c

Pistlar:

19. október 2015 kl. 9:01

Edda Jónsdóttir (eddajonsdottir.blog.is)

Úr viðjum vanans

Nú þegar haustmyrkrið vofir yfir og daginn hefur stytt til mikilla muna, eiga mörg okkar erfitt með að koma okkur frammúr á morgnana. Orkan sem leysist úr læðingi með vorsólinni og sumarnóttunum björtu, er í rénum og eftir sitjum við berskjölduð gagnvart snemmvetrarsleninu. Þrátt fyrir tryggð okkar við lýsisflöskuna og græna grænmetið, læðist gamall félagi inn í líf okkar – vaninn. Sá gamli lætur gjarnan á sér kræla á þessum árstíma, áður en jólaljósin eru sett upp og eftirvænting aðventunnar gefur okkur grið um stundarsakir. Að minnsta kosti þar til janúar skellur á með náttmyrkri og eilitlu sólarljósi um miðbik dagsins. En þó varla svo telja megi.

Kringumstæður eða vani?

En skipta kringumstæður, veður, vindar, sólarljós og sólarleysi virkilega svona miklu máli? Eru þetta þættir sem ráða úrslitum um líðan okkar og stýra því hversu vel okkur gengur í lífi og starfi? Eða eru þetta ef til vill þættir sem við notum til friðþægingar gagnvart sjálfum okkur þegar við erum föst í viðjum vanans og neitum að hefja okkur yfir kringumstæður okkar?

Á lappir með þig!

Þessi setning endurómar og á sér tilvist í nútíð minni og fortíð. Ég sé móður mína fyrir mér þar sem hún stendur við rúmið mitt og starir á mig í forundran. „Á lappir með þig“, segir hún. „Ætlarðu að verða of sein í skólann?“

Ég stend við rúm sonar míns í morgunsárið og sömu setningar enduróma í nútíðinni.

Svona er það einnig með vanann. Hann endurómar gjarnan í fortíð og nútíð. Fjölmargar rannsóknir staðfesta það sem Mick Jagger söng um svo eftirminnilega að gamall vani á sér langa lífdaga, í laginu „Old habits die hard“.

Góðar venjur

Sumt af því sem við höfum vanið okkur á, einkennir okkur og við skilgreinum okkur jafnvel útfrá mörgu af því. Þarna á ég við margt af því sem við gerum daglega, vikulega, mánaðarlega, árlega eða að minnsta kosti með reglubundum hætti. Sumt af því sem við höfum vanið okkur á er gott og gilt og þjónar tilgangi í lífi okkar. Til dæmis góðar peningavenjur sem viðhalda fjárhagslegu heilbrigði, góðar matarvenjur sem viðhalda góðri heilsu og svo framvegis. En staðreyndin er sú að margt af því sem við gerum reglulega, er í mótsögn við það sem við vitum að er rétt og gott fyrir okkur. Þar erum við föst í viðjum vanans.

Úr viðjum vanans

Margir af þeim sem sérhæfa sig í að hjálpa fólki að breyta um kúrs í lífinu (undirrituð meðtalin), hafa upplifað það sem rannsóknarniðurstöður styðja. Það er ómögulegt að segja til um það hversu langan tíma það tekur fólk að breyta um venjur.

Fyrstu athuganir tengdar vana komu fram á sjöunda áratug síðustu aldar. Það var læknir sem setti fram þá tilgátu að það tæki fólk að minnsta kosti þrjár vikur að venjast nýjungum. Tilgátuna studdi hann með reynsluathugunum á fjölda sjúklinga sem hann hafði haft í sinni umsjá. Í kjölfarið voru fjölmargir sem héngu á orðum hans en sneiddu hjá þeirri mikilvægu staðreynd að hann sagði að það tæki að minnsta kosti þrjár vikur að venjast því sem er nýstárlegt og telst ekki til gamalla venja.

Niðurstöður nýjustu rannsókna staðfesta að við skyldum varast að einskorða okkur við að telja dagana eða vikurnar sem það tekur að breyta um kúrs. Það tekur suma styttri tíma en aðra lengri tíma en þó er gert ráð fyrir að miða við tvo til átta mánuði.

Það merkilega er að þrátt fyrir að okkur skriki fótur, minnkar það ekki líkurnar á að við náum árangri þegar fram líða stundir. Svo lengi sem við látum ekki mistökin ná yfirhöndinni og höldum áfram þar sem frá var horfið. Það er þó oftar en ekki hægara sagt en gert og þess vegna er viturlegt að leita sér faglegrar hjálpar. Markþjálfi hefur þann starfa að halda í höndina á þér og hjálpa þér yfir erfiðasta hjallann. Að beina sjónum þínum að árangrinum í stað ósigranna. Að móta framtíðarsýn sem byggir á frelsi en ekki gömlum venjum.

 

 

Edda Jónsdóttir

Edda Jónsdóttir

Edda er leiðtogamarkþjálfi CPC sem sérhæfir sig í valdeflingu einstaklinga og teyma. Pistlar Eddu fjalla um fjárhagslega hæfni, leiðtogafærni og hugarfarsbreytingar.

Edda á og rekur EddaCoaching - www.eddacoaching.com. 

Meira