c

Pistlar:

23. júní 2015 kl. 12:24

Árelía Eydís Guðmundsdóttir (arelia.blog.is)

Vertu óþekk!

Ég fór á skemmtilega ráðstefnu í síðustu viku sem hét WE - fjallað var um hvernig ætti að brúa kynjabilið. Ráðstefnan var pökkuð með skemmtilegum og fróðlegum innleggum og það var gaman að vera hluti af henni.

Eitt ráð til kvenna sem vilja ná árangri var oftar endurtekið en annað - Vertu óþekk!, ekki láta stjórnast af öðrum, hættu að gera öðrum til geðs og láttu ekki strákana ráða öllu, olbogaðu þig áfram vegin.

Þær konur sem hafa náð langt, hvort sem það er stærðfræðiprófessorinn í Standford, kvikmyndaleikonan, pólitíkusinn, skólafrumkvöðullinn eða bísness-konan höfðu allar þetta ráð að gefa ráðstefnugestum.

Þetta er í samræmi við niðurstöður rannsókna minna á kvenleiðtogum á Íslandi, í grein sem ber heitið "Ein af strákunum" reifa ég niðurstöður mínar en þær eru að konur sem ná miklum árangri á vinnumarkaði eru oftast óhræddar við að gera mistök, óhræddar við átök og þora að olboga sig áfram. Hins vegar er það þannig að þegar þær starfa einar með eingöngu körlum þá upplifa þær sig þurfa að falla að gildum þeirra og verða því "ein af strákunum". Á ráðstefnunni kom fram að þegar kona er ein í stjórn breytir hún miklu (og eingöngu ef hún er óþekk...) ef það eru tvær þá lagast það en þrjár eru það sem kallað er "critical mass" eða þá fara gildi, viðhorf og menning að breytast. 

Það er algjörlega ofmetið að vera góða stelpan og reyna að geðjast öllum og greinilega ekki líklegt til árangurs. En það er ekki nóg að vera óþekk, konur þurfa líka að prófa og mistakast til að byggja upp þol. Prófa að fara í framboð, prófa að sækjast eftir hærri launum, prófa að reyna að fá stöðuhækkun eða draumastarfið. Prófa að skipta um hlutverk og prófa að fara langt út fyrir sinn þægindaramma. Því þegar maður venst því að maður getur ekki unnið alla leikina og heldur samt áfram þá er maður á réttri braut. Stundum vinnur maður og stundum tapar maður en það þarf alltaf að standa upp aftur og busta buxurnar og bara halda áfram. 

Gott sumar til að vera óþekkur núna :-)