Nú er „BLONDIE“ tíminn að koma
Mikil efnameðhöndlun, aflitun og ýmiskonar hlutir geta valdið því að hárið fer hreinlega að brotna. Það getur verið ansi „scary“ moment þegar þú fattar að þú ert búin að missa alla stjórn á þessu og lokkarnir halda áfram að styttast. Þetta er stundum kallað Chemical Cut af því það er eins og efnin sem hafa verið notuð hreinlega klippi af hárinu án þess að þú hafir nokkuð um það að segja.
Til að aflita eða lýsa hár eru notuð nokkuð sterk efni í flestum tilfellum og er það mjög einstaklingsbundið hversu vel hárið höndlar það. Það skiptir líka máli að nota gæða aflitunarefni eða liti (ó nei, þetta er sko ekki allt sama sullið). Þegar aflitun eða ljósu hári er viðhaldið er ítrekað verið að lita ofan í rótina. Það gerir það að verkum að efnin dragast út í það hár sem þegar er aflitað. Stundum er það hreinlega of mikið, sérstaklega ef hárið er viðkvæmt fyrir. Það er þó ýmislegt sem hægt er að hafa í huga, og í þessu eins og öllu sem við tölum um er það ráðgjöf fagmannsins sem skiptir mestu máli.
Hárgreiðslufólk lendir stundum í því að þurfa að mæla gegn því að fólk afliti hárið, til dæmis ef það er mjög þurrt og fagmaðurinn metur það sem svo að það sé of áhættusamt að aflita það. Það er samt alveg merkilegt að stundum, þrátt fyrir ráðleggingar fagmannsins vill fólk bara fá ljósa litinn sinn „bara einu sinni enn...". Svo var það bara þetta síðasta skipti sem var meira en hárið höndlaði og hárið byrjar að brotna. Þess vegna segi ég, byrjaðu tímann þinn með hárgreiðslumeistaranum á góðu spjalli og faglegri ráðgjöf.
Það er gott ráð að undirbúa hárið með góðri næringu og rakameðferð áður en þú hyggur á aflitun. Það getur bara verið huggulegt „trít" að smyrja smá maska í hárið, setja hárið í handklæði og horfa á einn sjónvarpsþátt. Hárið á alla vega eftir að þakka þér. Gerðu það einu sinni í viku í nokkur skipti og sjáðu hvort þú finnir ekki mun á hárinu.
Þegar þú ert búin/n í aflitun er mikilvægt að byggja hárið upp með raka og próteinum. Hárið er gert úr próteinum og þess vegna þarf það prótein eins og raka. Það eru til ýmis konar prótein sprey og krem sem gera hárinu mjög gott. Þinn fagmaður ætti að geta ráðlagt þér um hvað sé best fyrir þig. Hitavarnir þarf auðvitað ekki að nefna og þær á ekki að spara.
Stundum dugar ekki að ofhlaða hárið af próteini ef hárið er mjög viðkvæmt. Þá brotnar það þrátt fyrir meðferð. Raka og prótein uppbygging þarf að vera úthugsuð. Nei, þetta eru engin geimvísindi, en fáðu ráðgjöf hjá þínum hár snillingi. Það var til dæmis ótrúlega algengt að dömur sögðu, ég svaf bara með djúpnæringuna/maskann og héldu að þær væru að bjarga öllu hárinu á einni nóttu. En það kom alveg fyrir að hár brotnaði líka ef daman var með mjög viðkvæmt og brothætt hár ef djúpnæringin/maskinn var mjög prótein mikill. Ég hef alltaf hugsað þetta svona: Prótein herðir, styrkir og ver, svipað og það sem við setjum ofan í okkur. Raki mýkir, gefur glans og eykur teygjanleika, eiginlega eins og gott dagkrem.
Þegar sú staða hefur komið upp hjá kúnnunum mínum að hárið sé að brotna hef ég alltaf fengið þá spurningu hvað þurfi að klippa mikið af hárinu og hversu lengi er það að vaxa?
Við erum alin upp við þann misskilning að hárið vaxi hraðar ef það er klippt. Hárið myndast af dauðum þekjufrumum sem myndast í hársekknum í sífellu. Þessar þekjuvefsfrumur hyrnast svo og deyja og þrýstast út í ræmum sem við köllum hár. Svo myndast nýjar og nýjar frumur í rótinni og gömlu dauðu þrýstast út lengra og lengra út og hárið vex. Það er ekki þannig að hárið vaxi hraðar við klippingu en það lítur heilbrigðara og betur út og virðist því oft kraftmeira eftir á.
Hárið á þeim sem fara reglulega í klippingu síkkar samt hraðar. Nú haldið þið að ég sé orðinn ruglaður því ég var að segja akkúrat öfugt! En það er þannig að ef þú ferð sjaldan í klippingu þá fer hárið að klofna í endanum. Ef ekki er klippt þá heldur það áfram að klofna eins og prik sem er búið að kljúfa og stoppar ekki fyrr en búið er að höggva/klippa á og STOPPA. Þannig er nú það.
Ef ske kynni að sólin fari að skína þá skiptir jafnmiklu máli að verja hárið eins og húðina. Í dag eru í boði vörur sem eru hugsaðar útfrá sólinni, það er oftast heldur ekki neitt rugl í brúsa, það er útpælt stöff sem virkar ef rétt er notað.
Ég er 100% á því í svona málum að góðir hlutir gerast hægt. Það eru til allskonar töfralausnir, bæði einhverjar ofur meðferðir og vítamín. Það eru bara til dæmis tvö pínu lítil atriði sem hjálpa helling fyrir hár sem er að brotna. Þau laga ekki hárið eins og eitthvað af því sem ég er búinn að nefna heldur passa að við brjótum það síður. Hvað er það?
Góður flækjubursti er lykilatriði og auðvitað er ég núna að tala um The Wet Brush frá HH Simonsen. Það eru ágætis meðmæli með þeim snilldarbursta að 10.000 manns á Íslandi keyptu hann árið 2017! Hitt eru teygjur... það er eiginlega algjört no-no að nota teygjur ef hárið þitt er að brotna, en ef þú bara verður, veldu þá vel og prófaðu gorma teygjurnar, þær fást útum allt.
Ég vona að ég hafi ekki hrætt neinn með þessu tali. Það er alveg óhætt fyrir flesta að aflita/lýsa á sér hárið án þess að eigu á hættu að það fari að brotna. En þegar fagmaðurinn segir að nú sé komið nóg, þá skaltu hlusta. Ég get alveg státað mig af því að á mínum góða hár ferli neitaði ég nokkrum sinnum að lita því hárið var ekki tilbúið, þeir viðskiptavinir komu allir aftur og treystu mér bara betur eftir þessa stæla eða það held ég allavega.
Nú er sumarið að koma og gott að BLOND-A sig upp!
Kv. Baldur Rafn