjálfan sig sé lika grunnur að góðri fjárfestingu á tíma sínum. Fjárfesta í því sem maður veit að skilar sér til lengri tíma, fjárfesta í framtíðinni. Náin sambönd tróna, þrátt fyrir allt, efst á toppi þess sem gefur arð til allrar framtíðar.. Allt sem maður gefur af kærleik vex og dafnar til meiri kærleika. Ekki flókið og nú er best að setja í þvottavél (það skilar sér í hreinum fötum í næstu viku...).