c

Pistlar:

24. janúar 2019 kl. 18:17

Árelía Eydís Guðmundsdóttir (arelia.blog.is)

Eru áhrifavaldar bara ungar fallegar konur með Gucci töskur?

Ég fór á skemmtilegan fyrirlestur um daginn hjá konu sem er í doktorsnámi í Hong Kong en efni rannsóknar hennar eru áhrifavaldar á samfélagsmiðlum. Ég fræddist heilmikið um hverjir eru þekktustu áhrifavaldar í heiminum. Það virðist vera sem flestir áhrifavaldar séu konur á aldrinum 18-23 ára og þær eru fallegar og mjóar og taka fagmannlegar myndir af sér á fallegum stöðum og sitja fyrir eins og um venjulegar fyrirsætur væru. Þær fá auglýsingamarkaðinn með sér í lið og sitja á fremstu röð á tískusýningum. þetta er eftirsóknarvert og þreytandi starf.

Mér fannst þetta mjög áhugavert en var stórmóðguð yfir því að eldri konur séu ekki áhrifavaldar. Hvað er það með auglýsendur og fyrirtæki að hafa ekki áttað sig á að viðskiptavinir á miðjum aldri eru ríkustu og kaupglöðustu neytendur samtímans? 

Ég hugsaði með mér að nú skyldi ég gerast áhrifavaldur. Talaði við unglingsstúlkuna mína sem sagði að ég væri hvorki nógu falleg, mjó né áhugaverð til að verða áhrifavaldur. Hún veit hvað hún syngur því hún er með síðu á Instragram sem fær yfir 30.000 áhorf þegar hún póstar myndböndum. Ég spurði hvað áhrifavaldar gerðu? Mest sýna þau "lífsstílsmyndir" og þá er alveg nauðsynlegt að lífsstíllinn sé ýktur eins og ferðalög á dýra staði, fallegt fólk, falleg föt og flottar töskur og ekki er verra að vera með sixpack og stór brjóst. 

Síðan þá er ég búin að gera mér grein fyrir að líklega verð ég ekki áhrifavaldur með sixpakk, hvað þá að ég hafi efni á lífsstíl áhrifavalda og það er alltaf allt í drasli hjá mér svo að ekki get ég verið með þrif-ráð. Þó vil ég gjarnan auglýsa eftir eldri áhrifavaldi sem er "með ettttta.." og ég get fylgst með og borið mitt auma líf saman við.

Við erum hins vegar öll áhrifavaldar í okkar eigin hring og ættum kannski að huga að því oftar hverjum við "póstum" á hvort annað.