Forbes tímaritið hefur kallað kvenfrumkvöðla hina nýju kvennahreyfingu. Helsta ástæða þess er sú að fyrirtæki í eigu kvenna í Bandaríkjunum hafa átt stóran þátt í því að efnahagsbati þjóðarinnar hefur orðið eins mikill og raun ber vitni.
Samkvæmt staðtölum af vefsíðu Samtaka kvenna í fyrirtækjarekstri í Bandaríkjunum, voru meira en 9,1 milljón fyrirtækja í eigu kvenna þar í landi árið 2014. Þau fyrirtæki höfðu nærri 7,9 milljón manns í vinnu. Þar kemur einnig fram að konur eiga eitt af hverjum fimm fyrirtækjum með hagnað upp á milljón bandaríkjadali eða meira á ári.
Evrópuráðið stóð fyrir víðtækri samantekt á staðtölum um frumkvöðla í Evrópu árið 2012. Samantektin náði til Íslands. Niðurstöður þeirrar samantektar sýna að 11,6 milljónir kven-frumkvöðla voru að störfum í þeim 37 Evrópulöndum sem samantektin náði til, eða 30% af heildarfjölda frumkvöðla í löndunum. Af þessum 11,6 milljónum voru 22% kvennanna með starfsfólk en 78% voru einyrkjar.
Íslenskar konur
Atvinnuþátttaka íslenskra kvenna er hvað mest á byggðu bóli. Samkvæmt skýrslu Efnahags- og framfarastofnunarinnar, OECD frá árinu 2014 var hún 79,6% eða hæst meðal ríkja stofnunarinnar.
Þrátt fyrir að konur í atvinnurekstri hafi verið mjög áberandi á Íslandi, eru haldbærar opinberar staðtölur um fjölda íslenskra fyrirtækja í eigu kvenna ekki aðgengilegar eins og sakir standa. Samkvæmt upplýsingum frá Félagi kvenna í atvinnurekstri, er þó unnið að því að taka tölurnar saman en ætla má að um fimmtungur íslenskra fyrirtækja séu í eigu kvenna.
Í frelsinu felst öryggi
Af framangreindu að ráða er óhætt að segja að fjöldi kvenna ver tíma sínum í að byggja upp fyrirtæki. Alþjóðlegar rannsóknir hafa sýnt að konur kjósa gjarnan það öryggi og frelsi sem felst í því að reka eigið fyrirtæki.
Ein af meginstoðunum í starfsemi UN-Women í heiminum er fjárhagsleg valdefling kvenna. Helsta ástæða þess er sú að það hefur sýnt sig að í samfélögum þar sem konur fara fyrir fé, eru tækifærin fleiri en ella.
Aðeins 7% af auði jarðar er formlega í höndum kvenna. Sú staðreynd er áfall í sjálfu sér. Sér í lagi þar sem konur eru nú 52% mannkyns, samkvæmt nýjustu tölum. Á sama tíma vekur þessi staðreynd hjá mér spurningar á borð við: Hvers konar breytinga er að vænta í heiminum, nú þegar fleiri og fleiri konur gerast frumkvöðlar og upplifa fjárhagslega valdeflingu?
Fjárhagsleg valdefling kvenna
Mitt markmið er að stuðla að fjárhagslegri valdeflingu kvenna og að sífellt fleiri konur verði fjárhaglegir leiðtogar í eigin lífi.
Við glímum öll við áskoranir tengdar peningum. Þessar áskoranir eru ekki meðfæddar heldur áunnar. Sumar þeirra höfum við dragnast með í áraraðir og aðrar eru sennilega til komnar í kjölfar hrunsins. Margar hafa meira með sjálfsmynd okkar að gera en nokkuð annað en endurspeglast í peningahegðun okkar.
Góðar fréttir
Góðu fréttirnar eru þær að við getum losnað við peningaáskoranir okkar. Sumt fólk segist ekki vilja breytingar en það baðar sig þó daglega og skiptir um föt, svo hvers vegna ekki að skipta um peningahugmyndir og losna þannig við áskoranir tengdar peningum?
Þeir sem ég vinn með og fer með í gegnum Peningabyltinguna, losna við úreltar peningahygmyndir og þróa með sér nýtt viðhorf. Þetta fólk upplifir sannkallaða byltingu sem endurspeglast í breyttri peningahegðun.