Nú er óvenjulangur vetur að baki og geislar maísólarinnar teknir að verma okkur - að minnsta kosti um hjartaræturnar. Lóan er komin og sumarið er á næsta leiti. Engu að síður kveinkuðu sér margir við tóna vekjaraklukkunnar í morgun og freistuðust jafnvel til að snúa sér á hina hliðina.
„Ooh fimm daga vinnuvika framundan“ (sem er reyndar óvenjulegt í maí). „Ekki annar mánudagur...“ og ýmislegt í þeim dúr gerði vart við sig í hugarfylgsnum þeirra sem stigu þungum skrefum inn í daginn.
Mánudagur til?
Hugmyndin um mánudag til mæðu hefur náð fótfestu í samfélaginu en óhætt er að segja að mánudagur hafi verið dæmdur ranglega. Dagurinn markar upphaf nýrrar viku og á sama tíma upphaf nýrra tækifæra. Hann er táknmynd þess lögmáls að við sem manneskjur höfum alltaf val um að snúa við blaðinu. Að velja hvernig við verjum deginum í dag. Í því felst mikið vald og heilmörg tækifæri.
Þegar ég var sautján ára gömul tók ég meðvitaða ákvörðun um að gera mánudag að uppáhaldsdeginum mínum. Hversdagsleikinn skyldi ekki fá að umvefja þennan dag vikunnar, nema síður væri. Ég gerði mér far um að vera vel til fara og gera mér dagamun á mánudögum. Tilhlökkun og hátíðleiki urðu smám saman hluti af þessum einstaka degi – mánudegi.
Í gegnum árin hefur ýmislegt skemmtilegt bæst á listann yfir mánudagsgjörðirnar. Um nokkurra ára skeið gerði ég mér far um að brosa til ókunnugra á mánudögum og slá fólki á förnum vegi gullhamra. Það er einstaklega gefandi iðja, sem ég mæli með að fólki prófi.
Prófaðu í dag
Nú hvet ég þig til að prófa, þó ekki sé nema í dag, að gera mánudag að uppáhaldsdeginum þínum. Smelltu uppáhaldslaginu þínu á (i)fóninn, taktu lagið, bjóddu elskunni þinni upp í dans á eldhúsgólfinu, rappaðu með barnabarninu þínu – í stuttu máli: gerðu það sem vekur með þér gleði.
Var það ekki Gríslingur sem spurði Bangsimon hver uppáhaldsdagurinn hans væri og hann svaraði að bragði: „Dagurinn í dag!“