Margir líta svo á að skemmtun og gleði tilheyri aðeins afmörkuðum hluta lífsins. Athafnir sem flokkast undir skemmtanir eru gjarnan að hitta vini og jafnvel fjölskyldu þar sem opinberi tilgangurinn er sá að gleðjast. Aðrir skemmta sér best við líkamsrækt hverskonar og enn aðrir við að fylgjast með íþróttaiðkun annarra.
Þar fyrir utan ríkir oft takmörkuð gleði í lífi fólks og það upplifir ekki að það sé sérstök ástæða til gleðjast í hinu daglega lífi. En þar sem hversdagslífið er mjög stór þáttur í lífi okkar flestra, þá er góð hugmynd að auka gleðistuðulinn í lífinu almennt. En hvernig gerum við það?
Hvað finnst þér skemmtilegt?
Mörgum þykir ekki gaman í vinnunni og upplifa vinnustundirnar sem hálfgera afplánun sem veitir þeim aðgang að frítíma til að gera það sem þeim finnst skemmtilegt. Hvort sem ástæðan er sú að verkefnin sem viðkomandi ber ábyrgð á í vinnunni, eru ekki nægjanlega krefjandi til að geta talist skemmtileg eða fólkið á vinnustaðnum er nöldurgjarnt og með neikvæð viðhorf, eða ástæðurnar eru einhverjar allt aðrar, þá snýst þetta allt um viðhorf okkar sjálfra og að taka ákvörðun um að breyta. Viltu hafa lífið skemmtilegt eða viltu láta þér leiðast?
Ef þér hefur einhvern tíma fundist skemmtilegt í vinnunni, skaltu gera lista yfir það sem gerði það að verkum að þú upplifðir gleði. Spurðu þig einnig hver ástæðan að baki gleðiskortinum er raunverulega. Hefur hún með umhverfið að gera eða hefur hún ef til vill með þig að gera? Gætir þú ef til vill orðið uppspretta gleði á vinnustaðnum?
Eitt bros getur dimmu í dagsljós breytt
Í dagvöruverslun Bónus úti á Granda í gamla Vesturbæ Reykjavíkur, vinnur kona sem flestir hafa heyrt af. Hún heitir Francisca og hefur tekið ákvörðun um að glæða lífið gleði. Hún brosir til allra, býður fólk velkomið og spyr hvernig dagurinn gangi.
Hegðun Franciscu er til fyrirmyndar og hún byggir á ákvörðun hennar um að vera glöð. Sama hvernig viðrar og sama hvað gengur á. Það er nefnilega ekki þannig að Francisca sé glöð því lífið hafi aldrei fært henni áskoranir til að takast á við. En Francisca hefur valið að takast á við mótlæti með gleði og bros á vör.
Hún er einstök kona en staðreyndin er sú að við höfum það öll í hendi okkar að taka ákvörðun um að vera glöð. Það hefst allt með brosinu, því þegar við brosum, þá tekur endorfínið að streyma um æðar okkar og fljótlega upplifum við gleði, því endurfín er gleðihormónið. Einfalt og gott. Það magnaða er að brosið þarf ekki einu sinni að vera „ekta“. Rannsóknir hafa sýnt að það er nóg að færa munnvikin í sundur og halda þeim þannig. Svo það er ágætt ráð að byrja á að æfa sig þannig ef brosmildin lætur á sér standa.
Nokkur góð ráð
Ég var alin upp við að það væri ekki allt skemmtilegt en sumt væri nauðsynlegt að gera engu að síður. Ég veit að fólkinu mínu gekk gott eitt til og vildi svo gjarnan að ég temdi mér að standa mig vel í öllu því sem ég tek mér fyrir hendur, óháð skemmtanagildi. Ég komst hins vegar snemma að því að ef mér þykir ekki gaman, þá fer mér fljótt að leiðast. Ung að árum tamdi ég mér því að gera hlutina skemmtilega og þróaði leiðir til að flétta skemmtun inn í athafnir sem mér leiddust. Þannig áttaði ég mig til dæmis á því að mér þykja skúringar skemmtilegar ef ég leik mér með kústinn og læst syngja í skaftið við góða tónlist. Ég tek það fram að ég geri þetta enn í dag og flestir þeirra sem þekkja mig hafa heyrt mig tala um skemmtanagildi skúringa.
Hvað þvottinn varðar, þá lærði ég að flétta þakklætinu inn í þær athafnir sem snúa að því að þvo þvott. Góð vinkona mín benti mér nefnilega réttilega á að vera þakklát fyrir að eiga fjörug börn til að þvo fötin af. Já, hversdagslegar athafnir má svo sannarlega glæða lífi með ýmsum hætti. Sannaðu til.
Gaman í vinnunni
En hvað geturðu gert til að auka gleðina í vinnunni? Fyrir utan það að brosa og sýna samstarfsfólkinu hlýju og virðingu, geturðu átt frumkvæði að því að gera skemmtilega hluti. Hvað með að einu sinni í viku komi allir saman og hlusti á einn vinnufélaga segja frá því sem viðkomandi finnst skemmtilegt að gera í frístundum?
Ef til vill leynast golfsnillingar, rithöfundar, prjónahönnuðir, göngugarpar og jafnvel sjálfboðaliðar, sem leggja þeim sem minna mega sín lið í frítímanum, á þínum vinnustað og þú hefur ekki hugmynd um það.
Ég hvet þig til að taka ákvörðun um að hafa gaman á árinu 2016 og umfram allt að gleðja fólkið í kringum þig með brosmildi og hlátri. Njóttu þess að vera til og gerðu lífið skemmtilegt!