"þú ert alltaf svo ömurlega jákvæð", sagði ein við mig um daginn. Ég hef ekki þorað að blogga síðan. Er búin að hugsa lengi um hvað ég eigi að segja sem sé alvarlegt, neikvætt og þrungið þungri merkingu. Dettur ekkert í hug, en í gær þá fór ég að hugsa um vorið.
Það er náttúrulega ekki nógu alvarlegt og neikvætt að hugsa um vorið, en ég gerði það samt. Ég fór að hugsa hvað það munar miklu um hverja mínútu sem við höfum af birtunni. Það alvarlega í stöðunni er að ég hef alltaf verið haustkerling, ég nýt þess þegar birtu tekur að dvína á haustin og ég get aftur kveikt á kertum. Lyktin af nýjum bókum og haust tískan o.s.frv.
Núna, með hverju árinu, er ég orðin vorveik áður en ég veit af er ég farin að gleðjast yfir hækkandi sól. Hvert merki um vor á Íslandi er ákvaflega veik. Þegar ég bjó í Bretlandi byrjuðu trén að blómstra í mars, dásamleg vorsjón. En birtan maður minn birtan er engu lík á Íslandi. Hún smýgur inn í sál og likama og áður en maður veit er maður allur svo glaður að innan og hugsanir um sumarið, græn tún og sól kræla á sér. Ég held ég sé að eldast, man hvað ömmu og afa þótti vænt um vorið.
Ég var næstum dottin á hausinn í hálkunni í gær, hugsandi um vorið og birtuna og öll svona glöð að innan en ég mun þó reyna mitt ítrasta til að vera soldið alvarlegri í framtíðinni.