c

Pistlar:

18. febrúar 2021 kl. 21:06

Ásdís Ósk Valsdóttir (asdisosk.blog.is)

Er heilbrigður lífstíll dulbúin megrun?

Collage 2021-02-17 09_10_55

Ég er farin að heyra æ oftar.

Heilbrigður lífstíll er megrun í dulargervi!

Ef þetta snýst um þyngdartap þá er þetta megrun!

Ef það eru boð og bönn þá er þetta megrun!

Fyrir mér snýst lífstíll um að taka ákvarðanir um hvernig lífi þú vilt lifa. Ekki bara hvað snertir mataræði og hreyfingu, heldur allt lífið. Ég reyndi að spyrja Hr. Google “Hvað er megrun?” en það kom ekkert eitt svar. Fyrir mér er megrun svelti. Þú neitar þér um mat með eitthvað markmið í huga.

Í gegnum tíðina hef ég prófað allskonar kúra en alltaf gefist upp þar sem ég hef ekki agann í að neita mér um mat eða nennuna að reikna út hvað ég má og hvað ég má ekki. Ég einfaldlega get ekki verið svöng til lengri tíma og þegar ég tala um lengri tíma þá er ég að horfa á svona 4-5 klukkustundir. Ég hef til dæmis aldrei skilið fólk sem segir: “það var svo mikið að gera hjá mér í vinnunni að ég steingleymdi að borða í dag”. Ég verð úrill ef ég fæ ekki að borða reglulega. Ég hef ALDREI gleymt að borða.

Allir þessir kúrar skiluðu mér aldrei neinu nema skammtímaárangri sem núllaðist út daginn sem ég gafst upp og eftir örfáa daga var ég komin í sama far og áður en ég byrjaði á átakinu.

Daginn sem ég hitti David Goggins og hann spurði: “Ef ég læsi ævisögu þína, myndi hún hafa áhrif” var dagurinn sem mitt nýja líf byrjaði.

Endurstilling og endurhönnun

Ég ákvað að leggja af stað í nýja vegferð, skrifa nýja sögu og hanna nýja Ásdísi. Þessi Ásdís sem ég sat uppi með var hvort eð er drepleiðinleg. Hún var pirruð og úrill og átti til að vera assgoti langrækin á köflum. Mér líkaði ekki lengur við hana og ákvað því að taka Evu Appelsínu úr Ávaxtakörfunni á þetta:

“En ef að það væri eitthvað
sem mig líkaði ekki við
ég skæri það burt og límdi svo nýtt
sem ætti þá betur við mig”

Í fyrsta skipti á ævinni var fókusinn settur á að verða heilbrigðari og bæta heilsuna og jú létta mig þar sem ofþyngd hefur ýmis heilsufarsvandamál í för með sér. Til að ná árangri þurfti ég að gera ýmsar breytingar, t.a.m í mataræði. Ég mátti t.d. ekki lengur borða allan þann sykur sem ég var vön í allskonar formi.

Flokkast það undir megrun að borða minna nammi?

Flokkast það undir megrun að borða meira grænmeti?

Ég get ennþá misst mig í nammi. Ég fer ekki á bömmer eða refsa mér. Ég fer ekki út að hlaupa 10 km af því ég gúffaði í mig yfir sjónvarpinu.

Hins vegar finn ég það hressilega daginn eftir á minni líðan. Ég vakna með hálsbólgu og hausverk. Ég er orkulaus og þreytt. Líðan sem ég var með flesta daga fyrir nokkrum árum. Ég hef í alvöru pantað Covid test eftir sykurát þar sem þetta eru nákvæmlega sömu einkenni og Þríeykið segir alltaf: “pantaðu test við minnstu einkenni”.

Ég er búin að sætta mig við að ég og sykur eigum ekki samleið og ég þarf að innbyrða hann í litlum skömmtum.

Þetta snýst ekki um kíló

Núna sé ég alveg fyrir mér að einhverjum svelgist á kaffinu og þeir frussa út úr sér í réttlátri reiði. “Hvaða rugl er þetta. Það snýst allt um kíló hjá þér. Þú vigtar þig daglega og þú setur reglulega á Instagram hvað þú ert þung eða hvað þú ert búin að missa mörg kíló”.

Ykkur að segja, þá var þetta í fyrsta skipti sem ég tók ákvörðun um að gera breytingar sem snérust ekki um að komast í ákveðna þyngd, eða passa í ákveðna fatastærð. Ég vissi að ég yrði að gera breytingar þar sem núverandi lífstíll var hægt og rólega að ganga af mér dauðri.

Um leið og ég tók ákvörðun um að breyta um lífstíl tók ég líka ákvörðun um að þetta yrði að vera eitthvað sem ég gæti haldið út. Þetta mætti ekki vera átak. Það sló út allt sem ég hafði reynt áður.

Ég vildi ekki vigta matinn minn út ævina. Ég vildi ekki telja kalóríur. Ég nennti engan veginn að læra hlutföll af fitu, kolvetnum og próteinum í mat og ég veit ekki einu sinni hvað Macros gengur út á og nennti ekki að setja mig inn í það. Ég fór því frekar einfalda leið. Ég minnkaði ruslfæði, sykur, snakk og þess háttar og jók hollara fæði og fékk mér egg og avocado í morgunmat í staðinn fyrir te og ristað brauð með smjöri, osti og sultu.

Ein afleiðing af breyttu mataræði og meiri hreyfingu er sú að ég hef misst 30 kíló á þessum þremur árum. Er ég þá búin að vera í megrun í rúm 3 ár af því ég léttist?

Hvað ef ég viðheld þessum lífstíl út ævina? Er ég í megrun eða er ég mögulega að lifa lífinu eins og mér líður vel með

 

Hvenær á að byrgja brunninn?

Þegar ég var fertug eignaðist ég mitt 3ja barn. Meðgangan var flokkuð sem áhættumeðganga og því fékk ég mjög gott eftirlit. Ég var of þung. Ég var akkúrat jafnþung þegar ég varð ólétt að mínu þriðja barni og daginn sem ég átti mitt fyrsta barn. Á minni fyrstu meðgöngu þyngdist ég um 25 kíló sem er nú ágætis afrek þó að ég segi sjálf frá. Ég greindist með vott af meðgöngusykursýki í síðustu meðgöngunni og ákvað því að passa mig extra vel. Ég vildi að dóttir mín myndi fá bestu mögulegu meðgönguna. Ég tók því út alla fæðu sem hentaði ekki fyrir meðgöngusykursýki og það var í raun frekar auðveld ákvörðun. Það lá jú heilt líf undir. Meðgangan gekk síðan svona glimrandi vel. Hún fæddist eftir 9 mánuði og einn dag (eins og strákarnir) og var nett og fullkomin. Ég fór síðan aftur í gamla mataræðið, enda búin að passa mig í 9 mánuði og ekkert líf í hættu, eða hvað?

Þegar ég hugsa til baka hvernig mér gekk að byrja á nýjum lífstíl þá gerði ég í raun nákvæmlega sama og ég gerði þegar ég varð ófrísk af Sigrúnu Tinnu. Ég tók út ákveðin mat og setti inn annan mat. Á meðan allir geta skilið að kona vill passa sig gífurlega vel á áhættumeðgöngu, þá eru margir fljótir að dæma öfgarnar í mér með mataræði. Ég verði nú að slaka á stundum og leyfa mér smá hér og þar.

Hvers vegna eru það öfgar að passa framtíðar Ásdísi þegar það eru ekki öfgar að passa ófæddu Sigrúnu Tinnu? Hvers vegna eigum við svona erfitt með að setja okkar heilsu í fyrsta sæti?

Greenfit leysir vandann

Ég var búin að ná ansi góðum árangri í 2 ár þegar ég stoppaði. Ég hætti ekki bara að léttast ég byrjaði að þyngjast. Það voru ýmsar kenningar í gangi. “Þú ert farin að eldast og það hægir á brennslunni”. “Vöðvar eru þyngri en fita” ásamt fleiri gullkornum. Ég vissi hins vegar að það væri eitthvað að. Ég þyrfti bara að finna lausnina og hana fann ég hjá Greenfit

Hálfu ári eftir að ég fór í fyrstu mælinguna hjá Greenfit er ég ennþá að bæta mig. Ég er komin í kjörþyngd og núna er fókusinn á að styrkja mig og örbæta endalaust.

Mörgum finnst ég með járnaga sem þeir hafa ekki og geta því ekki tekið á sínum málum þó að þeir vildu. Ég er einfaldlega frávik að þeirra mati. Það er auðvelt að skýla sér á bakvið það. Ég gerði það í tuttugu ár. Ég veit að það er ekkert auðvelt að horfast í augu við sjálfan sig og segja “heilsa mín skiptir einfaldlega ekki nógu miklu máli til að setja hana í forgang.”

Ég var einu sinni með heimilislækni sem var með þessa mynd af veggnum hjá sér, akkúrat í augnhæð fyrir þá sem sátu á móti honum. “Ef þú hefur ekki tíma fyrir heilsuna í dag, þá hefur heilsan ekki tíma fyrir þig á morgun.”  Mér fannst þetta öfgafullt og nett fordómafullt. Hann vissi ekkert hvað ég var upptekin, hvað var mikið álag á mér, hvað ég vann mikið. Hvað var hann að setja sig á háan hest. Núna veit ég betur. Ef heilsan er ekki í forgangi þá þarf mögulega að forgangsraða upp á nýtt.

Með leiðbeiningum frá Greenfit missti ég 10 kíló á þremur mánuðum. Það gerðist áreynslulaust og alls ekki af ásetningi. Mitt markmið var einfaldlega að lækka hættuleg gildi í líkamanum og auka lífsgæði mín og framtíðarhorfur.

Ég lít ekki á þann lífstíl sem ég hef valið mér sem öfgar eða megrun heldur nauðsynlegan til að bæta heilsu mína og auka lífsgæði mín út ævina. Samt eru alls konar boð og bönn. Kannski er ég einföld en ég held að það sé mjög erfitt að breyta mataræðinu, bæta við hreyfingu og léttast ekki.

Nýtt líf og spennandi framtíðarsýn

Á þessum rúmu þremur árum sem mín vegferð hefur staðið yfir hef ég misst 30 kíló. Ég hef líka misst hæfileikann til að verða langrækin, velta mér upp úr fortíðinni og ergja mig á hlutum sem ég get ekki breytt. Ég hef týnt óteljandi steina upp úr mínum bakpoka og létt mun meira á mér andlega en líkamlega. Það var skrýtin tilfinning að komast í kjörþyngd eftir að hafa verið of þung í rúmlega tuttugu ár. Allt í einu fór ég að setja mér önnur og spennandi markmið sem tengjast úthaldi og styrk. Fyrir mér er þetta einfalt. Ég á einn líkama og ég ætla að hugsa eins vel um hann og ég get. Ein vél og hún þarf almennilegt bensín. Ég set ekki díselolíu á bensínbíl. Ég sé sjálfa mig fyrir mér að hlaupa upp Esjuna á sjötugsaldri, á fjallahjóli eða taka þátt í utanvegahlaupi. Það eru einfaldlega engin takmörk fyrir því hvað þú getur gert, aldur er bara tala.

Dagurinn sem allt breyttist var dagurinn sem ég ákvað að setja mig og mína heilsu, bæði líkamlega og andlega í algjöran forgang. Ég er heilbrigðari í dag. Ég er laus við bólgur og þrota og ég er í betra jafnvægi en ég hef nokkurn tímann verið. Ég hitti vinkonu mína á förnum vegi og hún sagði: “Það er svo mikil ró yfir þér.” Það er líklega fallegasta hrós sem ég hef fengið á ævinni og sýndi mér hversu langt hef ég er komin.

Hægt er að fylgjast með vegferð Ásdísar á instagram: asdisoskvals

Ásdís Ósk Valsdóttir

Ásdís Ósk Valsdóttir

Fasteignasali, 3ja barna móðir og áhugamanneskja um heilbrigðan lífstíl og njóta lífsins til fullnustu

Meira