Einu sinni var ég gífurlega mikill lestrarhestur. Á mínum yngri árum vildi ég bara bækur í jólagjöf og yfirleitt var ég búin að lesa þær allar fyrir áramót. Með hækkandi aldri og dvínandi hæfileika til að múltitaska datt lesturinn uppfyrir hjá mér og ég var góð ef ég náði að lesa 4 bækur á ári. Þær tengdust yfirleitt sólarlandaferðum þar sem það er nú fátt betra en að flatmaga við sundlaugina og lesa góða bók (nema þú sért við hliðina á barnalauginni þá verður hún ólæsileg eftir nokkrar skvettur). Ég ákvað því að ögra mér aðeins um áramótin og setti mér markmið að lesa allar íslenskar skáldsögur sem voru gefnar út 2021. Mér sýnist að ég þurfi líklega svona 2 ár í að klára þetta markmið en í dag er ég búin að lesa 16 bækur og nóg eftir. Mér fannst líka spennandi að ég myndi þá “neyðast” til að lesa allskonar bækur og stækka sjóndeildarhringinn með því að lesa bækur sem ég hafði engan áhuga á að lesa. Af þessum 16 bókum hafa nokkrar fengið 5 stjörnur og ég myndi segja að bækurnar “Fíkn” eftir Rannveigu Borg Sigurðardóttur og “Konan hans Sverris” eftir Valgerði Ólafsdóttur hafi komið mest á óvart. Bækur sem mér fannst frábærar en ég hefði ekki valið ótilneydd. “Elsku Sólir” eftir Ásu Marin kom líka skemmtilega á óvart. Ég ákvað að halda utan um bækurnar inn á Goodreads og gefa þeim einkunn eftir því hvernig mér fannst bækurnar og skrifa smá texta fyrir mig án þess að vera með ritdóm því ég er hvorki bókmenntafræðingur né gagnrýnandi og fyrir mér var Goodreads bara svona minnismiði fyrir mig. Eitt sem mér finnst frábært við Goodreads er að þú getur valið bækur sem þig langar að lesa og ég setti t.d. allar bækurnar eftir Ásu Marin á þann lista þó að ég komist ekki í þær fyrr en 2021 er búið.
Hver er þessi “Ásdís Valsdóttir”?
Ég hef umsagnirnar á Goodreads stuttar enda hugsaði ég þetta alltaf sem punkta fyrir mig. Ég byrjaði að lesa bókina hans Þórarins Leifssonar “Út að drepa túrista” og fannst hún alveg drepleiðinleg. Mér leið í alvörunni eins og ég væri komin í sögukennslu í grunnskólanum á Dalvík. Ég gaf henni eina stjörnu og setti í umsögn:
“Þessi höfðaði ekki til mín og ég gafst upp á henni. Leið eins og ég væri að lesa yfirborðskennda handbók um Ísland. Náði engum tengslum við persónurnar og ákvað að snúa mér að næstu bók.”
Mér fannst þetta alveg nógu dannað til að enginn fengi áfall yfir dónaskapnum. Ég reyni í alvörunni að vanda mig og set ekkert alveg allt inn sem ég er að hugsa. Ég var einu sinni mjög dónaleg á köflum og átti til að senda frá mér emaila sem voru mjög fúlir. Þegar ég byrjaði að taka mig í gegn þá var þetta eitt af því fyrsta sem ég valdi að breyta. Það má samt ekki missa málfrelsið og mér finnst einmitt svo þægilegt að búa hérna á Íslandi þar sem er bæði rit- og málfrelsi og að því best ég veit eru engar bækur bannaðar þannig að við upplifum ótrúlegt frelsi hvað þetta snertir.
Svo fékk ég skilaboð frá ritstjóra DV. Hann vildi kanna hvort að ég hefði skrifað þessa umsögn. Ég fékk smá áfall og það fyrsta sem flaug í gegnum hausinn á mér. “WTF hvað skrifaði ég eiginlega í þessari umsögn”. Jú umsögnin var akkúrat það mér fannst og ritstjórinn setti mig inn í málið. Þá hafði höfundi bókarinnar verið svo misboðið yfir þessari umsögn að hann var sannfærður um að einhver annar væri með leyniaðgang undir dulnefninu “Ásdís Valsdóttir” enda hver heitir líka Ásdís Valsdóttir. Augljóst að þetta er ekki raunveruleg manneskja. Ekki nóg með að þetta væri leyniaðgangur heldur vissi hann nákvæmlega hver stæði að baki þessari árás.
„Allar bækurnar mínar eru umdeildar. Þær eiga líka að vera það. En ég er á sama tíma 100% viss um að „Ásdís Valsdóttir“ er Jakob Bjarnar „blaðamaður“ að skrifa dóm um bækurnar mínar inni á Goodreads, gnístandi tönnum undir dulnefni. A cunt is a cunt is a cunt,“ skrifaði Þórarinn á Facebooksíðu sína
Hver er samt “Ásdís Valsdóttir” ef hún er ekki Jakob Bjarnar. Er hún kannski Stella Blómkvist að pönkast í öðrum rithöfundum í frítíma sínum og fannst nafnið Ásdís Valsdóttir það flippaðasta sem henni datt í hug.
I know what you did last Summer !!!
Ég gef samt ekki mikið af einni stjörnu umsögnum en þetta er samt önnur bókin í ár sem hefur fengið eina stjörnu.
Lestrarátakið gekk gífurlega vel til að byrja með. Ég fór á bókasafnið og tók 4 bækur í einu og hámlas þær. Sumar voru svo góðar að ég náði hreinlega ekki að leggja þær frá mér. Svo kom ein sem ég átti í gífurlegum vandræðum með. Hún hafði fengið flotta dóma. Gífurlega fyndin að mati lesenda og ég hlakkaði mikið til að lesa hana. Svo mikið að ég keypti hana á flugvellinum á leiðinni til Spánar í hjólafrí. Ég sá strax að ég var ekki á sama stað og þeim sem fannst hún fyndin. Mér fannst hún hreinlega drepleiðinleg og ógeðsleg. Lýsingar á samtímafólki voru niðrandi og ég sá ekkert jákvætt við þessa bók. Googlaði fleiri dóma. Las dóm eftir Kolbrúnu Halldórsdóttur og sá að ég hefði átt að googla hann áður en ég byrjaði á bókinni og kannski breyta markmiðinu í að ég mætti sleppa 3 bókum. Einn gagnrýnandi sagði að plottið í lokin kæmi á óvart og hvatti lesendur til að klára bókina sem ég og gerði. Endirinn varð ekkert betri og ég ákvað að gefa bókinni eina stjörnu með umsögninni leiðinlegasta bók sem ég hef lesið. Næsta sem gerist er að ég fæ tilkynningu á Facebook að höfundurinn (sem ég þekki ekki og tengist mér ekkert) hafði gert like á video sem ég hafði sett inn fyrir löngu. Ég velti fyrir mér skilaboðunum. Hvers vegna setti hann like á mitt Facebook nokkrum mínútum eftir að ég setti inn umsögnina mína?. Voru þetta svona skilaboð, “ég veit hver þú ert og ég fylgist með mér”. Mér fannst þetta reyndar pínu fyndið en ákvað að hafa vaðið fyrir neðan mig og skella þessu hérna inn í bloggið mitt ef ég skyldi óvart hverfa, trix sem ég lærði af einni af sögupersónum í bókinni sem skildi eftir bréf ef aðalsögupersónan myndi óvart stúta henni. Eina sem ég þarf að krossa fingur með er að lögreglan sem verður sett í rannsókn málsins verði aðeins hæfari en þessi í bókinni.
Bæði Mannlíf og DV birtu frétt um deilur Þórarins og Jakobs út af þessum ritdómi.
Mannlíf sagði: Jakob Bjarnar sagður vera Ásdís. Hvað þýðir það? Hver er ég og erum við síamstvíburar? Hvernig tengjumst við Jakob? ég hef aldrei hitt hann en núna er hann sagður vera ég?. Kári Stef, getur þú kíkt á málið fyrir mig?. Getur Jakob verið ég, er hann búinn að yfirtaka mig? Síðasta setning í greininni er “Enn eru menn engu nær um það hver er að baki Ásdísi….”
Þarna líður mér frekar mikið eins og ég sé á FBI most wanted list. Ég er búin að horfa á rosalega mikið af glæpaþáttum og aðalkrimmarnir eru alltaf á FBI most wanted list og enginn veit hverjir þeir eru í raun og veru. Nennir einhvern að hnippa í Mannlíf og láta þá vita að ég sé búin að gefa mig fram.
Þegar ég las þessa setningu … “Enn eru menn engu nær hver er að baki Ásdísi… gat ég ekki annað en dáðst að hinum rithöfundinum. Það tók hann ekki nema svona 5 mínútur að finna út úr því hver ég var þrátt fyrir að það væri engin forsíðumynd komin á Goodreads. Ég setti hana bara inn þannig að fólk myndi þekkja okkur Jakob í sundur. Ég skoðaði mynd af Jakobi og ég sé að við erum sláandi lík, bæði dökkhærð.
DV fann út úr þessu frekar hratt líka. Ritstjórinn sendi einfaldlega skilaboð á allar konur á Facebook sem heita Ásdís Valsdóttir og leysti gátuna.
Við erum sem betur fer eins ólík og við erum mörg. Ég hef tekið eftir því í þessu lestrarátaki mínu að það eru ákveðnar bækur sem höfða meira til mín en aðrar og sumar bækur sem ég elska fá vonda dóma hjá öðrum. Enda væri lífið frekar litlaust ef við hefðum öll sama smekk.
Þórarinn Leifsson getur andað léttar yfir því að leynikonan og kuntan "Ásdís Valsdóttir" skrifi fleiri vonda dóma. Hann segir reyndar að hún sé að skrifa dóm um bækurnar hans sem er held ég örugglega fleirtala en ef þú skoðar aðganginn minn á Goodreads þá hef ég bara skrifað einn dóm um eina bók eftir Þórarinn Leifsson og þeir verða aldrei fleiri því eins og Þórarinn segir svo fallega: “A cunt is a cunt is a cunt” og þessi kunta hefur akkúrat engan áhuga á að lesa fleiri bækur eftir hann.
Hægt er að fylgjast með vegferð Ásdísar á Instagram: