c

Pistlar:

5. maí 2015 kl. 11:02

Edda Jónsdóttir (eddajonsdottir.blog.is)

Hvað skiptir þig mestu máli?

Það er nauðsynlegt að staldra við með reglulegum hætti og spyrja sig hvað skiptir mestu máli. Kjarnagildin okkar eða grunngildin ættu að vera rauður þráður í lífi okkar. Það er nauðsynlegt til að við upplifum samhljóm og hamingju. Ef við erum ekki trú okkar sannfæringu og sættum okkur við málamiðlanir, þá endurspeglast það á öllum sviðum lífs okkar.

Hamingjan í húfi

Þeir sem eru meðvitaðir um kjarnagildin sín og heiðra þau í verki með því að leyfa þeim að vera rauður þráður í lífi sínu, eru líklegri til að vera hamingjusamir. Þeir sem hins vegar eru illa áttaðir þegar kemur að gildum sínum og láta innri viðvaranir jafnvel lönd og leið, eru gjarnan ósáttir og upplifa ósamræmi í lífi sínu.

Tökum dæmi um manneskju sem hefur kjarnagildið frelsi. Setjum hana nú í mismunandi aðstæður. Í öðru tilfellinu er þessi manneskja í vinnu þar sem hún þarf að mæta á tilskildum tíma og ræður ekki verkefnum sínum sjálf. Hún hefur yfirmann sem vantreystir henni. Þessi vinna veitir henni enga fró enda er umgjörðin þannig að frelsið rúmast illa þar. Í hinu tilfellinu er þessi manneskja í gjöfulu umhverfi sem gefur henni byr undir báða vængi. Hún er sjálfstætt starfandi og verkefnafjöldinn er slíkur að hún hefur frelsi til að velja og hafna. Það er augljóst að þessi manneskja þrífst betur í síðari aðstæðunum þar sem kjarnagildið hennar, frelsi, fær notið sín.

Grunngildi fyrirtækja

Á undanförnum árum hefur færst í aukana að gildi séu skilgreind hjá fyrirtækjum og stofnunum. Heilmikill ávinningur felst í því að starfsmenn séu meðvitaðir um gildin og að þau endurspeglist í störfum þeirra. Tökum dæmi um fyrirtæki þar sem þjónustu er ábótavant og margir viðskiptavinir hafa hætt viðskiptum af þeim sökum. Með því að starfsmenn horfist í augu við raunveruleikann og endurskilgreini grunngildi fyrirtækisins, er hægt að breyta um kúrs. Nú þegar góð þjónusta er eitt af grunngildunum, leggja starfsmenn sig fram um að þjónusta við viðskiptavini sé fyrsta flokks og að þeir upplifi að þörfum þeirra sé mætt í hvívetna. Orðstír fyrirtækisins byggir á þessarri einstöku þjónustu. Uppskeran er trygglyndi viðskiptavina sem segja vinum og ættingjum fúslega frá ánægju sinni. Besta auglýsingin er oft fólgin í slíkri umsögn.

Grunngildi fjölskyldunnar

Það er skemmtileg æfing nú í byrjun sumars að setjast niður með fjölskyldunni og skilgreina gildi hennar í sameiningu. Hver meðlimur fjölskyldunnar getur sett fram sitt grunngildi og markmiðið er að á endanum séu allir sammála um eitt til þrjú gildi sem fjölskyldan hefur að leiðarljósi.

Sem dæmi má nefna fjölskyldu sem er sammála um að gildi hennar eru virðing, gleði og samstaða. Þessi gildi endurspeglast í lífi fjölskyldunnar á þann hátt að þau bera virðingu hvort fyrir öðru í orði og verki. Þau hafa gleðina að leiðarljósi á samverustundum fjölskyldunnar. Leggja sig fram um að gleðja hvort annað og deila því sem hefur glatt þau að undanförnu. Samstaðan endurspeglast í því að þau styðja hvort annað með ráði og dáð. Hjálpast að og létta undir hvort með öðru.

Hvernig endurspeglast þín gildi í þínu daglega lífi? En inni á vinnustaðnum eða í frístundum þínum með fjölskyldu eða vinum? Staldraðu við og spurðu þig hvað skiptir þig mestu máli.

Edda Jónsdóttir

Edda Jónsdóttir

Edda er leiðtogamarkþjálfi CPC sem sérhæfir sig í valdeflingu einstaklinga og teyma. Pistlar Eddu fjalla um fjárhagslega hæfni, leiðtogafærni og hugarfarsbreytingar.

Edda á og rekur EddaCoaching - www.eddacoaching.com. 

Meira