Ég er ein þeirra næstum 10.000 Íslendinga sem hafa flutt til Noregs á undanförnum árum. Það var skömmu eftir komuna til Noregs, ríkasta lands Evrópu, að ég áttaði mig á að peningaleg staða fólks ákvarðast fyrst og fremst af hugmyndum þess um peninga. Nú veit ég að sumir lesendur andvarpa, aðrir ranghvolfa augunum og enn aðrir geta ekki látið ógert að andmæla upphátt. En ef þú hefur hugrekki til að lesa áfram, muntu komast að því að viðbrögð þín stjórnast af þínum eigin hugmyndum um peninga.
Nýtt land – gamlar hugmyndir
Hugmyndir hafa áhrif á hegðun og hegðun endurspeglar útkomu. Þetta reyndi ég á eigin skinni, því viti menn, hugmyndir mínar um peninga breyttust ekki við það eitt að flytjast til Noregs. Hinsvegar urðu flutningarnir til þess að ég áttaði mig á að þrátt fyrir að ég væri komin til fyrirheitna landsins, sat ég enn uppi með gömlu peningahugmyndirnar mínar. Það sem ég neyddist til að horfast í augu við, var að til þess að útkoman breyttist yrði ég að byrja innan frá. Nefnilega í hugmyndabankanum. Þar geymum við ýmsar hugmyndir sem eiga rætur að rekja til uppeldis okkar, menningar sem við höfum tilheyrt og reynslu okkar. Sígildar hugmyndir eins og: „margur verður af aurum api“ og „peningar vaxa ekki á trjám“ þjóna þeim tilgangi einum að viðhalda því munstri sem er til staðar í lífi okkar í dag.
Peningabyltingin
Mín peningabylting hófst á því að ég öðlaðist hugrekki til að horfast í augu við sjálfa mig og munstrið sem var endurspeglun minna eigin peningahugmynda. Það var sönn kúvending og líf mitt tók stakkaskiptum í kjölfarið.
Umbreytingin varð slík að ég tók ákvörðun um að deila reynslu minni með öðrum. Enda áttaði ég mig fljótlega á því að við glímum öll við áskoranir tengdar peningum – sama hvort við eigum lítið af þeim eða mikið af þeim.
Við glímum öll við einhvað tengt peningum. Sama hvort við þénum mikið, eyðum litlu eða liggjum andvaka af peningaáhyggjum. Þessar áskoranir endurspeglast á öðrum sviðum lífs okkar. Fiðrilaáhrifin verða því stórkostleg á öllum sviðum þegar við öðlumst hugrekki til að takast á við þær.
Fljótlega ætla ég að bjóða þér að taka þátt í peningabyltingunni. Ég ætla að bjóða þér að horfast í augu við óttann. Losa þig við peningahugmyndir sem þjóna ekki lengur tilgangi í lífi þínu og kenna þér að nota tæki og tól til að takst á við nýja tímabilið sem er að hefjast í lífi þínu. Viltu taka þátt í peningabyltingunni?