Það samband sem er mikilvægast er samband manns við sjálfan sig. Maður verður að þola sinn eigin félagsskap lífið á enda og þá er eins gott að maður sé eitthvað áhugaverður! Ekki satt? Alla vega eru þeir sem eru í góðu, nánu sambandi við sjálfa/n sig hamingjusamari og ná betri tökum á lífinu og samskiptum við aðra.
Hvort það samband er náið, eða ekki, kemur meðal annars fram í því hvernig maður kemur fram við sjálfan sig. Hversu vel maður þolir einveruna, hvert maður fer með sig og hvernig maður fer með sig.
Stundum á ég í mjög góðu sambandi við sjálfa mig. Ég bíð mér upp á að heimsækja söfn og lesa góðar bækur, gera það sem mér finnst skemmtilegt. Steinþegja í marga klukkutíma og gera ekki neitt. Algjör unaður, að gera ekki neitt. Ég legg fallega á borð og kveiki á kertum, elda dásemdarmat og nýt einverunnar þegar hún býðst. Ég læt eftir mér að skoða fallega hluti og fara út að labba og á í áhugaverðum samræðum innra með mér þar sem ég leysi flókin vandamál lífsins. Ég næ því að vera nokkuð sátt, jákvæð og uppbyggjandi gagnvart mínu fólki þegar samband mitt er gott við sjálfa mig.
Stundum fer ég hrikalega með mig. Vinn, mér til húðar, er þreytt og pirruð, gríp í það næsta, tek að mér allof mörg verkefni. Horfi hugsanalaust á sjónvarpið, eyði of miklum tíma á netinu eða á í innihaldlausum samskiptum. Á enga stund fyrir sjálfa mig, of mikill hávaði í umhverfinu og innra með mér. Oftast verð ég líka hundleiðileg gagnvart þeim sem mér eru nánastir - á þessum tímabilum, þar sem ég er ekki í nánum sambandi við mig.
Við getum verið náin okkur sjálfum á erfiðum jafnt sem góðum stundum. Bara smá daður við okkur sjálf getur gert kraftaverk. Pínku sjálfsdekur sem felst í því að gera eitthvað gott, uppbyggilegt og unaðslegt fyrir mikilvægustu manneskjuna í lífi þínu. Þarf ekki að vera flókið. Heitt bað með góðri bók getur alveg verið málið. Meira að segja það að fara út að hlaupa getur verið akkúrat það sem maður þarf á að halda (ekki hélt ég nú að ég myndi segja þetta...).
Í nánum samböndum er mikilvægt að láta ekki vanann ná tökum sér. Þess vegna er um að gera að prófa sig áfram og gera eitthvað nýtt og framandi með sjálfum sér - og öðrum. Nándin og það að vera áhugaverður er það sem skiptir máli, hvort sem er á náttbuxunum, hlaupabuxunum eða bara í vinnudressinu.