c

Pistlar:

29. desember 2021 kl. 15:54

Árelía Eydís Guðmundsdóttir (arelia.blog.is)

Stefnumót við sjálfa/n sig

Þessir dagar milli jóla og nýárs eru uppáhaldsdagar mínir. Ég er ekki enn byrjuð í megrun og maula því konfektið án samviskubits. Jólabækur spænast upp en ég á enn eftir eina eða tvær en mikilvægast er þó stefnumótið sem ég á við sjálfa mig og uppgjörið við árið.

Þetta var árið þar sem við ætluðum að skemmta okkur, grímulaust og ferðast og dansa burt heimsfaraldurinn með gleðiópum. Í staðinn þrömmuðum við að eldgosi, reyndum að komast á austfirði í bongó blíðu og núna undir lok ársins erum við annað hvort með covíd, búin að fá cóvid eða á leiðinni að fá cóvíd. 

Næsta heimsmeistarakeppni - Ísland best í heimi, snýst um að ná hjarðónæminu fyrst! Þrátt fyrir allt eru flestir með mild flenskueinkenni og við erum forréttindahópur á heimsmælikvarða sem erum eins og nálarpúði eftir dýrar bólusetningar. Árið þar sem við öll Zoom-uðum yfir okkur en glöddumst þegar við máttum hittast.

Ég reyni alltaf að lækka í umhverfishávaðnum og heyra í skottunum hið innra. Spurningin mín til þerra er: Hvað er að kalla til mín? Hvaða þætti í tilverunni vilja fá athygli á næsta ári. Það vex sem veitt er athygli. Nýtt ár bíður upp á nýtt upphaf.

Ég fæst við framtíðarfræði í starfi mínu sem háskólakennari og sem rithöfundur. Nýjast bókin sem ég skrifaði með Herdísi Pálu Pálsdóttur, Völundarhús tækifæranna - fjallar um það sem er að koma. Hlaðborðið sem við getum gengið að er með fleiri og framandi réttum en áður. Hvað af því sem er í boði kallar á þig?

Mínar bestu ákvarðanir eru þær sem koma þegar ég hef hlustað af athygli í myrkrinu milli jóla og nýárs. Stundum hafa svörin krafist hugrekkis eða stuðnings. Ég hef flutt, farið í nám, lagt í ferðalög og gengið 1000 kílómetra á ári, hlaupið maraþon (10.km hljóta að heita maraþon..), gengið Jakobsveg, skrifað bækur, greinar og eignast börn, haldið námskeið. Allt þetta og miklu meira hefur verið vegna þess að ég fór á stefnumót með sjálfri mér og hlustaði af athygli. 

Núna er tíminn þegar álfar fara á stjá, íslenskar þjóðsögur segja frá því að á gamlárskvöldi eigi húsmæður að þrífa og setja ljós í glugga til að bjóða álfum heim og ganga þrisvar í kringum bæinn og fara með eftirfarandi þulu "Komi þeir sem koma vilja, veri þeir sem vera vilja, og fari þeir sem fara vilja, mér og mínum að meinlausu."

Þetta ælta ég að gera, hreinsa upp allt konfektið af gnægtarborðum, bjóða álfum heim með því sem hefur kallað til mín og biðja álfana að taka heimsfaraldurinn frá okkur, mér og mínum að meinalausu!

Ég óska ykkur að þið fylgið kallinu sem býr innra með ykkur og eigið gleði- og gæfuríkt ár 2022 verður gegggggggjað, hvíslaði að mér álfur.

Árelía Eydís Guðmundsdóttir

sjá nánar á https://völundarhús.is