c

Pistlar:

3. nóvember 2020 kl. 14:38

Barnaheill - Save the Children á Íslandi (barnaheill.blog.is)

Dagur gegn einelti

8. Bangsi copynóvember ár hvert er helgaður baráttunni gegn einelti. Dagurinn var í fyrsta sinn haldinn árið 2011 og þá til að vekja athygli á því að einelti er ofbeldi og á aldrei að líðast. Frá árinu 2017 hefur dagurinn verið tileinkaður einelti meðal barna, einelti í skólum. Einelti er brot á barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Þar er kveðið á um vernd allra barna gegn ofbeldi og að ekki skuli mismuna börnum eftir stöðu þeirra. Einelti er mismunun, því þegar barn er lagt í einelti, fær það ekki að tilheyra hópnum, er útilokað og niðurlægt á einhvern hátt.

Þegar ákveðið var að tileinka málefninu sérstakan dag hafði um árabil verið vitundarvakning og verkefni gegn einelti í skólum, en allt kom fyrir ekki. Ekki hafði tekist að útrýma einelti. Verkefnin voru fyrst og fremst viðbragðsáætlanir við skaða sem var skeður, skaða sem jafnvel byrjaði að myndast mörgum árum fyrr og var orðinn fastur í sessi.

Barnaheill líta svo á að einelti þurfi að fyrirbyggja. Frá árinu 2014 hafa samtökin því boðið upp á forvarnaverkefni gegn einelti. Verkefnið nefnist Vinátta, byggist á nýjustu rannsóknum á einelti og er þróað af Mary Fonden og Red Barnet- Save the Children í Danmörku. Samkvæmt Vináttu er einelti menningarlegt og samskiptalegt mein en ekki einstaklingsbundinn vandi. Alltaf þarf að vinna með hópinn í heild, byggja upp jákvæð samskipti og skólabrag og efla félagsfæri barna frá unga aldri. Vinátta hefur verið kærkomið verkefni í leik- og grunnskólum landsins og nú eru 60% leikskóla að vinna með Vináttu og eru þar með Vináttuleikskólar og 20% grunnskóla. Í tilefni af Degi gegn einelti árið 2020 gefa Barnaheill út nýtt og endurbætt efni fyrir grunnskóla sem stendur nú öllum grunnskólum landsins til boða. Með vinnu sem flestra skóla með Vináttu mun takast að minnka einelti til muna, því með Vináttu breytast viðhorf til samskipta, börn og fullorðnir verða umburðarlyndari, sýna umhyggju og virðingu, læra að setja sér mörk og skipta sér af órétti sem aðrir eru beittir. Það sýna rannsóknir og reynslan.

Barnaheill - Save the Children á Íslandi

Barnaheill - Save the Children á Íslandi

Barnaheill – Save the Children á Íslandi eru hluti af alþjóðasamtökunum Save the Children sem stofnuð voru árið 1919 og vinna að réttindum og velferð barna með barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna að leiðarljósi. Barnaheill eru leiðandi afl í að breyta viðhorfum og verklagi varðandi málefni barna og réttindi þeirra. Framtíðarsýn Barnaheilla er heimur þar sem sérhvert barn hefur tækifæri til að lifa og þroskast, fær gæðamenntun, lifir öruggu lífi og hefur tækifæri til að hafa áhrif. Við stöndum vaktina í þágu barna og gætum réttinda þeirra.

Meira