Nýlega var ég á ferðalagi á fjarlægum slóðum. Daginn sem heimferðin var ráðgerð, kom bílstjóri og sótti mig á hótelið, því ég hafði pantað akstur út á flugvöll. Fljótlega eftir að við lögðum af stað, varð mér ljóst að bílstjórinn var einstakur maður. Við ræddum þá staðreynd að við erum sköpuð með tvö eyru og einn munn. Við ályktuðum að helsta ástæða þess sé sú að okkur er ætlað að hlusta meira en við tölum.
Hann sagði mér að strax sem ungur maður hefði hann áttað sig á að lífið er gjöf. Hann hafði frá mörgu að segja og ég er góður hlustandi. Meðal þess sem hann deildi með mér var dæmisaga sem var á þessa leið.
Sagan af íkornanum og hnetunni
Ár hvert safnar íkorninn hnetum svo hann eigi forða fyrir veturinn. Flestum þeirra safnar hann saman í haug en aðrar felur hann. Sumar þeirra sem hann felur, finnur hann aftur en öðrum gleymir hann. Veturinn kemur og fer og íkornann skortir ekkert því hann hefur lagt á ráðin og safnað sér forða.
Víkur þá sögunni að þeim hnetum sem íkorninn hefur gleymt. Sumar þeirra skjóta rótum og með tímanum vaxa tré og trén bera ávöxt.
Uppskera komandi kynslóða
Spurningin er sú, hver á hneturnar sem vaxa á trjánum sem uxu er hneturnar sem íkorninn gleymdi, skutu rótum? Er það íkorninn sem gleymdi hnetununum? Nei, það eru komandi kynslóðir, sagði bílstjórinn góði og kímdi.
Oft eru íkornarnir hyggnari en við mennirnir, bætti hann við íbygginn. Við áttum okkur ekki á mikilvægi þess að safna byrgðum fyrir veturinn. Þá verður ekkert til fyrir komandi kynslóðir.
Lærdómur
Hér á landi skortir hefð fyrir langtíma fjárfestingum, öðrum en lögbundnum lífeyrissjóðsgreiðslum og fasteignakaupum. Fjármálahegðun ræðst oft meira af vana og hugsunarleysi en ráðdeild og framtíðarhugsun. Eitt ráð til að snúa við fjármálunum er að byrja á að heiðra sjálfan sig með því að leggja fyrir. Eins og íkorninn gerir. Prófaðu að fela nokkrar „hnetur“ og sjáðu hvað gerist.