Í daglegu tali heyrist enn til fólks tala um að foreldrar hafi forræði yfir börnum sínum. Mörg ár eru síðan hætt var að nota orðið forræði í lögum. Hið rétta er að nota orðið forsjá. Orðið forræði lýsir gömlum gildum um að foreldrar ráði yfir börnum sínum en orðið forsjá leggur áherslu á eðli foreldrahlutverksins sem felur í sér skyldu til umönnunar og verndar. Mikilvægt er að þekkja rétt barns til þátttöku og áhrifa í ákvörðunum sem það varðar. Barn er einstaklingur með sín eigin mannréttindi og það er mikilvægt að foreldrar líti á hlutverk sitt þannig að þau hafi skyldu til að leiðbeina barni sínu og vera því til stuðnings til að það geti blómstrað og notið tækifæra sinna í lífinu.