Í fyrra fluttu tæplega 4.000 fleiri til landsins en frá því. Árið á undan voru þeir um 1.500 og var fjöldinn svipaður árin 2013 og 2014. Raunar hafa verið umtalsverðar sveiflur í fólksflutningum milli landa og virðist staða efnahagslífsins á hverjum tíma ráða miklu þar um. Það kemur ekki á óvart enda er efnahagsástand og kjör fólks almennt lykilstærð þegar kemur að ákvörðun um búsetu.
En hversu sterk eru þessi tengsl og hvernig má rýna í þau? Raungengi á mælikvarða launa er vísitala sem mælir hver laun eru á Íslandi samaborið við umheiminn í sömu mynt. Hún tekur þannig tillit til bæði launa og nafngengis. Þegar vísitalan hækkar eru laun hér að hækka umfram það sem gengur og gerist í nágrannalöndum okkar. Raungengið lækkaði mikið á árunum 2009 vegna lækkunar á gengi krónunnar jafnvel þótt laun í krónum hafi haldið áfram að hækka. Þá urðu laun hér lág í alþjóðlegum samanburði. Samhliða bata á vinnumarkaði og styrkingu krónunnar hefur staðan breyst mikið síðustu 3-4 ár og mikill fjöldi fólks flutt til landsins.
Fylgnin milli fólksflutninga og raungengis á mælikvarða launa er afar sterk eins og sést á meðfylgjandi mynd. Ekki er hægt annað en að draga þá ályktun að fólk sé einfaldlega að elta þau kjör og þau tækifæri sem eru í boði og birtingarmynd þeirra eru laun í alþjóðlegu samhengi. Laun í boði á Íslandi eru síðan nátengd þeirri spennu sem er í hagkerfinu á hverjum tíma. Ef hins vegar er skoðað hvort erlendir og íslenskir ríkisborgarar séu að bregðast við með svipuðum hætti blasir önnur mynd við. Síðustu tuttugu árin hafa nánast alltaf fleiri Íslendingar flutt frá landinu en til þess en sveiflan í því hefur hins vegar verið í takt við raungengi og efnahagsástand. En síðustu 3-4 árin hefur þetta breyst. Þrátt fyrir að laun og kaupmáttur hafi hækkað mikið og atvinnuleysi lækkað mikið hafa Íslendingar streymt út. Gróflega getum við sagt að fyrir hvern Íslending sem fer frá landinu koma þrír erlendir starfsmenn til landsins.
Nokkuð ljóst er í hvaða störf erlendir ríkisborgarar hafa verið að sækjast í síðustu ár en ferðaþjónusta og byggingariðnaður hafa tekið til sín mikið af fólki. Nokkuð vandasamara er að ráða í hverjir eru að fara héðan og hvers vegna. Umræðan er hins vegar á þeim nótum að það sé helst ungt og vel menntað fólk sem finnur síður tækifæri við hæfi á innlendum vinnumarkaði. Það er verðugt rannsóknarefni að skoða miklu betur fólksflutning en því má hins vegar slá föstu að fólk eltir uppi góð laun í alþjóðlegu samhengi og spennandi starfstækifæri.