c

Pistlar:

15. júní 2015 kl. 10:41

Edda Jónsdóttir (eddajonsdottir.blog.is)

Fáir njóta eldanna sem fyrstir kveikja þá

Þann 19. júní fögnum við aldarafmæli kosningaréttar íslenskra kvenna. Á þessum merku tímamótum er vert að staldra við og spyrja hvað við getum lært af útsjónasemi og elju þeirra kvenna sem ruddu brautina. Baráttan fyrir kosningarétti var löng og orðræðan oft hatrömm. En þær gáfust ekki upp og höfðu betur að lokum.

Ábyrgð hverrar kynslóðar

Hver kynslóð þarf að vera meðvituð um verk sín og setja þau í samhengi við söguna. Þar skiptir einstaklingurinn máli og ákvarðanir hvers og eins. Hugsið ykkur ef Bríet Bjarnhéðinsdóttir hefði skorast undan og ekki hlýtt kallinu um að berjast fyrir réttindum kvenna. Eða ef Ingibjörg H. Bjarnason hefði sagt nei við að verða fyrsta konan til að taka sæti á Alþingi. Mér verður oft hugsað til þessarra kvenna og hugrekki þeirra veitir mér innblástur.

Með hugrekkið að vopni

Samfélagsleg umræða okkar tíma er slík að margir kæra sig hvorki um að taka þátt í henni né að fylgjast með henni. Neikvæðni, sleggjudómar og persónulegar árásir í athugasemdakerfum, fæla fólk frá því að ganga fram fyrir skjöldu og fara fyrir breytingum á opinberum vettvangi. En konurnar sem börðust fyrir kosningarétti fóru ekki varhluta af þessu á sínum tíma. Þó engin hafi verið athugasemdakerfin eða bloggsíðurnar, var orðræðan rætin og baráttan krafðist hugrekkis.

Verum meðvituð um baráttu þeirra sem hafa rutt brautina og hugsum til þess með hvaða hætti við ætlum að setja mark okkar á söguna. Bæði sem einstaklingar og sem samfélag. Veljum við að skrifa öll okkar bestu ljóð í öskuna eða veljum við að stíga fram og láta rödd okkar heyrast svo um munar?

Edda Jónsdóttir

Edda Jónsdóttir

Edda er leiðtogamarkþjálfi CPC sem sérhæfir sig í valdeflingu einstaklinga og teyma. Pistlar Eddu fjalla um fjárhagslega hæfni, leiðtogafærni og hugarfarsbreytingar.

Edda á og rekur EddaCoaching - www.eddacoaching.com. 

Meira