„Ég er að safna undirskriftum. Viltu skrifa undir?“ Svona hófst samtal sem ég átti á götu í erlendri borg nýverið. Maðurinn var alls ekki að safna undirskriftum heldur áheitum og tilgangurinn var sá að fá mig til að láta peninga af hendi fyrir óljósan málstað. Þessi samskipti urðu kveikjan að því að ég fór að velta fyrir mér samskiptaháttum og menningu. Fyrirbærið misskilningur var mér ofarlega í huga og það hvernig misskilningur er oftar en ekki tilkominn. Nefnilega vegna þess að við tjáum okkur ekki skýrt þannig að viðmælandinn skilur okkur á annan hátt heldur en ætlunin var eða hreinlega við leggjum mismunandi skilning í orðin sem notuð eru.
Bein og óbein skilaboð
Það viðgengst víða í íslensku samfélagi að nota óbein skilaboð. Þetta á bæði við inni á heimilum, í samskiptum stórfjölskyldunnar, milli vina, inni á vinnustöðum og jafnvel hjá opinberum stofnunum. Óbein skilaboð eru í raun og veru einkennilegur samskiptamáti ef vel er að gáð og við gætum bætt samfélagið til mikilla muna með því að draga úr notkun þeirra. Þetta er nefnilega óheilbrigður samskiptamáti sem byggir á því að setja ábyrgðina yfir á aðra og vonast til þess að útkoman verið sú sem maður óskar eftir. Tökum dæmi: Tveir starfsmenn fyrirtækis hafa unnið að því að undirbúa fund og það var í verkahring annars þeirra að prenta út skjöl til að dreifa á fundinum. Rétt fyrir fundinn hittast starfsmennirnir og sá sem átti að prenta út segir: „Æi, ég hef haft svo mikið að gera að ég hef gleymt að prenta út skjölin fyrir fundinn.“ Svo kemur þögn. Hann varpar ábyrgðinni yfir á hinn starfsmanninn og ef sá hinn sami tekur hana, gæti svarið verið: „Ég skal prenta þau út!“ (Hinn sleppur við að taka ábyrgð). Hér væri betra að sleppa því að taka ábyrgðina og segja þess í stað: „Þá ættirðu að drífa þig því fundinn fer að hefjast.“
Tökum dæmi um sömu tvo starfsmennina sem hafa verið að undirbúa fundinn, hafa skipt með sér verkum en sá sem átti að prenta út, er ekki búinn að því. Með því að nota bein skilaboð gætu samskiptin verið á þessa leið: „Ég hef gleymt að prenta út skjölin fyrir fundinn. Geturðu hjálpað mér?“ Þá hefur hinn aðilinn val um að segja já eða nei og sá sem gleymdi tekur ábyrgðina í stað þess að varpa henni yfir á hinn aðilann.
Skilurðu mig?
Ég er ein þeirra sem á ekki gott með að skilja óbein skilaboð. Ég misskil þau mjög oft, sem er grunnurinn að ýmsu, bæði skondnu og einnig dramatísku í lífi mínu. Þetta hefur orðið til þess að ég hef þurft að þróa samskiptahæfni mína með markvissum hætti og venja mig á að spyrja spurninga þar til ég er alveg viss um að ég hafi skilið það sem ætlunin var að koma á framfæri. Ég ætla ekki að halda því fram að mér takist alltaf vel til, því það væri ofsögum sagt. En í seinni tíð er ég alla jafna nokkuð meðvituð um þessa tilhneigingu mína og er jafnvel farin að líta á hana sem styrkleika. Ég hef sagt bestu vinum mínum og fjölskyldu frá því að ég sé svona og því sé best að nota bein skilaboð og vera skýr.
Markþjálfunin byggir á því að spyrja spurninga og komast til botns í málum með því að spyrja enn fleiri spurninga. Svo þar hef ég fengið byr undir báða vængi. Með aðferðum markþjálfunarinnar er algjörlega komið í veg fyrir óbein skilaboð. Þar er spurt um: Hvað? Hvernig? og umfram allt - Hvenær? Allt skýrt og enginn misskilningur. Dásamlegt!
Hvað meinarðu?
Hefurðu velt því fyrir þér hvernig þú ert í samskiptum? Notarðu skýr skilaboð og tjáir þig þannig að þú takir ábyrgð á því sem þér ber? Eða notarðu óbein skilaboð og verð jafnvel miklum tíma í að velta fyrir þér hvað þessi og hinn hafi meint með því sem hann sagði (jafnvel endur fyrir löngu)? Það er tilvalið að skoða sjálfan sig og samskipti sín og vera vakandi fyrir því hvernig maður notar orð og jafnvel svipi og hreyfingar í samskiptum. Prófaðu að spyrja spurninga í stað þess að draga ályktanir. Það krefst ef til vill smávegis æfingar en það er einstaklega góð leið til að skilja samferðafólkið betur og koma í veg fyrir misskilning.