Ég ákvað fyrir nokkru að skella mér í vorferð erlendis. Ég vissi samt ekki hvert mig langaði að fara. Planið var að fara í lok maí. Ég elska að ferðast á vorin og haustin. Það er yfirleitt ekki of heitt, hagstæðari verð og færri ferðamenn.
Eftir hafa eytt góðum tíma í að googla eitthvað einhvers staðar án árangurs ákvað ég að það væri best að fá fagfólk í málið. Ég ákvað að leita til breskrar ferðaskrifstofu sem ég hafði notað árið 2016 með mjög góðum árangri. Þá fór ég í dásamlegt resort á St. Lucia sem heitir “the Body Holiday”. Þegar miðaldra kona sem á það til að ofhugsa málin ferðast ein þá koma upp allskonar kvíðahnútar eins og er þetta svæði öruggt. Ég á líka til að gleyma tímamismun og hef þurft að breyta flugi bara afþví að ég tók ekki eftir því að tengiflug má ekki vera sama dag og kvöldflugið sem lendir daginn eftir. Reyndar er ég miklu öruggari eftir að ég fór ein til Costa Rica um jól- og áramót þannig að næsta ferð verður örugglega kökubiti. Ég er á svo skemmtilegri vegferð að tengjast sjálfri mér og enduruppgvöta gömlu Dísu sem lét ekkert stoppa sig.
Þæfð lopapeysa í Playstationkassa
Ég ákvað því að senda mjög ítarlega þarfagreiningu á ferðaskrifstofuna til að það yrði enginn misskilningur. Ég vildi fara á sambærilegt resort og the Bodyholiday á St. Lucia. Myndi vilja hafa beint flug frá London en MJÖG opin fyrir svæðum. Myndi vilja adults only samt ekki of rómantískt, sjór, strönd, sundlaug, allt innifalið og frábært ef ég gæti stundað einhverja hreyfingu s.s. hlaup, göngur og sund. Setti líka 2.500 pund sem hámarksverð. Linda svaraði um hæl og fannst þetta gífurlega spennandi og langaði hreinlega með. Svo hélt ég áfram að vinna og beið spennt eftir því að Linda sendi mér ómótstæðileg tilboð í sólina. Eftir 2 daga var ég orðin eins og óþreyjufullt barn á aðventunni. Ég hlakkaði gífurlega til að komast að því hvert alheimurinn ætlaði að senda mig. Ég er mjög forlagatrúar og tel að allt gerist af ástæðu og þegar einar dyr lokast þá galopnast aðrar. Eftir 2 daga komu 3 tilboð frá Lindu:
Veit ekki með ykkur en stórar asískar höfuðborgir virka ekki eins og róandi retreat á konu sem er að ferðast ein. Allar þessar ferðir eru mjög spennandi og á bucketlistanum mínum er bakpokaferðalag um þessi svæði síðar en þetta var bara ekki það sem sálin mín þurfti núna. Sem ég er orðin pínu buguð á þessum hugmyndum sendir Linda póst og spyr hvernig mér lítist á hópferð. Ég hugsaði það gæti verið sniðugt ef ég þarf ekki að hanga með hópnum allan tímann. Hversu glatað yrði það t.d. að sitja í rútu með fólki sem þér líkar ekki við í 2 vikur.
Sem ég sleppi þessari hugsun lausri kemur næsta tilboð frá Lindu.
Nú þekki ég ekkert til Stanlandaanna en YURT og rútuferð virkar ekki eins og 5 stjörnu retreat við ströndina og ég þekki nógu marga sem hafa gengið Jakobsveginn til að vita að það er hvorki 5* retreat né strönd við hann. Reyndar sagði Linda þegar ég sendi póstinn að þetta virkaði mjög spennandi og hún væri svo til í að fara í svona ferð. Mig grunar að hún hafi bara verið að skipuleggja fyrir sjálfa sig. Hins vegar verð ég að viðurkenna að ég væri alveg til í að fara í svona ferð seinna. Linda fór bara aðeins framúr sér.
Ég sendi póst til baka og sagði að þetta væri kannski ekki alveg það sem ég væri að leita að. Þá gafst Linda upp, sendi mér tilboð í the Body Holiday upp á rúm 6.000 pund sem á minni málabrautarstærðfræði er rétt rúmlega 2.500 pund.
Þarna greip frúna algjör bugun. Mér leið eins og barni á jólunum sem var búið að horfa á jólapakka alla aðventuna sem leit út eins Playstationkassi bara til að opna hann og sjá í honum þæfða ullarpeysu sem var bæði alltof lítil á mig og stakk mig í þokkabót. Ég ákvað að Linda væri ekki málið og hringdi í Sigrúnu Rósu vinkonu til að væla í henni með hvað þetta væri flókið.
Viltu vinna milljón
Sigrún Rósa er með ráð undir rifi hverju og sagði að eina vitið væri að heyra í Jonna. Hann hefur ferðast um allan heim og er auk þess frábær salsadansari þannig að hann gæti þekkt flott suðræn retreat. Ég heyrði í Jonna. Hann var líka einu sinni símavinur í Viltu vinna milljón og svaraði rétt þannig að ég var sannfærð um að hann myndi redda þessu. Jonni fékk mun minni upplýsingar en Linda vinkona. Beint flug frá London og retreat sem kostar ekki augun úr. Kona má nú ekki nota skósjóðinn sinn í ferðalög. Jonni stakk upp á Sharm El Sheikh. Sharm El Sheikh. Hvar er það og hvað er það?. Frábært svæði í Egyptalandi. Myndi henta þér fullkomnlega. Ég ákvað að gefa þessu sjens, ég meina Jonni svaraði rétt í Viltu vinna milljón. Kannski var þetta málið? Ég googlaði þetta aðeins en var engu nær. Ég heyrði í Ásdís Rósu vinkonu. Hún átti vinkonu sem hafði farið oft til Egyptalands. Hún elskar þetta svæði en hún var í Hurghada. Á hennar hótelinu var mest miðaldra breskt fólk og óléttar konur sem mér fannst ekki virka nógu mikið stuð þannig að ég hélt áfram að leita svara. Þá mundi ég að Vignir ljósmyndarinn okkar í Fasteignaljósmyndun hefur farið oft til Egyptalands. Hann hefur farið á báða staðina. Hann fór með vinahóp sínum til Sharm El Sheikh og fjölskyldunni á hinn staðinn. Ég ákvað að taka sex and the City á þetta og velja staðinn sem sætu strákarnir mæltu með. Bæði svæðin eru samt frábær og líklega mun ég fara næsta til Hurghada einmitt af því að það er styttra í helstu ferðamannastaðina.
30 ára köfunarafmæli
Sem ég er að plana þetta þá fann ég köfunarskírteinið mitt. Ekki margir sem vita það en ég lærði köfun í Honduras og er hef Advance Padi Master Diver skírteini. Ég fékk skírteinið 27.maí 2003. Hvað er eiginlega meira viðeigandi en að fagna því með upprifjunarkúrs í Rauðahafinu. Ég hef einmitt ekki kafað neitt síðan 2003. Sýnist að alheimurinn sé bara spoton með þetta mál og svo sem bónus get ég kynnt mér arabíska eldamennsku og fengið nýjar og spennandi uppskriftir fyrir bloggið mitt www.cleanlife.is
Hvernig fer ég til Egyptalands?
Vignir hafði ráð undir rifi hverju og gaf mér ómetanleg ráð.
Ég fann nokkur hótel og hótelið sem ég valdi var með yfir 4.000 umsagnir á Google og ein setning skar sig út. Single travellers recommend it.
Ég fór á heimasíðuna og þá kom í ljós að þú gast skráð þig í vildarklúbb hótelsins og fengið góðan afslátt af verðinu, þetta var gert samhliða bókuninni. Ég fann svítu með allt innifalið, kona má nú ekki fá innilokunarkennd er það? Hótelið í 11 nætur, allt innifalið í sjávarsvítu var 320.000 og flugið 108.000, eða svipað eins og helgarferð fyrir 2 til Evrópu með flugi, gistingu, mat og drykkjum.
Þú verður að skoða Pýramýdana
Mér finnst alltaf jafnmerkilegt þegar fólk fer í frí að allir og amma þeirra hafa skoðun á því hvað þeir eiga að gera. Það fannst öllum að ég yrði að skoða Pýramýdana fyrst ég væri að fara til Egyptalands. Ég veit ekki með ykkur en ég hélt að Eyptaland væri pínu stórt og ákvað að googla þetta. Egyptaland er 1.002.000 ferkílómetrar. Það er bara hellingur sko. Ég valdi líka Sharm El Sheikh af því að það er nógu langt frá Kairo og Pýramýdunum til að nenna ekki að skjótast, eða rétt rúmlega 500 km. Þetta er svipað og segja, já ertu að fara til Reykjavíkur, þú verður að skella þér í hvalaskoðun á Húsavík, algjört must.
Algjörlega fatalaus pía
Ég var fljót að átta mig á því að ég átti hreinlega engin föt fyrir þessa ferð. Samkvæmt veðurspánni var svona 35 stiga hiti á daginn. Ég neyddist því til að birgja mig upp af réttum fötum þar sem ég man hreinlega ekki hvenær ég fór síðast í svona mikinn hita. Allir kjólarnir mínir voru síðerma og frekar þykkir og ég er ferðast bara með handfarangur þannig að hver flík mátti ekki taka of mikið pláss. Ég er sem betur fer mjög skipulögð og tók mér frí einn mánudag þar sem ég bókaði flugið og hótelið og fór svo og keypti það sem mig vantaði af fötum. Ansi gott dagsverk en ekki laust við að ég fengi smá stress þar sem ég var hreinlega á leiðinni til Egyptalands í næstu viku. Ég ákvað líka að kaupa mér Babyfoot þar sem fæturnar á mér voru ansi þurrir og hælarnir sprungnir og myndu engan veginn sóma sér í nýju sandölunum. Það átti alveg að sleppa, vika í brottför og þetta ferli tekur max 10 daga.
Snákur í hamskiptum
Elsku Sigrún Rósa vinkona skutlaði mér á völlinn. Ég ákvað að skvísa mig upp fyrir flugið. Bæði til að spara töskupláss og svo er skemmtilegra að vera smart í flugi. Það leit samt ekki vel út með flugið. Það var gul veðurviðvörun og flugið mitt var seinni partinn. Upphaflega planið leit vel út. Flug um 16.00, lent í Milano kl. 22:30. Ég átti bókaða eina nótt á flugvallahótelinu og ætlaði að sofa vel, fara í góða sturtu og mæta svo algjörlega gordjöss til Egyptalands. Planið breyttist hressilega. Flugið fór ekki í loftið fyrr en löngu eftir kvöldmat, ég lenti ekki fyrr en um 4 og svo var næsta flug kl. 07:20. Þannig að það var ansi þreytt og framlág kona sem fór í flug. Ég hafði sofið illa nóttina áður þannig að ég var í raun ekki búin að sofa í 2 sólarhringa. Rauðeygð og með hárið í klessu leit ég meira út eins og óskilgetið afkvæmi Gollris úr Hringadrottinssögu og Garth Algar úr Wayne’s World. Ég huggaði mig þó við það að sandalarnir væru sjúklega flottir og sem ég leit niður á fæturna á mér þá var Babyfoot komið í fulla verkun þannig að fæturnir litu út eins og snákur í hamskiptum.
Þannig að fína fyrirfram greidda hótelherbergið mitt var ónotað. Ég mætti til Egyptalands ósofin, rauðeygð með hárið í klessu en ég gat amk glatt mig við það að í bakpokanum mínum var nýja bókin hennar Ásu Marin, Sjávarhjarta sem ég var svo heppin að fá daginn fyrir útgáfupartýið. Ég elska bækurnar hennar, svo skemmtilegar ferðasögur en líka mannbætandi. Mér líður alltaf betur í sálinni þegar ég les þær. Mæli svo með því að lesa bækurnar hennar.
Hvernig er svo í Egyptalandi? Meira um það í næsta bloggi.
Hægt er að fylgjast með ævintýrum Ásdísar í Egyptalandi á Instagram: asdisoskvals