c

Pistlar:

3. maí 2022 kl. 9:39

Barnaheill - Save the Children á Íslandi (barnaheill.blog.is)

Hvað þýðir að barn eigi rétt til þátttöku?

Screenshot 2022-05-03 093703Samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins, eða Barnasáttmálinn, gildir sem íslensk lög, en hann var lögfestur á Alþingi árið 2013, sem lög nr. 19/2013. Hann á við um öll börn á Íslandi, óháð kynþætti, litarhætti, kynferði, tungu, trúarbrögðum, stjórnmálaskoðunum eða öðrum skoðunum, uppruna með tilliti til þjóðernis, þjóðhátta eða félagslegrar stöðu, eignum, fötlun, ætterni eða öðrum aðstæðum þeirra eða foreldra þeirra eða lögráðamanns. 

Ein af grunnstoðum Barnasáttmálans er réttur barns til þátttöku. En hvað felst í þeim rétti?  

Í 12. grein Barnasáttmálans kemur eftirfarandi fram: Aðildarríki skulu tryggja barni sem myndað getur eigin skoðanir rétt til að láta þær frjálslega í ljós í öllum málum sem það varða, og skal tekið réttmætt tillit til skoðana þess í samræmi við aldur þess og þroska. 

Í þessari grein má finna kjarnann í þátttökurétti barna. Eins og orð þessi bera með sér er réttur barns til að tjá skoðun sína mjög víðtækur en hann nær til allra mála sem barnið varðar. Þessi orð verður að skilja sem svo að barn, óháð aldri, eigi rétt til að láta skoðun sína í ljós, þegar það getur myndað eigin skoðun, hvenær sem því sjálfu eða öðrum manneskjum finnst málið það varða.  

Barn á því rétt á að taka þátt með því að tjá skoðun sína um öll mál sem það varðar, frá því það hefur færni til að láta skoðun sína í ljós. Gæta verður þess að börn láta skoðanir sínar í ljós frá unga aldri, fyrst aðeins með hljóðum, gráti eða öðrum aðferðum sem eru á færi þess að nota. Því er mikilvægt að vera vakandi fyrir því þegar barn tjáir skoðanir sínar og líðan og vera meðvitaður um að börn tjá sig með mismunandi máta eftir þroska og aldri.  

Til þess að réttur barna til þátttöku verði raungerður þarf börnum því að bjóðast með raunhæfum hætti, að segja skoðun sína um allt frá því sem varðar það persónulega, í nærumhverfi þess, fjölskyldu- og heimilislífi, um menntun sína og tómstundaiðkun og samskipti við vini og aðra, til þess að hafa tækifæri til að tjá skoðun sína um hin stærstu samfélagsmál, svo sem um stjórn landsins og lagasetningu.  

Samfélagið allt þarf að þekkja þennan rétt barna en vitanlega eru það foreldrar, einstaklingar sem vinna fyrir og með börnum og stjórnvöld sem þurfa að raungera réttindin með því að muna eftir að spyrja börn, hlusta á börn og nýta upplýsingarnar sem aflað er um skoðanir barna til að byggja ákvarðanir á. Rétt er að taka fram að um er að ræða rétt barna til að tjá skoðun sína en ekki skyldu. 

Skoðanir barna skipta miklu máli til að skapa heilbrigt og barnvænt samfélag.  

Barnaheill hvetja alla til að spyrja börn um hvað þeim finnst, hlusta vel á svörin og taka réttmætt tillit til skoðana, reynslu og hugmynda þeirra. 

Barnaheill vinna að bættum réttindum barna og hafa Barnasáttmálann að leiðarljósi í öllu sínu starfi. 

 

 

Barnaheill - Save the Children á Íslandi

Barnaheill - Save the Children á Íslandi

Barnaheill – Save the Children á Íslandi eru hluti af alþjóðasamtökunum Save the Children sem stofnuð voru árið 1919 og vinna að réttindum og velferð barna með barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna að leiðarljósi. Barnaheill eru leiðandi afl í að breyta viðhorfum og verklagi varðandi málefni barna og réttindi þeirra. Framtíðarsýn Barnaheilla er heimur þar sem sérhvert barn hefur tækifæri til að lifa og þroskast, fær gæðamenntun, lifir öruggu lífi og hefur tækifæri til að hafa áhrif. Við stöndum vaktina í þágu barna og gætum réttinda þeirra.

Meira