c

Pistlar:

6. júlí 2018 kl. 23:25

Árelía Eydís Guðmundsdóttir (arelia.blog.is)

Má ekki bjóða þér uppfærslu?

Reglulega uppfærum við töluvkerfið okkar og símann og fleiri tæki. Stöðugar tækninýjungar valda því að ný og betri kerfi eru gerð. Það eru ekki bara tækin okkar sem þurfa uppfærslu því flugfélög bjóða reglulega uppfærslu, upp á næsta stig.

Í vor var upplýsingakerfi okkar uppfært. Rétt áður en nýja kerfið var innleitt fór allt í rugl hjá mér akkúrat þegar ég var erlendis í þann mund að skila bók til bókaútgefanda með samstarfsfólki sem var um víða veröld. Þá gat ég ekki sent póst og þar sem ég sat eldrauð í framan í nokkra daga og reif hár mitt og skegg (samt er ég ekki með skegg) af streitu sá ég alls ekki tilganginn með uppfærslunni. Eftir að ég kom heim fór ég bölvandi á tölvudeildina en það var ekki hægt að uppfæra símann minn því það var allt of langt síðan ég hafði uppfært hann og því of mikið rusl inn á honum. Klassíst.

Eftir að ég jafnaði mig sá ég hversu nauðsynlegt þetta er. Við þurfum öll að uppfæra okkur reglulega, fara upp í útgáfu 2018 af okkur sjálfum . Hugsa stærra, finna betri lausnir fyrir hvert svið lífsins. Heimili, lærdómur, fjölskyldubönd, sambönd, líkamlega, andlega og tilfinningarlega. Það þarf reglulega að uppfæra. Á meðan á uppfærslunni stendur er maður í reglulegu fokki og reitir hár sitt og skegg. Það er svo mikið rusl í hausnum á manni, gömul viðhorf, kannski bara eitthvað sem passaði þegar maður var 7 ára en ekki 77 ára. Eins og "ég get ekki, kann ekki, skil ekki.." eða bara að það þurfi að vera sól til að það sé gaman að vera til. Nú síðan þarf maður líka að innleiða nýju kerfin og þá fyrst kárnar gamanið. Út að labba í rigningu! Jóga klukkan 8 að morgni! Standa með sjálfum sér! Fara til sálfræðings! eða bara í grúppu - eins og það sé eitthvað að hjá mér.. halló! Svitna þegar manni langar að sofa. Læra á nýja kerfið þegar gamla var fínt. Það er ekki bara síminn sem er fullur af rusli - hausinn á manni og fataskáparnir eru það líka.

En hver vill ekki sitja á fyrsta klassa með kampavín í hendi og njóta þess að vera búin að uppfæra sig? Ég sit í rykinu upptekin af því að uppfæra skápa, geymslur og vinnurými og læt mig dreyma um hvernig lífið verður þegar ég er búin að innleiða nýja kerfið nokkuð ánægð með að sólin sé bak við skýin meðan ég sting hausnum aftur inn í skápinn og dreg fram flíkur sem ég ætlaði einhvern tímann að nota aftur. Dætur mínar horfa á mig þegar ég dreg fram góssið sem ekki er hægt að henda af því að þetta var svo dýrt og af því að ég keypti það þegar ég var ófrísk af ykkur, eða af því að amma gaf mér það... - "mamma!! Kastaðu þessu núna!" Uppfærsla er alltaf erfið, hugsa ég meðan hrúgan sem fer í Rauða Krossinn stækkar. Kannski eitthvað barn geti notað kúreka-stígvélin, hugsa ég meðan dæturnar horfa ströngum augum á mig.