c

Pistlar:

20. apríl 2015 kl. 10:50

Edda Jónsdóttir (eddajonsdottir.blog.is)

Tuttugu sekúndur af hugrekki

Nýlega lærði ég nytsamlega aðferð til að takast á við ótta. Hún byggir á þeirri hugmynd að við þurfum einungis að vera hugrökk í tuttugu sekúndur í senn til að framkvæma það sem við óttumst. Ég ætla að tileinka mér þessa aðferð til að verða hugrakkari.

Hugrakkir breyta heiminum

Brautryðjendur eru hugrakkir. Fólk sem þorir að synda á móti straumnum, hugsa öðruvísi en ríkjandi hefðir segja til um og gera hlutina á nýstárlegan hátt. Brautryðjendur eiga það einnig sameiginlegt að hlýða köllun. Þeir segjast oft eins og knúnir áfram af þörf til að koma einhverju ákveðnu til leiðar. Þeir bara verða. Merkilegt fyrirbæri í sjálfu sér og áhugavert að velta fyrir sér.

Ég er heilluð af brautryðjendum og fólki sem þorir að standa með sjálfu sér og fylgja hjartanu. Það krefst hugrekkis og jafnvel stundum fífldirfsku. Brautryðjendur eru leiðtogar sem þora að brjóta blað í sögunni.

Mér eru ofarlega í huga konurnar sem börðust fyrir kosningarétti kvenna fyrir réttri öld. Hugmyndin um að konur mættu kjósa þótti mörgum fáránleg og þær sem veittu henni brautargengi voru af sumum taldar galnar. Hundrað árum síðar finnst okkur konum sjálfsagt að fá að kjósa. Svo sjálfsagt að við leiðum sjaldnast hugann að baráttu brautryðjendanna forðum daga.

Hugrekki löggjafans

Stundum er það þannig að löggjafinn fer á undan samfélaginu á þann hátt að sett eru lög sem gera það að verkum að við verðum að skoða hug okkar og taka afstöðu. Vegna þess að ég er sérstök áhugamanneskja um hugrekki, þá er ég mjög hrifin af því þegar slíkt gerist.

Dæmi um löggjöf af þessu tagi eru lög um kynjakvóta í stjórnum fyrirtækja og lífeyrissjóða. Lögin tóku gildi í september 2013 eða fyrir hálfu öðru ári.

Löggjöfin um kynjakvóta var á undan almenningsálitinu. Þegar löggjöf er þannig, markar hún ákveðin tímamót og oft tekur tíma fyrir samfélagið að aðlaga sig að breyttum hugsunarhætti og breyttum háttum. Nýjustu rannsóknir hérlendis hafa sýnt að viðhorf til kynjakvóta eru jákvæðari nú en fyrir lagasetninguna.

Beitum hugrekkinu

Nú hvet ég þig lesandi góður, til að tileinka þér aðferðina sem ég minntist á í upphafi greinarinnar. Mundu að þú þarft bara tuttugu sekúndur af hugrekki. Ekki láta óttann stoppa þig. Breyttu því sem breyta þarf. Vertu leiðtogi. Vertu brautryðjandi!

Edda Jónsdóttir

Edda Jónsdóttir

Edda er leiðtogamarkþjálfi CPC sem sérhæfir sig í valdeflingu einstaklinga og teyma. Pistlar Eddu fjalla um fjárhagslega hæfni, leiðtogafærni og hugarfarsbreytingar.

Edda á og rekur EddaCoaching - www.eddacoaching.com. 

Meira