c

Pistlar:

30. nóvember 2015 kl. 10:38

Edda Jónsdóttir (eddajonsdottir.blog.is)

Peningahegðun á aðventu

Nú er aðventan gengin í garð í allri sinni dýrð. „Sælla er að gefa en þiggja“ er yfirskrift þessarar hátíðar ljóss og friðar og undirtitillinn ef til vill – sælla er að eta en fasta.

Grunnstefið í peningahegðun okkar kemur berlega í ljós í aðdraganda jólanna og ég segi fyrir mitt leyti að ég þarf virkilega að taka á henni stóru minni. Freistingarnar liggja víða og sem betur fer er margt fólk í lífi mínu sem ég vil gjarnan gleðja. En sá annmarki fylgir að á þessum árstíma tekur mitt eiginlega peninga-DNA yfir. Peningaerkitýpurnar mínar þrjár eru nokkuð ólíkar í grunninn. Sú efsta, Dægurstjarnan, veigrar sér ekki við að eyða peningum í glys og lúxusvarning. Hún fer gjarnan á kreik á aðventunni og verður öllu öðru yfirsterkari. Hinar tvær sem mynda mitt peninga-DNA ásamt Dægurstjörnunni, eru Nærandinn sem elskar að gleðja aðra og Alkemistinn, sem er afar hrifin af hugmyndafræði jólanna og þá sér í lagi friðarboðskapnum.

Ég þarf að vera einstaklega meðvituð um að leyfa gjöfum þeirra allra að njóta sín í aðdraganda jólanna því annars getur farið illa. Birtingarmynd þess þegar Dægurstjarnan tekur yfir, er sú að ég er líklegri en ella til að telja sjálfri mér trú um að ég eigi skilið að kaupa þetta eða hitt í jólagjöf (handa sjálfri mér!) því auðvitað get ég illa treyst fólkinu í kringum mig til þess að velja rétt í minn pakka.

Já, það er virkilegt átak að vera meðvituð um eigin bresti og hegðunarmynstur tengd peningum, sem eiga sér sterkar rætur. Hvað þá að viðurkenna brestina fyrir alþjóð en ég geri það í þeirri von að mín saga kunni að hjálpa þér að bera kennsl á þitt hegðunarmynstur. Það er fyrsta skrefið að viðurkenna vanmátt sinn og í kjölfarið er hægt að leggja grunn að breytingum.

Fyrirmyndarpeningahegðun á aðventu

Sum ykkar eru ofurskipulögð og keyptuð jafnvel jólagjarnirnar á nýársútsölunum eftir síðustu jól. Þið eruð mínar fyrirmyndir og á hverri aðventu hugsa ég til ykkar með aðdáun og ögn af öfund. En þegar að útsölunni kemur í janúar hef ég öðrum hnöppum að hneppa og það hvarflar ekki að mér að kaupa jólagjafir.

Rannsóknir hafa sýnt að hegðunarmynstur stýra um 60% af hegðun okkar og þær niðurstöður má með sanni yfirfæra yfir á peningahegðun okkar. Við erum vanadýr og því upplifum við oft að það þurfi meiriháttar átak til að breyta gamalgróinni hegðun.

Jólasjóðurinn

Fyrir nokkrum árum síðan tókst mér að búa til nýtt hegðunarmynstur tengt jólunum. Ég byggði það reyndar á gömlum grunni en á menntaskólaárunum réði ég mig í vinnu eftir jólaprófin til að eiga fyrir jólagjöfnunum. Ég áttaði mig á því að fyrst ég hafði getað safnað fyrir jólagjöfunum áður, gæti ég gert það aftur – og aftur. Ég tók því þá valdeflandi ákvörðun að búa til sérstakan jólasjóð og byrja að leggja í hann í september ár hvert. Sjóðinn nota ég til að kaupa jólagjafir og jólamat. Nú á ég auðveldara með að sætta mig við að vera ekki í hópi ofurskipulagða jólafólksins því ég get að minnsta kosti státað af þessarri jákvæðu peningahegðun í aðdraganda jólanna. Og svo lengi sem ég get stillt mig um að nota sjóðinn til að kaupa lúxusjólagjafir handa sjálfri mér, þá er ég í nokkuð góðum málum.  

Andi liðinna jóla

Þegar ég lít til baka og skoða peningahegðun mína á aðventu í sögulegu samhengi, eru ein jól mér sérlega minnistæð. Það voru fyrstu jólin sem ég fór sjálf niður á Laugaveg með mína eigin peninga og keypti jólagjafir fyrir foreldra mína og bróður. Þetta var árið 1984 og ég var níu ára gömul. Ég hafði meðferðis einn fimmhundruð krónu seðil og fyrir hann keypti ég snjóþotu handa litla bróður mínum og eitthvað smálegt handa foreldrunum. Full stolti pakkaði ég gjöfunum inn, merkti og setti undir tréð. Þarna upplifði ég í fyrsta skipti að sælla er að gefa en þiggja.

Eldsnemma á jóladagsmorgun vakti litli bróðir mig og bað mig að koma út að leika með snjóþotuna. Full gleði og eftirvæntingar fórum við út í snjóinn með þoturnar okkar og renndum okkur aftur og aftur niður snæviþakta brekkuna. Þakklæti hans fyrir uppáhaldsjólagjöfina og gleðin sem fylgdi líkamlegu áreynslunni, umlykur þennan dag í minningunni. Ég get nú sótt tilfinningarnar sem fylgdu upplifuninni og notað þær til að minna mig á hvað það er sem skiptir mig raunverulega máli í aðdraganda jólanna.

 

Edda Jónsdóttir

Edda Jónsdóttir

Edda er leiðtogamarkþjálfi CPC sem sérhæfir sig í valdeflingu einstaklinga og teyma. Pistlar Eddu fjalla um fjárhagslega hæfni, leiðtogafærni og hugarfarsbreytingar.

Edda á og rekur EddaCoaching - www.eddacoaching.com. 

Meira