c

Pistlar:

30. desember 2020 kl. 10:02

Árelía Eydís Guðmundsdóttir (arelia.blog.is)

Hvaða álfum munt þú bjóða heim um áramót?

Flestir eru tilbúnir til þess að kveðja árið 2020, sprengja það í loft upp, kasta á brennuna og horfa á það brenna inn í eilífðina. Íslenskar húsmæður til forna þrifu húsakynni sín á gamlársdag, kveiktu ljóstýru í hverju horni og hverjum glugga og fóru síðan þrisvar með þuluna 

Komi þeir sem koma vilja
Veri þeir sem vera vilja
Fari þeir sem fara vilja
Mér og mínum að meinlausu.
 
Sjáiði til álfar flytja jafnan á nýársnótt og því þarf að gera þeim eins auðvelt fyrir og hægt er. Þetta er tími töfra, ekki síst nú þegar við höfum farið í gegnum ár sem einkenndist af erfiðleikum. Á Íslandi höfum við upplifað jarðhræringar, snjóflóð, aurflóð og brjáluð veður með tilheyrandi rafmagnsleysi og svo heimsfaraldur. Margir hafa misst á þessu ári, fólk úr lífi sínu, vinnuna, eða heilsuna. Allir hafa saknað samverustunda, samkomuhalds, menningarviðburða og nándar. .. fari þeir sem fara vilja...
Eins og alltaf þegar erfiðleikar steðja er eitthvað sem við lærðum. Ótrúleg aðlögunarhæfni okkar, samstaðan og tækninýjungar sem eru komnar til að vera. Einfaldari lífsstíll hefur líka fært mörgum aukna innri ró og ferðalög innanlands síðasta sumar gáfu mörgum tækifæri til að uppgötva aftur gæði landsins. 
 
Nú, sameinumst við um að bjóða réttu álfunum heim um áramót, komi þeir sem koma vilja... Aldrei mikilvægara en nú að setja sér uppbyggjandi markmi:. Bóluefni, ferðalög, nýjar viðskiptahugmyndir, ný atvinnutækifæri. Nýsköpunarálfur takk, hreystiálfur, tékk og nándarálfur, takk. Kærleiksálfur og menningarálfur komi til okkar allra. Megi verndarvættir landsins vaka yfir öllum þeim álfum sem færa sig til um áramót. 
 
Ég mun þrífa allt hátt og lágt, setja mat í skálar fyrir álfana og hafa kveikt á nýarsnótt svo ævintýraálfurinn komi til mín og Kótvítálfurinn fari í burtu. 
 
Ég óska öllum gleðilegs nýs árs, ég hef trú á því að þetta verði gott bóluefnaár þar sem við munum taka með okkur það sem við lærðum en bæta inn því sem við veljum og viljum. Minnumst þess sem við misstum með söknuði en gefum jafnframt, færi á að fara frá okkur með því að sleppa takinu, hversu erfitt sem það er með það að leiðarljósi að dýpka innri ró og hvíla vel í okkur sjálfum.
 
Um áramót er allt hægt og allt mögulegt, fangaðu töfrana, hlustaðu á hátíðarhljóma, horfðu á tunglið sem er næstum fullt alla vega fullt af fögrum fyrirheitum þessi áramót láttu þig dreyma stóra drauma. Hvaða álfi munt þú bjóða heim?