c

Pistlar:

19. apríl 2020 kl. 17:00

Ásdís Ósk Valsdóttir (asdisosk.blog.is)

Fossavatnið sem var ekki gengið

Fossavatnið sem var ekki gengið

Í gær laugardaginn 18.apríl átti ég að vera á Ísafirði að þreyta 50 km skíðagöngu ásamt hundruðum gönguskíðagarpa. Ég fór í fyrra, náði að klára og var ekki einu sinni síðust. Að vísu var sú ganga „bara“ 42 km vegna snjóleysis en ágætlega krefjandi engu að síður. Ég á ekki langan gönguskíðaferil að baki. Ég steig fyrst á gönguskíði í desember 2018. Það var reyndar á 4ra daga námskeiði á Ísafirði sem ég fór á með Hildu vinkonu. Ég átti engar græjur, hvorki skíði né föt þannig að ég var sannarlega að byrja frá grunni. Fyrirfram hafði ég litlar áhyggjur af gönguskíðunum. Það litla sem ég hafði séð var mjög þægilegt stroll á jafnsléttu. Ég hefði ekki getað haft meira rangt fyrir mér. Þetta er gífurlega krefjandi íþrótt sem reynir á allan líkamann og það er eiginlega ekkert á jafnsléttu, bara miserfiðarar brekkur.

Hérna má lesa allt um hvernig gekk að byrja á gönguskíðum og Fossavatnið 2019

2020 verður besta ár ævi minnar

Mikið svakalega verður 2020 frábært ár. 31.12.2019 vissi ég að framundan væri besta ár ævi minnar. 2019 var svona æfingaár. Ég var að fínstilla allskonar hluti. Koma mér í besta form lífsins og svo fann ég mér kærasta. Ég setti mér metnaðarfull markmið. Klára Landvættinn, hlaupa Laugaveginn, hlaupa mitt fyrsta maraþon og keppa í mínum fyrsta hálfan járnkarl. Ég skráði mig líka í æfingaferð með Breiðablik til Heilbronn í Þýskalandi þar sem ég ætlaði að keppa í Ólympískri þríþraut. Hún var hugsuð til að læra að keppa og njóta. Ég var tilbúin líkamlega og andlega. Ég þurfti aðeins að ná tökum á hjólinu, losna við brekkuóttann og lofthræðsluna og þá væri þetta komið. Ég er svo heppin að kærastinn á rafmagnshjól og planið var að fara upp og niður brekkur þar til mér liði vel. Ég setti líka fókusinn á gönguskíðin. Þau yrðu sett í algeran forgang enda planið að toppa mig í Fossavatnsgöngunni. Þegar ég segi toppa mig þá er ég að miða við að ganga á sama tíma og Hilda vinkona gekk á í fyrra. Við Brynjar bókuðum okkur á gönguskíðanámskeið á Ísafirði og það vildi svo heppilega til að það yrði helgina á undan Strandamótinu. Það sem ég hlakkaði til að fara á Strandamótið. Ég missti því miður af því í fyrra. Það var ömurleg veðurspá og dóttir mín átti 10 ára afmæli daginn eftir mótið. Mér fannst ekki líklegt að ég fengi verðlaun sem móðir ársins ef ég færi á mótið og myndi svo vera veðurteppt á Ströndum og missa af afmælinu.

Ég prófaði rafmagnshjólið í desember og fannst það algjörlega frábært og hlakkaði gífurlega til að ná tökum á því í vetur.

Hvernig massar kona Fossavatnið?

Ég ákvað að setja upp metnaðarfullt æfingaplan fyrir Fossavatnið. Vera dugleg að fara á gönguskíði um helgar og eftir vinnu. Fara á Hermannsmótið á Akureyri í janúar. Æfingabúðir á Ísafirði í lok febrúar og svo þráðbeit á Strandamótið helgina á eftir. Vera svo á Dalvík alla páskana og ganga eins mikið og ég gæti. Það er gífurlega mikið af flottum gönguleiðum á Dalvík, inn í Svarfaðardal. Sv er hægt að fara í Hlíðarfjall, Kjarnaskóg, Ólafsfjörð og Siglufjörð. Fossavatnið var stuttu eftir páskana og jú Bláfjallagangan var þarna einhvers staðar líka. Ég og Bláfjallagangan eigum góðar minningar. Þetta var fyrsta gönguskíðamótið mitt og ég kom ekki síðust í mark.

Þegar kærastinn byrjar betur en þú

Svo kom 2020. Það byrjaði ágætlega en svo lagðist ég í flensu. Þetta var einhver ómerkileg flensa en nóg til að ég hreyfði mig lítið eina viku. Það kom smá snjór í Bláfjöll og ég skellti mér á gönguskíði um miðjan janúar og fann gönguskíðagleðina. Í lok janúar fórum við Brynjar í Fjallakofann og græjuðum hann fyrir gönguskíðin. Mér fannst það reyndar pínu glatað. Allt í einu skildi ég Hildu vinkonu sem fylltist öfund þegar ég byrjaði að græja mig fyrir hreyfingu. Öll fötin mín voru ný og í stíl. Hennar voru meira svona samtíningur síðustu 10 ára. Munurinn á mér og Hildu var einmitt að hún var búin að stunda hreyfingu svona 20 árum lengur en ég og átti því allt til alls. Við Brynjar fengum okkur einkatíma hjá Sævari Birgissyni. Þá kom næsta svekkelsi. Það var ekki nóg að kærastinn væri betur dressaður og leit því betur út á skíðum, heldur náði hann miklu betri tökum á gönguskíðunum á fyrstu æfingu heldur en ég á minni fyrstu æfingu. Hvers vegna var það? Hann fékk einkakennslu í fyrsta tímanum sínum og svo þetta smáatriði. Hann er ekki hræddur við brekkur. Það er pínu hraðamunur á aðila sem þorir að bruna niður brekkur og aðila sem fer í 90 gráðu plóg. Sævar kenndi okkur nokkrar tækniæfingar sem við ákváðum að gera fyrir hverja göngu. Eitthvað sem ég lærði í fyrra en fannst eitthvað svo mikil tímasóun. Það hafði mögulega einhver áhrif á gönguskíðahæfni mína. Ekki ósvipað og skortur á mætingu á sundæfingum.

Þegar kærastinn er betur dressaður en þú

    20200229_122220

                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                          Ég sá að það gengi ekki að Brynjar væri betur til fara en ég á gönguskíðanámskeiðinu á Ísafirði. Ég meina, þetta eru 4 dagar. Það verður tekið fullt af myndum og einhver staðar verður miðaldra konan að draga mörkin. Hann er líka 3 mánuðum yngri en ég og það er stöðug vinna fyrir konur á sextugsaldri að hafa sig til fyrir yngri menn. Ég renndi því í Fjallakofann og ræddi við Sævar. Hann er útivistarráðgjafinn minn og slær ekki feilnótu, annað en ég. Ég sé stundum á Sævari að hann er ekki alveg viss um hvert ég er sé að fara með fataval.

Sævar sýndi mér jakka. „Þetta er nákvæmlega eins og jakkinn sem Brynjar keypti“ sagði ég. Við erum kannski miðaldra en þarna verð ég að draga mörkin. Við getum alveg eins fengið okkur Don Kano galla sko. Jakkinn sem ég vildi var ekki til í minni stærð. Lúxus vandamál þegar kona grennist. Eftir smá skoðun fundum við frábæran jakka sem smellpassaði. Hann var að vísu líkur Brynjars en þó ekki alveg eins. Síðan fundum við buxur, vettlinga, húfu og buff í stíl. Það er lykilatriði þegar miðaldra kona er ekki orðin nógu góð á gönguskíðum að líta amk vel út („fake it till you make it“). Ég var klár á Ísafjörð. Veðrið var ekki alveg að leika við okkur á þessum tíma, komumst ekkert á rafmagnshjólið og bara einu sinni á gönguskíðin. Það var samt allt í lagi, Ísafjörður var eftir nokkra daga og ég hlakkaði gífurlega til. Svo kom skellurinn

Ófært til Ísafjarðar

Við áttum bókað flug til Ísafjarðar á fimmtudagsmorgni þar sem námskeiðið byrjaði seinni partinn. Fyrsta smsið frá Flugfélaginu um seinkun kom snemma morguns og svo var þetta eins og eldheitt ástarsamband þar sem sms flugu á milli. Við endurbókuðum okkur í flug á föstudeginum eingöngu til að endurtaka fimmtudaginn. Þá ákváðum við að hætta við námskeiðið og njóta þess að ganga í Bláfjöllum í staðinn. Við náðum 3 hringjum á laugardeginum og tæpum 20 km. Daginn eftir var ófært í Bláfjöll en líka ófært frá Ísafirði. Þannig að ég ákvað að breyta gönguskíðadeginum í hjólaæfingu á síðustu stundu. Ég lagði af stað á æfinguna með góðum fyrirvara. Þegar ég var lögð af stað áttaði ég mig á því að ég hafði gleymt headsettinu og snéri við að sækja það. Tek alltaf hlaupabretti á eftir hjólaæfingunni og mér finnst mun þægilegra að hlaupa með tónlist. Það þýddi að ég mætti of seint. Dreif mig í að fylla á vatnsbrúsana. Sunnudagsæfingar eru 2ja tíma og ég tek alltaf með mér 2 brúsa. Þarna fattaði ég að ég hafði gleymt öðrum heima upp á bekk. Handklæðið sem ég tók ekki með var líklega þar líka. Ég missti því af upphitun þannig að þetta varð ansi erfiður tími. Kláraði samt tímann og skellti mér á hlaupabretti, fann hvergi headsettið. Leit í kringum mig, það eru allir með tónlist í eyrunum þannig að ég spilaði beint úr símanum. Hlaupið gekk ekki vel, ég fékk nuddsár og íhugaði að fara að væla og hætta að hlaupa. Þá rifjaði ég upp viðtalið við Arnar Pétursson sem hljóp heilt maraþon með steinvölu í skónum. Ákvað að hætta að væla og klára hlaupið, þetta voru hvort sem er ekki nema 30 mínútur. Gaman að því að því að við Arnar vorum einu sinni að hlaupa sömu helgi og við hlupum næstum því á nákvæmlega sama tímanum. Að vísu hljóp hann 21 km á meðan ég hljóp 10 km en samt, sami tími hjá okkur. Það fyrsta sem ég sá svo þegar ég kom í bílinn eftir æfingu var blessað headsettið.

 

Hvað á að gera við ónotuð gönguskíðaföt?

Þrátt fyrir að ég gæti ekki notað nýju gönguskíðafötin mín nema tvisvar á gönguskíðum þennan veturinn kom það ekki að sök því þau reyndust vera frábær vetrarhlaupaföt, gönguföt og útihjólaföt. Ég elska þegar það er hægt að nota sömu fötin fyrir fleiri en eina íþróttagrein. Eini gallinn við að æfa svona mikið af íþróttum er að ég er ALLTAF að þvo.

 

Að tapa á sundmóti eina ferðina enn

Þegar ég var ekki á Ísafirði var Breiðablik með Garpamót í sundi. Ég hefði betur skráð mig til leiks. Í sumum greinum eins og flugsundi var bara ein kona skráð í ákveðnum lengdum. Ég hefði því nelgt inn 2. sætið, nema ef það hefðu verið tímamörk eða gerð krafa um ákveðna tækni eða getu, eða kunnáttu eða ...þá hefði ég líklega verið rekin upp úr. Annars er ég búin að finna íþróttina sem ég á eftir að massa. Skotgöngukeppni. Þetta virkar ansi einfalt. Eina sem þarf að gera er að ganga á gönguskíðum og skjóta úr byssu. Það virkar ekkert flókið. Ég þarf bara að læra að skjóta úr byssu, hef núna 12 mánuði til þess.

 

Hvernig gekk svo að massa undirbúninginn?

Ég fór ekki á Hermannsmótið. Ég var illa æfð, hálflasin og það var ömurlegt veður. Ég missti af æfingabúðunum á Ísafirði og ég og Hilda vorum ekki peppaðar fyrir Strandamótin. Við tókum kalt stöðumat á ástandið. Veistu,ég er hálflasin, já ég líka. Ég held að það væri betra að fara ekki, já sammála. Okkur gekk svona líka glimrandi vel að tala okkur ofan af því að mæta. Yfirleitt hefur önnur okkar verið í gírnum og dregið hina með. Þarna var hvorug okkar í gírnum og ég lá í flensu alla helgina þannig að ég var fegin að hafa ekki farið.

Þegar gulrótin hverfur

Þegar Covid-19 byrjaði að herja af fullum krafti sá ég fljótt í hvað stefndi. Mér leist persónulega ekki á blikuna og langaði minna en ekkert að fara til útlanda og verða kannski innilokuð á hótelherbergi í sóttkví eða verða fárveik einhver staðar. Eftir að ég datt út úr Landvættinum í fyrra þegar ég lenti í gifsi viku fyrir Bláalónið vissi ég hversu erfitt það er að fá ekki að keppa eftir að hafa æft gífurlega vel. Ég tók Pollýönnu á það dæmi en ég var ekki tilbúin að gera það aftur. Ég var einfaldlega ekki tilbúin að æfa og æfa fyrir keppnir sem ég vissi innst inni að ég væri ekki að fara í. Ég ákvað því að slá allt út af borðinu. Ég var búin að ákveða að sleppa Fossavatninu áður en þeir hættu við. Ég var líka búin að ákveða að sleppa Ólympísku þríþrautinni í Þýskalandi í júní (það er líka búið að hætta við hana). Mig langar minna en ekkert í hálfan járnkarl til Norður Ítalíu í september. Það verður að játast að það er pínu erfitt að halda dampi þegar allar gulræturnar eru farnar. Að æfa bara til að æfa. Ég verð að hrósa Bændaferðum hérna. Þeir sáu um ferðina til Heilbron. Þegar ég ákvað að afbóka mig ráðlögðu þau mér að bíða og sjá hvort að það yrði farið í ferðina. Þegar ferðinni var aflýst höfðu þau samband að fyrra bragði til að láta mig vita að ég fengi allt endurgreitt, líka staðfestingargjaldið. Ekkert vesen og frábær þjónusta.

2020 breyttist því í árið sem ég ætla að bæta formið og fínstilla mig fyrir 2021. Í fyrsta skipti á ævinni er ég ekki með nein plön nema halda mér í formi. Það verður samt að viðurkennast að þegar gulrótin er farin er erfiðara að halda sér að verki. Það er auðvelt að hugsa, það skiptir ekki öllu máli þó að ég sleppi þessari æfingu, ég er ekki að fara að keppa á næstunni. Þess vegna þakka ég fyrir fólkið mitt í Þríþrautadeild Kópavogs sem er svo duglegt að hreyfa sig og deila því á meðal hópsins. Í gærmorgun var 90 mínútna hlaup á plani. Ég var ekki alveg að nenna, það var suddi og kalt. Svo sá ég á Instagram að Birna Íris, Kristín Vala og Hrafnhildur voru búnar að hlaupa. Það var því ekkert annað í stöðunni en að fara út. Náði svo einu mínu besta hlaupi frá upphafi og 3ja besta 10 km.

Mitt markmið 2020 er að bæta mig smátt og smátt. Það hentar mér betur en að taka stökkbreytingar. Ef ég næ að hlaupa 10 km á 60.28 mínútum núna þá er markmiðið næst að 3ja besta 10 km hlaupið mitt verði 59.59 og svo framvegis. Tek eina umferð af styrktaræfingum eftir æfingar í þessari viku og tvisvar næst.

 

Viktor sonur minn er meðetta. Ég sagði við hann um daginn. Viktor lastu þetta með 50 manna æfinguna sem reyndist svo bara misskilingur. Hann leit á mig og sagði, mamma mér er alveg sama. Þetta er akkúrat málið. Hvers vegna erum við að velta okkur upp úr einhverju sem er ekki einu sinni rétt? Hvers vegna erum við að eyða orku í að spá í eitthvað sem við höfum ekki stjórn á og getum ekki breytt? Hann er einn af mínum bestu leiðbeinendum. Ég er á góðri leið með að tileinka mér hans lífspeki.

Ekki velta þér upp úr hlutum sem þú getur hvorki stjórnað né breytt.

 

Hægt er að fylgjast með vegferð Ásdísar á instagram: asdisoskvals

 

Ásdís Ósk Valsdóttir

Ásdís Ósk Valsdóttir

Fasteignasali, 3ja barna móðir og áhugamanneskja um heilbrigðan lífstíl og njóta lífsins til fullnustu

Meira