„Mamma getur þú komið og horft á mig keppa á Símamótinu í staðinn fyrir að vinna.“ Sigrún Tinna 6 ára
„Mamma, mér finnst svo þreytandi þegar þú ert í símanum þegar ég er að lesa fyrir þig á kvöldin“ Sigrún Tinna 7 ára
„Mamma, það mættu allir foreldrarnir á fimleikaæfinguna nema þú …“ Sigrún Tinna 8 ára
Ég þjáðist af mömmuviskubiti (samviskubiti mömmu sem er vinnualki) í mörg ár. Ég setti alltaf vinnuna í fyrsta sæti. Ég vinn sjálfstætt og mér fannst ótrúlega erfitt að segja nei við verkefnum. Mér fannst erfitt að setja mörk og ég hef ekki tölu á því hversu oft ég var ekki viðstödd einhvern atburð þó að ég væri á staðnum þar sem ég var með hugann við vinnuna eða jafnvel að sinna vinnunni.
Uppskrift af sjúklegri streitu
Ég var komin með öll einkenni sjúklegrar streitu þegar ég fór á fyrirlestur hjá David Goggins og hann mælti þessi fleygu orð: „Ef ég læsi ævisögu þína, myndi hún hafa áhrif á mig?“ Ég renndi stuttlega yfir síðustu ár og áratugi. Það var nú ekkert voðalega mikið sem myndi heilla manninn. Ég og vinnan vorum eitt. Ég var með mjög óheilbrigðan lífstíl. Ég borðaði á hlaupum í næstu sjoppu og eina æfingin sem ég fékk var að hlaupa á milli staða ef ég var að verða of sein á fund. Dæmigerður vinnudagur voru 10-12 tímar og svo þurfti að nota kvöldin til að svara tölvupóstum. Þær voru ófáar helgarnar þar sem ég vann eitthvað báða dagana og fór svo örþreytt inn í vinnuvikuna. Ég var þreytt, ég var orkulaus og það var ansi stuttur í mér þráðurinn og oftar en ekki kom ég heim úrill og pirruð og hafði enga þolinmæði í neitt meira. Vildi bara henda í mig mat og fleygja mér í sófann.
Þessi orð David Goggins fengu mig til að hugsa fram í tímann. Hvar verð ég eftir 10 ár ef ég held svona áfram. Sú framtíðarsýn var ekki spennandi og ég gerði mér grein fyrir því að ég yrði að gera gífurlegar breytingar á mínu lífi, bæði á einkalífi sem og vinnu til að ég yrði ekki enn ein minningargreinin um duglega fólkið sem dó á besta aldri. Ég hugsaði meira að segja: Hvað ætli börnin mín myndu setja í minningargreinina. Mig grunaði að það yrði eitthvað á þessa leið. „Mamma var fínasta kona, höldum við. Við þekktum hana kannski ekkert svakalega mikið og hún var oft pirruð en hún var rosalega, rosalega dugleg að vinna.“
Draumur að vera Dánartilkynning
Ég segi oft að David Goggins hafi bjargað lífi mínu. Áður en ég fór á fyrirlesturinn hjá honum hafði ég ekki hugmynd um á hversu slæmum stað ég var. Þegar þú ert komin með stjórnlausa streitu þá hugsar þú ekki alltaf rökrétt. Ég man að það voru ófá skiptin sem ég las Morgunblaðið og sá dánartilkynningar og það fyrsta sem ég hugsaði: „Mikið svakalega er þetta friðsæll staður til að vera á. Það væri kannski bara ágætt að vera Dánartilkynning. Það er ekkert áreiti þarna, bara eilífur friður og ró“. Þegur þú ert komin á botninn þá færðu líka allskonar ranghugmyndir í kollinn eins og að það yrði líklega bara léttir fyrir aðra líka ef þú yrðir dánartilkynning. Það tók mig mörg ár að vinda ofan af mér og breytingar sem ég byrjaði 2017 eru ennþá í ferli. Ég náði þessu með því að setja mig í fyrsta sæti og hætta að hafa áhyggjur af því sem öðrum finnst því okkar á milli þá er í raun langflestum skítsama um þig og það besta sem þú getur gert fyrir þig er að hætta að hafa áhyggjur af skoðunum annara.
Stöðugt síreiti
Eftir að ég tók þá ákvörðun að setja mig í fyrsta sæti fylgdu því allskonar vaxtavextir eins og mér varð eiginlega bara alveg skítsama hvað öðrum finnst um mig (svona að mestu). Ég vinn aldrei á kvöldin og mjög sjaldan um helgar. Ég vakna klukkan 05:00 á virkum dögum til að æfa og fer snemma að stofa. Þegar ég bregð mér af bæ á kvöldin þá nenni yfirleitt ekki að ræða vinnumál og bið fólk að virða það. Það fer misvel í fólk. Ég hef aðeins verið að hugsa þetta. Hvers vegna á ég að þurfa að segja að ég nenni ekki að ræða vinnuna á kvöldin? Hvers vegna er ekki eðlilegt að spyrja hvort það sé í lagi að spyrja vinnutengdrar spurningar utan vinnutíma? Minn heitasti draumur núna er að þetta sé næsta bylting. Það verði skýr mörk á milli vinnu og einkalífs og það verði jafnfáránlegt að ætlast til þess að fólk svari vinnusímtali eða email á kvöldin eins og að reykja í bíó. Fyrir 20 árum þótti ekki taka því að kvarta yfir fulla kallinum í vinnustaðapartýinu sem var að káfa á öllum konum. „Æi, vertu ekki að þessu tuði, hann Jói er nú alltaf pínu fjölþreyfinn þegar hann er í glasi. Hann meinar nú ekkert með þessu.“ Í dag er fulli kallinn látinn víkja. Hver er með í næstu byltingu um að setja skýr mörk á milli vinnu og einkalífs og að það sé ekki eðlilegt að ætlast til þess að fólk sé aðgengilegt í vinnu allan sólarhringinn allt árið um kring?
Endalaust aðgengi í nútímalífinu
Ég fékk minn fyrsta gsm síma í 30 ára afmælisgjöf. Þetta var Nokia 5110 og með honum fylgdi einn símaleikur, sá magnaði leikur Snake. Hann var frábær því þú nenntir aldrei að spila hann lengi. Í dag erum við með síma sem eru ofurtölvur. Þeir eru stútfullir af allskonar öppum og leikjum og við gætum eytt ævinni með þeim og alltaf fundið eitthvað nýtt til að gera. Nýtt áreiti er bara eitt download away. Nokia 5110 var neyðarsími. Hann var notaður ef það þurfti að ná í mig í neyðartilfellum. Það var bæði mjög dýrt að hringja í hann sem og úr honum og svo fannst mér þetta vera mikil árás á einkalíf fólks að hringja í gsm símann þeirra. Ég notaði alltaf heimasímann og hringdi bara í gsm ef ég þurfti lífsnauðsynlega að ná í fólk. Núna á ég ekki heimasíma. Ég gerði tilraun um daginn. Ég slökkti á tilkynningum á öllum öppum í símanum og vá þvílíkur munur. Það næsta sem ég gerði var að slökkva á Messenger yfir eina helgi og það gekk svona glimrandi vel. Engin áföll þannig að ég mun gera þetta reglulega héðan í frá.
Á mömmuviskubitið rétt á sér?
Þegar ég lít til baka þá er ekki hægt að gera allt. Það er ekki hægt að mæta á alla viðburði, vera alltaf til staðar og byggja upp fyrirtæki. Í dag hef ég náð að beisla vinnuna og finna jafnvægi milli einkalífs og vinnu og ég er til staðar fyrir krakkana eins og þarf.
Það sem ég er að vinna í núna er að í hvert skipti sem Facebook memories birtir minningu sem kveikir á Mömmuviskubitinu er að muna að það er ekki hægt að breyta fortíðinni. Þú getur bara lagað núið. Ég held að við séum of gjörn á að einblína á mistökin sem við gerðum í fortíðinni og bíða eftir framtíðinni í staðinn fyrir að lifa í núinu. Ég veit að ég var amk þar og það hefur verið mikil vinna að breyta því. Ég þarf stöðugt að stoppa og minna mig á að dagurinn í dag er það eina sem er í hendi.
Mér varð hugsað til dánartilkynningatímabilsins um daginn þegar ég vaknaði og hugsaði, lífið er eiginlega 12 af 10. Það gengur allt frábærlega. Auðvitað koma dagar þegar ég er ekki 12, kannski meira 2 en það er eðlilegt. Lífið er ekki Lego Movie þar sem allt er Æðislegt (Everything is awesome). Það er hins vegar ekki eðlilegt að vera í stjórnlausri streitu og vera búin að missa stjórn á aðstæðum.
Ein í regnskógi um jólin
Eftir að ég fór að vinda ofan af mér þá hef ég ekki alveg nennt aðventunni. Mér finnst þetta alltof mikið aukaálag og stress. Í sumar tók ég því þá ákvörðun að sleppa bara jólunum og gera bara það sem ég nennti á aðventunni (lesist langar að gera). Ég pantaði mér 2ja vikna jógaferð til Costa Rica einhvers staðar í miðjum regnskógi. Ég fer alein og mér finnst það pínu, nei mjög stressandi. Ég kann ekki jóga en vona að þetta kveiki á mínum innri jóga. Ég veit ekkert hvað er býður mín og samkvæmt veðurspánni virðist eiga að rigna allan tímann. Ég keypti mér því helling af garni og prjónum og ætla að njóta þess að kjarna mig í 2 vikur og vera í núvitund. Ég hef nokkrum sinnum hætt við ferðina í hausnum á mér og einu sinni sagði ég við Viktor Loga son minn að ég væri hætt við að fara. Væri bara of stressuð fyrir þessa ferð. Hann var fljótur að sannfæra mig um að ég hefði mjög gott af því að fara í þessa ferð, sem er hárrétt, og núna hlakka ég gífurlega til. Ég velti því samt fyrir mér hvort að hann hafi verið svona sannfærandi þar sem hann fórnaði sér til að sjá um húsið og bílinn á meðan ég væri í burtu.
Mitt mottó fyrir 2023 er að gera bara það sem mig langar til að gera. Ekki gera neitt af skyldurækni eða kvöð. Halda áfram að minnka áreiti og lifa í núinu. Hver með memm í #Nessessu
Hægt er að fylgjast með Ásdísi Ósk á instagram